fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fókus

Vigdís Hauksdóttir gerir upp árin í borgarstjórn – ,,Það var gengið fram með offorsi og þjösnaskap“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 5. júní 2022 09:00

Vigdís Hauksdóttir. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Ég er ekki að nenna að standa í þessu ströggli í fjögur ár til viðbótar. Það er sama hvað maður kom fram með frábærar hugmyndir og ferskar tillögur, það var sífellt verið að gera lítið úr manni. Þetta andrúmsloft og einelti í ráðhúsinu er auðvitað búið að vera ráðandi frá 2014 og reyndar alveg frá 2010. Sjáðu bara hvað Ólafur F. Magnússon hefur verið að skrifa á Facebook síðuna sína. Og á kjörtímabilinu á eftir var það Sveinbjörg Birna sem lenti í þessu.

Þeir þurfa alltaf að hafa einhvern til að djöflast í, þessi eineltismenning í ráðhúsinu er ógeðsleg,” segir Vigdís Hauksdóttir, á sínum síðasta degi sem borgarfulltrúi. 

 ,,En ég hef alltaf staðið upp í þessu fólki og ekki látið neitt buga mig. Þau völdu sér rangan andstæðing í mér með að halda að þau gætu knésett mig. En það sem er búið að ganga á!” 

Ég er eins og ég er

Vigdís ákvað um síðustu áramót að gefa ekki kost á sér til endurkjörs en gaf það ekki út fyrr en í mars, hún vildi klára sitt kjörtímabil með sóma og reisn. 

Vigdís í borgarstjórn.

,,Ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð orðin stór því ég hef skipt svo oft um farveg. Og þetta hefur aldrei verið neina dramantík heldur eitthvað sem ég hef sjálf tekið ákvarðanir um. Ég er eins og ég er.” 

Vigdís segir flesta hafa haldið að starf biði hennar þar sem hún tók sjálf þá ákvörðun að hætta en hún segir það af og frá, hún hafi gert það sama á þingi.

,,Ég held að þetta sé svolítið munurinn á körlum og konum, mér finnst karlar vera miklu þaulsætnari en konur í stjórnmálum. Þetta er einhver lenska og oftar en ekki er þetta fólk einfaldlega kosið í burtu. Og hvernig líður því þá?”

Vigdís ætlar að taka tvo mánuði í að slaka á og leika sér. ,, Það er búið að vera mikið ströggl og streð að vera í borgarstjórn, ekki síst út af því að ég er þannig manneskja að ef ég tek eitthvað að mér fer ég alla leið. Síðan fer ég að leita mér að starfi, enda ekki með fyrirvinnu og stend á því á eigin fótum. Ég er ekki manneskja sem slakar á og veit að það bíður mín eitthvað handan við hornið” 

,,Og þá voru börnin mín föðurlaus“

Vigdís segir líf sitt hafa verið kaflaskipt. ,,Ég er garðyrkjufræðingur og lögfræðingur. Fyrst var ég á kafi í garðyrkjunni og blómunum, fór til Danmerkur að læra blómaskreytingar og varð fyrsti Íslandsmeistarinn í blómaskreytingum. Kom svo heim og stofnaði með Garðyrkjuskólanum blómaskreytingadeild og var fyrsti fagdeildarstjórinn.” 

Vigdís Hauksdóttir. Mynd/Anton Brink

Vigdís var gift i tíu ár, frá 1992 til 2002, þegar hún skildi og voru börnin tvö þá 5 og 11 ára. Hún ákvað að skipta um gír, vildi vinna með hausnum og fór í lögfræði á á Bifröst sem hún segir hafa verið sinn blómatíma, hreint geggjað tímabil, eins og hún orðar það. Hún útskrifaðist með meistaragráðu árið 2008 og leiddist úr í pólitíkina. 

,,Sama ár veiktist pabbi barnanna og hann lést úr krabbameini tveimur árum síðar.” 

Vigdís þagnar, það er augljóst að minningarnar taka á.  ,,Og þá voru börnin mín föðurlaus. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera, sem betur fer hafði ég enga reynslu af slíku en það var mjög spes að vera fyrrverandi eiginkona með látinn mann. En það er náttúrulega allt mjög spes í kringum mig.” 

Dvel ekki í fortíðinni

Vigdís var á þessum tímapunkti aðeins búin að vera á þingi í eitt ár og viðurkennir að vissulega hafi þetta verið álagstími. 

,,En ég dvel ekki við fortíðina og er þannig gerð að sjá björtu hliðarnar á öllum málum. Auðvitað hef ég gengið í gegnum erfiðleika eins og aðrir en hef þann hæfileika að geta keyrt áfram og sjá það bjarta í öllu. Ef ég hef gert mistök lít ég á hvað hefði getað farið verr. Það er svo slæmt fyrir sálina að festast á einum stað, þá stoppar lífsstreymi viðkomandi manneskju.”

Vigdís ásamt syni, dóttur og tengdasyni. Börn hennar eru nú 23 og 29 ára gömul

Vigdís segist auðvitað hafa ,,deitað” en aldrei farið í sambúð eftir skilnaðinn. ,,Og ég er ekki viss um að ég myndi gera það, jafnvel þótt ég myndi finna draumaprinsinn, en hvað veit ég? Lífið er óútreiknanlegt. Og því trúi ég því að það komi eitthvað til mín núna þegar ég er hætt því það hefur alltaf gerst.” 

 Þegnskylduvinna og hræðsla

Vigdís viðurkennir að vera pínu þreytt en það hafi aldrei komið til greina að gefast upp. ,,Það er ekki þess vegna sem ég er að hætta. Ég nenni aftur á móti ekki lengur þessu ofríki og valdafíkn sem ríkir í ráðhúsinu. Ráðhúsið er orðið eins og stofnanir verða þegar menn sitja alltof lengi og ég er búin að fá nóg af þessu. Það er baneitrað andrúmsloft þar inni og samfélagið þar orðið meðvirkt.”

 Vigdís er þungorð um fráfarandi borgarstjóra. ,,Dagur er búinn að sitja þarna meira eða minna í tuttugu ár og á alla embættismennina. Tuttugu ár eru heill lífaldur.  Og þegar að einn maður verður þetta valdamikill og ræðu bara til sín það fólk sem hann vill, þá verður þetta einskonar þegnskylduvinna. Hann hræðir fólk til hlýðni.” 

Spillingin

Vigdís segir Dag ekki geta sett sig í spor hins venjulega Reykvíkings, hann hafi einkabílstjóra og látið byggja torg fyrir framan heimili sitt upp á 380 milljónir króna. Auk þess sé hann með undanþágu í húsi sínu varðandi aðgengi fatlaðra. 

,,Af hverju er enginn að tala um þetta? Af hverju heyrist ekkert um spillingarmálin? Af hverju er hann svona margvaldaður? Hann hlýtur að vera með sína trúnaðarmenn hjá fjölmiðlum. RÚV mun aldrei fjalla um þetta eftir að borgarritari gerðist útvarpsstjóri. En ef að þetta væri Sjálfstæðismaður, ég, eða einhver annar get ég lofað að það væri búið að þekja húsið með eggjum.

En hann kemst upp með þetta,” segir Vigdís.  

Einar mulinn

Talið berst að skipulagningu 140 íbúða innan girðingar Reykjavíkurflugvallar, sem Vigdís segir galið þar sem ríkisstjórnin ætli að halda vellinum. ,,Eða að gefa olíufélögunum allar þessa lóðir? Það svakalegt og þar er ekki Reykjavíkurborgar að breyta olíufélögunum í fjárfestingar- og eignarhaldsfélög. Hvað hangir á spýtunni? Hvað liggur að baki?

Ég veit það ekki en einhverja gæti kannski grunað greiðslur eða mútur þó að ég sé alls ekki að halda neinu slíku fram.” 

Vigdís segir Dag svo öruggan í sinni stöðu að hann komi aldrei til með að sleppa. 

,,Fólk hefur oft haft á orði við mig að það sé sama hversu oft sé kosið, Dagur B komi alltaf upp úr kjörkössunum. Hann er svo einráður og mér finnst þessi hegðun, og það vald sem hann hefur tekið sér, hreint út sagt ógeðslegt. 

Og þess vegna er ég hrædd um að Einar Þorsteinsson verði mulinn niður.”

Offors og þjösnaskapur

Vigdís er stolt af því að hafa náð að fara í taugar fráfarandi meirihluta.

,,Það var rosalegt ástand á kjörtímabilinu og það var gengið fram með offorsi og þjösnaskap gegn ákveðnum aðilum. Kjartan Magnússon var til dæmis einu sinni spurður að því hvort hann hefði gleymt að taka Alzheimer lyfin sín þann morgunin. Það var alltaf einhver valinn til að taka niður til að taka tennurnar úr svo að Dagur og félagar gætu stjórnað í friði. Það er auðvitað voða gott að stjórna með því að gera alla hrædda og ráðast persónulega á fólk sem mótmælir.” 

Vigdís Hauksdóttir. Mynd/Anton Brink

Vigdís segist aftur á móti ekki vera manneskju til að taka slíku þegjandi. ,,Ég kom þekkingarlega sterk inn í ráðhúsið. Ég var búin að vera þingmaður, þar sem ég gerði ekki annað en að lesa lagafrumvörp og þingsályktunartillögur, ég var formaður fjárlaganefndar með fjárlög ríkisins undir auk þess að vera lögfræðingur. Það var oft reynt að halda því fram að ég hefði ekki vit á hlutunum, sem er út í hött því ég kom svo málefnalega sterk inn.

Og það var alveg nýtt fyrir þeim, þau áttu mjög erfitt með að höndla það.”

Allt reynt til að taka niður

Vigdís segir að samt sem áður taki hún afar góðar minningar með sér úr ráðhúsinu, hún hafi sagt og gert það sem hún taldi rétt og staðið upp í því sem hún kallar firru. ,,Ekki það að borgarritari og skrifstofustjóri borgarstjóra hafi ekki elt mig um, dreift um mig lygasögum og sakað mig um alls kyns ógeð. Sem endaði auðvitað í því að þau urðu að víkja enda benti ég alltaf á að þetta fólk væri ráðið en ég aftur á móti kosin af borgurunum.

Og ef að þeim líkaði ekki við störf mín yrðu þau að víkja, ekki ég.” 

Vigdís segir allt hafa verið reynt til að taka hana niður. ,,Skrifstofustjóri Dags sakaði mig meira að segja um einelti, kona sem ég hafði hitt á tveimur fundum. Þetta var algjörlega fjarstæðukennt en dæmi um ruglið og vitleysuna sem átti sér stað. Ég fór meira að segja með þetta fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga, var komin með lögmann og sendi málið til Persónunefndar, sem tók undir með mér. Þeir töpuðu slag eftir slag á móti mér og svo fór að Svandís Svavarsdóttir bjargaði þessari konu inn í heilbrigðisráðuneytið.” 

Hún bætir við henni þyki best að taka með sér hvað fólk hefur haft samband í miklum mæli. ,,Það er að þakka mér fyrir að standa með starfsfólkinu á móti eineltinu og ógeðinu sem á sér stað hjá borginni. Og það þykir mér einstaklega vænt um.”

Pútínismi

,,Veistu bara? Ég var í kveðjuhófi í Höfða í síðustu viku og Dagur gerðist frekar dónalegur og sagðist eiga eftir að sakna okkar flestra. En ekki allra. Og horfði beint á mig. Hann hefur sennilega haldið að myndi uppskera hlátur sem hann gerði ekki. 

Hann blandar alltaf sínum persónulegu tilfinningum inn í hlutina, þetta er hálfgerður Pútínismi. Maður er eltur út í hið óendanlega og borgarstjóri getur ekki híft sig upp úr þessari spillingu og þessu eitraða andrúmslofti í ráðhúsinu til þess að geta að minnsta kosti kvatt borgarfulltrúa með reisn.”

Ung Vigdís Hauksdóttir.

Hún bætir við að sér finnist sérkennilegt að Stefán Eiríksson hafi mætt í boð fyrir fráfarandi borgarfulltrúa. ,,Á hann ekki að vera ópólitískur og ekki blanda sér í starfsmannahóf hjá borginni? Hreinn og beinn, án allrar hlutdrægni? Ég spurði mig að því reyndar á sínum tíma hvort væri verra að hafa hann sem borgarritara eða útvarpsstjóra, hvoru megin gæti hann djöflast meira í mér? Svona er klíkan. En hann fór auðvitað inn í RÚV á vegum Framsóknarflokksins, á vakt Lilju Alfreðsdóttur.

