fbpx
Mánudagur 16.desember 2024
Fókus

Johnny Depp hafði betur gegn Amber Heard

Fókus
Miðvikudaginn 1. júní 2022 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómur er fallinn í meiðyrðamáli leikarans Johnny Depp gegn fyrrverandi eiginkonu sinni Amber Heard.

Málið var lagt í dóm á föstudag, en kviðdómur hafði þá aðeins um tvær klukkustundir til að ráða ráðum sínum áður en þau fóru í langt helgarfrí þar sem mánudagurinn var frídagur í Bandaríkjunum. Allt í allt tók það kviðdóm um 14 klukkustundir að komast að þeirri niðurstöðu að grein sem Amber Heard birti hjá Washington Post árið 2018 hafi falið í sér meiðyrði.

15 milljónir dollara í bætur

Kviðdómurinn féllst á það með Depp að í greininni hafi falist meiðandi ásakanir í hans garð og hafi Heard verið grandvís þegar hún lét þau falla. Bætur voru dæmdar 15 milljónir Bandaríkjadala.

Rétt er að minnast þess að málið er einkamál og því ekki verið að fella dóm um sekt eða sýknu heldur er verið að takast á um dómkröfur. Því var enginn sakfelldur eða sýknaður í málinu enda engin ákæra gefin út í einkamálum.

Johnny Depp var ekki viðstaddur í dómsal, hann er sem stendur í Bretlandi að sinna verkefnum þar, en hann fylgdist með í beinni útsendingu. Amber Heard var þó viðstödd og virtist eiga erfitt með að halda aftur að tárunum. Stór hópur aðdáenda Depp hafði safnast saman fyrir utan dómshúsið og mátti heyra mikil fagnaðarlæti þegar dómurinn var lesinn.

Heard fær 2 milljónir

Depp fór fram á 50 milljónir dollara í skaðabætur, en Heard stefndi svo Depp á móti í gagnsök þar sem hún fór fram á 100 milljón dollara skaðabætur fyrir óhróðursherferð sem hún sagði Depp hafa háð gegn sér.

Kviðdómur féllst eins á gagnkröfu Heard að hluta, en þeir töldu að ummæli lögmanns Depp, Adams Waldmans, þar sem hann sagði Heard með vinum sínum hafa skipulagt lygasögu með leiðsögn frá lögmönnum Heard og almannatengli, hefðu falið í sér meiðyrði gegn leikkonunni.

Féllst kviðdómur ekki á aðra liði gagnkröfunnar. Voru henni dæmdar annars vegar 2 milljónir Bandaríkjadala í bætur og hins vegar 0 krónur í það sem í bandaríkjunum kallast refsikenndar bætur (e. punitive), sem eru eins konar miskabætur sem eru dæmdar þegar um sérstaklega meiðandi háttsemi er að ræða. Til að setja það í samhengi skiptust bæturnar til Depp þannig að 10 milljónir Bandaríkjadala voru skaðabætur en 5 milljónir voru þessar svokölluðu refsikenndu bætur.

Kviðdómur ósammála dómstól í Bretlandi

Aðalmeðferð í málinu hófst þann 11. apríl. En málið má rekja til greinar sem Amber Heard ritaði árið 2018 þar sem hún sagðist vera þolandi heimilisofbeldis, en af greininni mátti álykta að þar væri verið að væna Depp um að vera ofbeldismaður. Hjónabandi leikaranna lauk árið 2016 þegar Heard fór fram á skilnað og sótti samtímis um nálgunarbann gegn Depp.

Heard heldur því fram að Depp hafi beitt hana ofbeldi á meðan á hjónabandi þeirra stóð, og taldi dómari í Bretlandi að þær ásakanir ættu við rök að styðjast í máli sem Depp höfðaði gegn breska æsifréttamiðlinum The Sun. Í því máli var tekist á um hvort að The Sun hafi mátt kalla Depp ofbeldismann í umfjöllun, og taldi dómari að svo væri.

Bæði í málinu í Bretlandi sem og málinu sem nú var að ljúka var tekist á um ásakanir Heard í garð Depp, en ekki er hægt að dæma það meiðyrði sem satt reynist. Depp hefur sjálfur haldið því fram að Heard hafi verið ofbeldismanneskjan í sambandinu.

Nú er ljóst að kviðdómur er ósammála niðurstöðu dómstólsins í Bretlandi og taldi ekki hafa náðst sönnun um það að ummælin, sem gáfu til kynna að Depp hafi beitt Heard ofbeldi, væru sönn og þau þar af leiðandi meiðandi í garð Depp.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart