fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fókus

Starfsfólk sjúkrahússins kastaði upp og féll í yfirlið: Ráðgátan um eitruðu konuna

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 4. júní 2022 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gloria Ramirez var 31 árs gömul, gift móðir tveggja barna sem bjó í Riverside í Kaliforníu. Hún var elskuð af fjölskyldu og vinum, ekki síst vegna kímnigáfunnar. Gloria gat fengið alla til að hlæja.

En Gloria bjó samt sem áður yfir sorg. Hún var með leghálskrabbamein, sem aðeins hafði greinst 6 vikum fyrr, og var að draga ungu konuna hratt til dauða.

Fnykurinn á bráðavaktinni

Þann 19. febrúar 1994 var komið með Gloriu á bráðavakt sjúkrahússins í Riverside. Hún reyndist vera með hjartsláttartruflanir og afar lágan blóðþrýsting. Hún gat varla andað og átti erfitt með tal. Allt var gert til að hjálpa henni, henni gefin lyf og reynd að létta á öndun en líðan Gloriu bara versnaði.

Þegar að starfsfólkið færðu Gloriu úr blússunni til að taka hjartalínurit sáu þeir að líkami hennar var olíukenndur. Það var einnig sérkennileg lykt úr munni hennar sem minnti einna helst á hvítlaukslykt. Þegar að teknar voru blóðprufur reyndist blóð hennar lykta af ammoníaki.

Reyndar var um að ræða óbærilegan fnyk af líkama Gloriu, fnyk sem var engu öðru líkur.

Veikindi starfsfólksins

Og það sem merkilegast var var að smám saman fór hjúkrunarfólkið sem var að sinna Gloriu að eiga erfitt með andardrátt. Margir féllu í yfirlið. Þegar að einn hjúkrunarfræðingurinn rankaði við sér eftir yfirliðið gat hún hvorki hreyft hendur né fætur. Enn aðrir köstuðu upp.

Alls urðu 23 starfsmenn fyrir einkennum og þar af þurfti að leggja fimm inn til sjúkrahúsvistar.

Það var eitthvað afar óvenjulegt að hrjá Gloriu Ramirez og það hafði ekkert með hjartsláttartruflanir að gera.

Julia Gorchynski var lengi að ná sér.

Ástand hjúkrunarfræðingsins Juliu Gorchynski var alvarlegast. Hún fékk endurtekin flog og átti erfitt með andardrátt. Fljótlega greindist hún einnig með lifrarbólgu, briskirtilsbólgu og vefjadrep í fótum. Hún þurfti á hækjum að halda svo mánuðum skipti eftir útskrift af sjúkrahúsinu.

,,Eitraða konan“

Gloria lést 45 mínútum eftir innlögn. En ástandið á sjúkrahúsinu átti eftir að versna. Starfsfólkið sem fjarlægði líkið var látið vera í sérstökum hlífðarfatnaði og bráðavaktin var lokuð af til að leita að eiturefnum, gasi eða öðru slíku.

Ekkert fannst sem gat útskýrt veikindi starfsmannanna. Né andlátsorsök Gloriu.

Líki Gloriu var komið fyrir í sérstakri álkistu og hún innsigluð. Krufning fór ekki fram fyrr en viku síðar þegar þótti tryggt að læknar væru í nægilega öruggum hlífðarfatnaði. Ekki tókst að finna út dánarorsök við krufninguna.

Fjölmiðlar komust á snoðir um málið og var Gloria nefnd ,,Eitraða konan” í fjölmiðlaumfjöllun.

Krufningarnar 

Alls var Gloria krufin í þrjú skipti. Sex vikum eftir látið var hún krufin í annað skiptið og fundust sterk verkjalyf í blóði. Einnig fannst lyf sem notað er til að halda niðri flökurleika. Þegar að lyfið brotnar niður í líkamanum getur myndast lykt sem minnir á ammoníak og var sennilegast að það skýrði lyktina þegar að blóðprufurnar voru teknar. Allt voru þetta þó lyf sem þótti eðlilegt að finna í krabbameinssjúklingi.

Mynd/Getty Imagers

Gloria hafði einnig dímetýl súlfón, oft nefnt DMSO, í blóði og vefjum. DMSO er lífrænt leysiefni unnið úr trjám sem hefur þann eiginleika að smjúga mjög greiðlega í gegnum húð og inn í vefi líkamans.

En efnin í blóði og vefjum voru ekki í því magni að draga Gloriu til dauða.