Þetta er allt mjög spes.”

Flissað og djammað

Vigdís er þungorð um starfsmannafjöldann hjá borginni. ,,Þetta er orðið eins í stórborg. Og það var bætt við tuttugu prósent af nýju starfsfólki á þessu kjörtímabili. Það er sífellt verið að auglýsa nýjar stöður en samt er tíu milljörðum eytt í stafræna umbreytingu. Bara það kostaði borgina 60 nýja starfsmenn og það er gjörsamlega búið að hreinsa upp alla aðila með með upplýsingatæknimenntun. En er stafræn umbreyting ekki til að leysa fólk af í stað þess að fjölga því? Þetta er gjörsamlega galið og ekki fyrir nokkurn mann að takast á við fjármálin hjá borginni.”

Vigdís segir skuldir borgarinnar slíkar að Reykjavík sé gjaldþrota. ,,Og á meðan flissar og djammar þetta fólk á Kjarvalsstofu, sama fólkið og á að standa vörð um virðingu Ráðhússins og virðingu borgarinnar.”

 Viðbjóðslega eitrað

Hún segir sama hvar stigið sé niður fæti, alls staðar sé lélegur starfsandi og einelti. 

,,Það eru milli 40 og 50 starfsmenn sem sitja á mannauðsdeild borgarinnar og smákóngar út um allt. Maður spyr sig hvað þessi mannauðsdeild sé eiginlega að gera? Hún var auðvitað alltaf að eltast við mig þrátt fyrir að ég benti þeim á að það væru valdmörk og deildin hefði ekkert með mig að segja. Það væri ekki hægt að snerta mig og þau ættu að láta mig í friði, enda sótti ég mitt umboð til kjósenda. En nei. mannauðsdeildin var fengin til að elta mig og skrifa endalausar skýrslur, þetta er alveg rosalegt.” 

Þrátt fyrir gríðarlega lofthræðslu fór Vigdís í fallhlífarstökk fyrir flugvöllinn.

Hún bætir við að starfsánægjukannanir borgarinnar séu allar á rauðu ljósi, ekkert nema eineltismál og ásakanir. ,,Það er allt í húrrandi steik en þessar niðurstöður eru bara settar ofan í skúffu, ekkert gert og meintum gerendum hampað af borgarstjóra enda eru þetta vinir hans og allt bara misskilningur. 

Það er farið illa með starfsfólk Reykjavíkurborgar og ég er sjokkeruð yfir hvað þetta er viðbjóðslega eitrað, bæði upp úr og niður úr.” 

Vigdís segist hafa heyrt að núverandi kúltúr megi rekja til setu Jóns Gnarr í stóli borgarstjóra. ,,Þá var Dagur skuggaborgarstjóri og allar siðareglur, hefðir og hreinlega mannleg virðing, fóru að gefa eftir. Smákóngarnir tóku við því að Jón Gnarr afhenti sviðstjórunum völdin. Við erum með eitthvað á milli 50 og 150 mini-borgarstjóra á starfsstöðvunum sem hafa tekið til sín valdið í borginni.” 

Hún kallar eftir lýðræði. ,,Stjórnmálamennirnir fara í kosningar en embættismannaflokkurinn, xE, er aldrei í kjöri. En nær samt alltaf kjöri.” 

Óheiðarleiki

Vigdís telur að niðurstöður kosninganna sé ákall um breytingar en er hrædd um að Framsóknarflokkurinn gangi í gildruna.

