fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fókus

Mennirnir að baki myndunum – Gat ekkert nema beðið til guðs og grátið

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 3. júní 2022 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við munum öll ljósmyndirnar sem hafa haft djúpstæð áhrif á okkur. Sumar eru persónulegar, aðrar hafa komið fram fyrir sjónir milljóna manna. Sérstaklega er erfitt að sjá ljósmyndir af þjáningum barna. Stundum vill gleymast hversu erfitt það hlýtur að hafa verið fyrir ljósmyndarann sjálfan að horfa upp á slíka neyð og festa hana á mynd. 

Mike Wells og Kevin Carter tóku tvær af frægustu myndum sögunnar sem sýna þjáningar barna sem lifa við hungursneyð. Báðir sáu þeir sárlega eftir myndatökunni sem endaði í dauða annars þeirra. 

Litla höndin

Árið 1980 geisaði skelfileg hungursneyð í Úganda sem átti eftir að kosta þrjátíu til fimmtíu þúsund manns lífið. Hungursneyðin hófst tveimur árum áður þegar að þurrkar og uppskerubrestar herjuðu á Karamoja hérað. Héraðið skipti litlu máli fyrir stjórnvöld og hunsaði einræðisherrann Idi Amin ástandið þrátt fyrir að vera ítrekað beðinn um að senda hjálp.   

Idi Amin var steypt af stóli árið 1979 komst mikið magn vopna í hendur vígamanna i héraðinu sem notuðu þau óspart til rána. Það varð lífshættulegt að eiga búfénað eða matvæli í héraðinu og fjölskyldur misstu það litla sem þær áttu í hendur vígamanna. Landið var þar að auki í algjörri upplausn eftir fall Idi Amin og í ársbyrjun 1980 var ástandið orðið grafalvarlegt. Það versnaði með vorinu og í júlí 1980 er talið að um 500 manns hafi soltið til bana á dag, aðallega börn. Kaþólska kirkjan hafði lengi rekið hjálparstarf á svæðinu og var það aukið þegar að neyðin jókst. 

Breski ljósmyndarinn Mike Wells var á ferð um svæðið í byrjun apríl 1980, þá á vegum hjálparsamtakanna Save the Children. Hann sá trúboða sem sat á hækjum sér með litla hönd.í lófa sér. Um var að ræða lítinn dreng, sennilega um fjögurra ára gamlan, sem var við dauðans dyr. Barnið er talið hafa látist skömmu síðar. Ljósmynd sérlega sláandi í einfaldleika sínum og þykir engin mynd hafa fangað eins vel neyðina í landinu. Alþjóðleg aðstoð við Úganda stórjókst í kjölfarið. 

Mike Wells tekur við verðlaunum sem hann aldrei vildi.

Myndin var valin fréttamynd ársins árið 1981 og var Mike Wells verðlaunaður fyrir. Hann frábað sér hins vegar allar vegtyllur og segist skammast sín fyrir að tekið ljósmyndina. 

Wells var einnig afar ósáttur við að myndin hefði verið send án hans vilja og vitundar í ljósmyndakeppnir. 

Mike Wells er í dag einn einarðasti andstæðingur þess að myndir af sveltandi fólki séu undir nokkrum kringumstæðum verðlaunaðar. 

Mike Wells er aftur á móti ekki eini ljósmyndarinn sem sá sárlega eftir að hafa tekið slíka mynd. 

Litla stúlkan og hrægammurinn

Suður-afríski fréttaljósmyndarinn Kevin Carter var að mynda fórnarlömb hungursneyðarinnar í Suður-Súdan árið 1993 þegar hann rakst á barn sem var eitt á ferli að reyna að ganga til miðstöðvar sem deildi matvælum. Myndaði Carter barnið staulast áfram með herkjum og þegar að hrægammur settist við hlið barnsins, þess vitandi að það styttist í næstu máltíð, smellti Carter af og náði meðal annars ljósmyndinni sem síðar varð heimsfræg. Því næst rak hann fuglinn á brott og fylgdist með barninu staulast áfram. 

Mynd/Kevin Carter

Þegar að Carter sneri heim til Jóhannesarborgar heyrði hann af því að New York Times væri að leita að ljósmyndum frá Súdan.Hann seldi blaðinu nokkrar ljósmyndir, meðal annars myndina frægu af stúlkubarninu og hrægamminum.

Carter fékk Pulitzer verðlaun fyrir myndina, sem varð að eins konar einkennismynd fyrir hörmungarnar í Súdan. Myndin ein og sér lyfti grettistaki og opnaði augu Vesturlandabúa fyrir hinni skelfilegu neyð í landinu. Í kjölfarið var gripið til margs konar aðgerða til hjálpar, aðgerða sem eflaust hafa bjargað hundruðum þúsunda mannslífa. Og það var Kevin Carter að þakka. 

En Carter varð einnig fyrir gríðarlegri gagnrýni og var hann sakaður um að hafa ekki hjálpað stúlkunni heldur skilið hana deyjandi eftir. 

Langflestir gagnrýnenda vissu aftur á móti ekki að Carter hafði verið í fylgd vopnaðra hermanna við myndatökur og lá dauðarefsing við afskiptum af fórnarlömbum hungursneyðarinnar. Né vissi fólk að þetta sama kvöld hafði Carter setið undir tré, beðið til guðs og grátið svo klukkutímum skipti, kallandi á unga dóttur sína. 

Kevin Carter.

Kevin Carter náði sér aldrei eftir dvölina í Súdan og herjaði á hann ásýnd stúlkunnar með hrægamminn við hlið sér. Áfengis- og vímuefnaneysla hans jókst, hann þjáðist af miklu þunglyndi og var fangelsaður fyrir ölvunarakstur. Á páskadag 1994 gafst kærasta hans upp og sagði honum að flytja út. Og þegar hann fékk tilkynningu um tilnefninguna til Pulitzer verðlaunanna þann sama mánuð var honum sama. Hann var of langt leiddur. Í júlí 1994, tveimur vikum eftir að besti vinur hans var myrtur, framdi Kevin Carter sjálfsvíg, þjakaður af sorg og sektarkennd. 

Hann var 33 ára gamall. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“