Þann 12. apríl 1994 var loks gefið út dánarvottorð og á það ritað að Gloria hefði dáið af hjartaslagi sem rekja mætti til nýrnabilunar vegna leghálskrabbameins.

Niðurstöður skýrslunnar

Það liðu tveir mánuðir áður en það þótti öruggt að flytja lík Gloriu á útfararstofu án þess að fólk sem kæmi nálægt henni veiktist.

Fjölskylda Gloriu var ævareið og systir hennar kenndi sjúkrahúsinu um fráfall Gloriu. Rannsókn leiddi aftur á móti í ljós að sjúkrahúsið hafði fylgt öllum starfsreglum við umönnun hennar.

Það hafði einfaldlega aldrei neitt þessu líkt gerst áður, svo vitað væri.

Eftir margra mánaða rannsókn sendu heilbrigðisyfirvöld frá sér skýrslu og var niðurstaða hennar að dánarorsök af völdum krabbameins væri rétt niðurstaða. Hvað varðaði veikindi hjúkrunarfólks var að of mikið vinnuálag hefði valdi því að út braust mikil hystería meðal starfsfólks þegar að ammóníakslyktin fannst.

Starfsfólkið hafði með öðrum orðið fyllst ímyndunarveiki sem breiðst hefði út.

DMSO

Starfsfólk sjúkrahússins var afar ósátt niðurstöðum skýrslunnar og fannst illa vegið að sínum starfsheiðri, ekki síst Julia Gorchynski, sem enn átti erfitt með gang.

Það krafðist að nánar yrði farið yfir krufningarskýrslur Gloriu sem og var gert.

Í ljós kom að magn DMSO í líkaman hennar var gríðarlegt. Gloria virtist hafa borið þykkt lag af efninu á sig frá toppi til táar. Fáar viðurkenndar rannsóknir hafa verið gerðar á efninu en þeir eru til sem vilja meina að DMSO sé allra meina bót eða því sem næst, og þá sérstaklega þeir sem hallast að náttúrulyfjum. Rannsóknir á leysiefninu í byrjun sjöunda áratugarins sýndu góðan árangur efnisins gegn langvinnum verkjum og bólgum og á tímabili var álitið að það gæti gagnast gegn krabbameini, sem reyndist rangt. Enn fremur kom í ljós að það olli blindu í músum.  Efnið var bannað í Bandaríkjunum árið 1965 en banninu var lyft árið 1980.

Það er notað að einhverju leiti þar í landi í dag en hefur aldrei verið á lyfjaskrá á Norðurlöndum, svo dæmi sé tekið.

Aftur á móti var og er fjöldi fólks sem trúir staðfastlega á kosti efnisins og eftir að það var bannað í Bandaríkjunum varð fólk sér út um það í byggingavöruverslunum þar sem fituhreinsir er 99% DMSO.

Ráðgáta

Við nánari rannsóknir kom í ljós að þegar að DMSO kemst í nálægð við súrefni breytist það í eitrað gas sem leggst á augu, munn og lungu. Afleiðingarnar geta verið krampar, ofskynjanir og jafnvel lömun. Af þeim tuttugu einkennum sem gasið getur valdið höfðu 19 af þeim 23 sem veiktust, einkenni gaseitrunarinnar af völdum umbreytingar efnisins.

Starfsfólki sjúkrahússins var létt við niðurstöðurnar. Loksins var komin rökrétt skýring.

Aðrar skýringar á þessu undarlega máli hafa þó komið fram í gegnum árin enda er margt við ástand Gloriu sem ekki er unnt að skýra með gaskenningunni. Villtasta skýringin er sú að starfsfólk sjúkrahússins hafi staðið í stórfelldri framleiðslu eiturlyfja sem Gloria hafi óvart komist í snertingu við með ofangreindum afleiðingum.

Jafnvel þótt að fjölskylda Gloriu hafi ávallt neitað því að hún bæri DMSO á sig verður að teljast líklegasta skýringin að unga konan hafi í örvæntingu sinni leitað til óhefðbundinna lækninga til að lina þjáningar sínar. Það verður þó aldrei fullsannað og opinber dánarorsök Gloriu er enn dregin í efa. Svo og ástæðan fyrir veikindum starfsfólksins.

Eitt það dapurlegasta við málið er að Gloriu Ramirez, ungri konu og móður, verður alltaf minnst sem ,,Eitruðu konunnar.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“