,,Einn borgarfulltrúi Vinstri-grænna skiptir engu máli en ég skil ekki af hverju Einar Þorsteins gerir ekki þá kröfu að Viðreisn verði hent út. Viðreisn er þrettándi jólasveinninn en það þarf bara tólf. Hversu óheiðarlegt er að Þórdís Lóa og Dagur B skuli mynda með sér bandalag að koma fram eins og einn flokkur? Af hverju runnu þessir flokkar þá ekki saman fyrir kosningar?“

Vigdís Hauksdóttir. Mynd/Anton Brink

Hún segir að slaufunar- og útiloknarmenning ráði ríkjum, sem sé ráðhúsið eins og hún þekki það. ,,Flokkar sem tilkynna að þeir geti til dæmis ekki unnið með Sjálfstæðisflokki og urða þar með yfir kjósendur flokksins.  Hvað vald hafa Dagur B, Þórdís Lóa eða fulltrúar Sósíalista til að hrauna yfir kjósendur Sjálfstæðisflokks? Við vorum ekki að kjósa þessa útilokunarmenningu, af hverju er lýðræðið ekki virt? Hvar er ástin á kjósendum, börnum þeirra og gamla fólkinu?

Nei, þess í stað fer eitthvað matador í gang sem gengur út á mynda bandalög, útiloka aðra og spila með atkvæðin í stað þess að mynda þann meirihluta sem kom upp úr kössunum. 

Þessu stjórnar Dagur B. Eggertsson, hann er kóngurinn og ætlar að verða borgarstjóri, hvernig sem hann fer að því.”

Talið berst að sögusögnum um að Dagur verði borgarstjóri í einhverja mánuði og fari svo  í landsmálin. ,,Það er ekkert hægt að spá í það en ég spyr bara hvort það sé eftirspurn eftir Degi B. Eggertssyni í landsmálin?”

Fjölgun borgarfulltrúa hrikaleg mistök

Vigdís segist ekki ætla að breytast í gamlan aftursætisstjórnmálamann og hún hafi setið á strák sínum eftir kosningar. ,,Þegar að ég tók þá ákvörðun um áramótin að sækjast ekki eftir endurkjöri fór hausinn frá ráðhúsinu því ég sá fram að ekkert myndi breytast. Ég veit ekki hvað þarf til að breyta þessu, það þarf sennilega einhver flokkur að fá hreinan meirihluta og stokka allt upp. En það verður aldrei því það eru alltaf 8-12 flokkar í framboði og það fara svo mörg atkvæði til spillis.”

Hún segir fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 vera hrikaleg mistök sem geri allt óskilvirkara.

,,Þarf 23 borgarfulltrúa í 135 þúsund manna borg? Þetta er svo stjarnfræðilega vitlaust. Og svo eru aðstoðarmenn með stóru flokkunum og ég veit ekki hvað. Yfirbyggingin verður svo stór. Ég hef viðrað þá skoðun að það eigi að vera einn borgarfulltrúi á hverja byrjaða tíu þúsund borgarbúa. Þá værum við með 13 borgarfulltrúa sem væri allt annað landslag og hver borgarfulltrúi með töluvert mikið atkvæðamagn á bak við sig.” 

 Stundum máluð nokkuð hörð

Vigdís segir sína pólitísku ásýnd vera nákvæmlega þá sömu og hún sé í raun og sann.

,,En vinum og fjölskyldu hefur stundum fundist ég vera máluð nokkuð hörð. Ég er langtum mýkri en sú mynd sem stundum hefur verið máluð upp af mér og ég má ekkert aumt sjá. Ég hef til dæmis verið stuðningsfulltrúi frænda míns sem er fatlaður, sem sumir eiga kannski bágt með að trúa. Ég er er líka mikil barnagæla og börn laðast að mér því ég tala við þau eins og fullorðna. Mér finnst einnig gaman að plana og skipuleggja, koma fólki saman og hafa gaman. Ég elska stór boð og vil hafa allt fullkomið. Ég er hrókur alls fagnaður og reyndar algjör stuðpinni.”

Hún viðurkennir að hafa alltaf tekið sitt pláss og er stolt af því. ,,Ég hef alltaf vitað mitt hlutverk og erindi í pólitík og það hefur kannski farið í fólk. Og svo varð ég svona líka rosalega vinsæl hjá fjölmiðlum þegar ég kom inn sem stjórnarandstöðuþingmaður.

Ég veit bara ekki hvað gerðist, kannski var það óvart eða vegna þess að ég stóð fyrir máli mínu. Það var Icesave, ESB, stjórnarskráin og allt þetta og ég tók þetta bara í fangið. 

Ég er annaðhvort eða, já eða nei. Aldrei kannski.” 

Ætla ekki að tapa

Hvaðan kemur sá eiginleiki Vigdísar? 

,,Þegar ég var lítil kenndi pabbi mér að tefla og strax þá lærði ég að tapa. En það hvatti mig áfram til að vinna allar skákir. Það er búið að vera rosalega gott veganesti fyrir mig, ég ætla ekki að tapa. Ég ætla að vera sólarmegin í lífinu og ég ætla vinna. Ég er alveg rosaleg keppnis, og ekki taka því sem ég sé hrokafull, alls ekki, en ef ég ætla eitthvað þá kemst ég þangað. Það tekur auðvitað orku og fullt af fólki hélt að ég myndi ekki haldast út sem eini borgarfulltrúi Miðflokksins en þetta fólk þekkti mig ekki.”

Fjölmiðlar og kommentakerfin

Talið berst aftur að fjölmiðlum. Þeir hafa oft farið stórum orðum um Vígdísi, að ekki sé minnst á samfélagsmiðla.

Er ekki erfitt að taka ekki slíkt inn á sig?

,,Ég held að það sé meðfæddur hæfileiki að taka þetta ekki inn á mig. Það er sama hvað er skrifað um mig á netinu, ég les þetta en leyfi þessu fólki að urða yfir mig án þess að svara þeim nokkurn tíma. Ég lít á mig sem sterkari persónu fyrir vikið. 

Þetta eru auðvitað mikið vinstri menn og vinir Dags í kommentakerfunum og jafnvel virt fólk eins og rithöfundar láta hafa sig út í þetta en ég tel mig vera stærri manneskju fyrir vikið. En í ráðhúsinu? Þar svara ég fyrir mig. “

Vigdís Hauksdóttir. Mynd/Anton Brink

Vigdís fallast augnablik orð.

,,Annars á ég erfitt með að svara þessu. Ég hlýt bara að hafa breitt bak. Svo hreyfi ég mig mikið, fer í göngutúra til að hreinsa hugann og passa að borða hollan mat. Ég leit á þetta áreiti frá upphafi sem hluta af starfinu. Ég hef reyndar lent meira í þessu en flestir og skil ekki af hverju fólk er ekki löngu búið að gefast upp á að standa í þessu, það ætti nú að vera farið að þekkja mig.  Það á enginn neitt inni hjá mér og það er kannski mín leið. Ef að það er kastað í mig kúamykju fær viðkomandi hana til baka í andlitið. Stundum bíð ég í marga mánuði með mál í höndum áður en ég fæ rétta tækifærið til að svara fyrir mig. Ég hef aldrei haft aðstoðarmann né upplýsingafulltrúa, alltaf skrifað mínar tillögur og greinargerðir sjálf og skrifaði mín frumvörp sjálf þegar ég var á þinginu.” 

Engar beinagrindur

Vigdís segir sig rökfasta og fljóta að setja sig inn í mál. ,,Fólk er kannski í vörn gagnvart mér en aðalsmerki ráðhússins er að þegar er ekki hægt að svara á grundvelli málefna og þekkingar er hjólað í persónuna. Dagur. Heiða Björg. Dóra Björt. Þórdís Lóa. Þau nota þetta öll. Þetta er kennt í Ráðhússkólanum og skólastjórinn þar er Dagur B. Eggertsson.“ 

Vigdís segist ekkert hafa að fela. ,,Það er þannig í stjórnmálum að ef þú hefur eitthvað að fela getur þú ekki beitt þér. Með samfélagsmiðlum og þjóðfélaginu eins og það er í dag geta stjórnmálamenn ekki haft beinagrindur í skápnum og verið í sífelldum ótta um að þær verði grafnar upp. Ég hef engar beinagrindur í felum. Ég er alltaf komin heim klukkan tíu á kvöldin ef ég fer út að borða eða á tónleika eða slíkt og hef alltaf passað mig að lenda ekki í neinum aðstæðum í næturlífinu eða sambærilegu.” 

Er ögrari

Heldur Vigdís að umræðan hefði ef til vill verið öðruvísi ef um karlmann hefði verið að ræða? ,,Ég skal segja þér leyndarmál. Þegar ég fór í framboð árið 2009 ákvað ég að bera virðingu fyrir starfinu, vera alltaf snyrtileg og vel máluð, í háum hælum og allt það. Til þess að ögra fólki, ég er ögrari. Og ég hélt áfram þeirri stefnu að vera smart þegar ég fór í borgarstjórn. Ég tek sjálfa mig mjög alvarlega, ég bætti aðeins á mig eftir að ég settist í borgarstjórn og fór þá í ræktina og á lágkolvetnakúr og kílóin ruku af mér.“

Vigdís var ekki lengi að losa sig við aukakílóin.

 

Kannski hefur þetta verið ögrun fyrir karlmenn? Ég veit það ekki. Af hverju mega konur ekki vera vel snyrtar? Sýna vöxtinn í stað þess að vera í mittislausum mussukjólum? Af hverju mæta klárar og sjálfsöruggar konur andstöðu í samfélaginu ef þær eru ljóshærðar og huggulegar? Það finnst mér lélegt í landi fegurðardrottninga og fyrsta kvenforsetans, þetta viðhorf til sterkra kvenna árið 2022.” 

Mannheimar og netheimar

Hún segist alltaf hafa litið á sjálfa sig sem óþekkta manneskju í samfélaginu þótt að hún sé opinber persóna. ,,Og þannig hef ég fengið frið. Fólk auðvitað heilsar en ég hef aldrei orðið fyrir aðkasti, ekki í mannheimum. 

Ég hef aftur á móti orðið fyrir miklu aðkasti í netheimum. En ég hef alltaf aðgreint þessa heima því í ,,mannheimum” finn ég raunverulega hvernig fólki líkar við mig. Hitt hef ég grafið og lít svo á að þetta sé fólk sem líði illa og þurfi að skeyta skapi sínu á einhverjum. Sumir eru í störfum hjá hinu opinbera og jafnvel fengnir til að skrifa. Það eru jú 11 upplýsingafulltrúar í ráðhúsinu plús allir hinir upplýsingafulltrúarnir sem eru hjá Orkuveitunni, Strætó og svo framvegis. Þetta er auðvitað bara bisness,” segir Vigdís og hristir höfuðið. 

Níu til fimm

Hún segist auðveldlega geta verið með tuttugu bolta á lofti í einu og vitað nákvæmlega hvar hvert mál er statt hverju sinni. ,,Þetta er kannski ljótt orð en ég er með límheila, ef þú færir að tala um mál frá 2009 myndi ég muna það. Ef ég les eða heyri hlutina einu sinni man ég þá. Ég yrði sennilega flokkuð á einhverju rófi í dag,” segir Vigdís og skellihlær.  

Vigdís sér nú fram á tímamót og er alsæl með það enda ekki sú manneskja sem getur setið í sama skrifborðsstólnum alla sína starfsævi. ,,Ég er fædd 1965 og kannski kominn á þann aldur að finna mér starf sem ég get verið í út mína starfsævi. Reyndar trúir fólk ekki oft hvað ég er gömul því ég er svo orkumikil, alltaf út um allt og að skipuleggja hluti. Sennilega hef ég mestan áhuga á að fara í venjulega níu til fimm vinnu og vera laus við þetta helgarálag sem fylgir því að vera í stjórnmálum.

Alltaf að vera reiðubúin, kvölds og morgna allt árið um kring til að mæta í þætti eða svara fréttamönnum.”

,,I told you so“

Vigdís vill aldrei segja aldrei en nú sé hún hætt. ,,En ég get sagt að þingið var mér langtum betra. Þar var umgjörð og farið eftir ákveðnum leikreglum. Ráðhúsið er skrílslæti og það er tvennt ólíkt.” 

Hún segist leið á borgarstjórn og viti að hún komist þar ekki lengra. ,,Ég er búin að skræla borgina að innan, benda á allt sem er að og lít svo á að það séu ekki frekari verkefni fyrir mig þar. Ég er búin að ná markmiðum mínum. 

En ég er búin að heita sjálfri mér því að þegar það koma í ljós mál sem ég hef verið að benda á ætla ég að leyfa mér að henda í einn og einn ,,i told you so” status,” segir Vigdís Hausdóttir og skellihlær enda aldrei langt í húmorinn. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 2 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife