Þegar að myndin af myndin af hinni 12 ára gömlu Sharbat Gulla birtist á forsíðu tímaritsins National Geographic árið 1985 tók heimurinn andköf yfir þessari gullfallegu stúlku með grænu augun sem störðu full þjáningar og ótta á lesendur.
Ljósmyndarinn Steve McCurry var að mynda í flóttamannabúðum Afgana sem höfðu flúið stríð Sovétmanna við uppreisnarmenn Talibana. Flóttamannabúðirnar voru fullar af fólki sem hafði misst heimili sín og átti sér í raun hvergi samastað. McCurry var að fylgjast með börnum að leik og velta fyrir sér hvaða framtíð biði þeirra þegar hann rakst á Sharbat og smellti af.
Úr varð ljósmynd sem talin er lýsa hvað best þeirri ánauð sem stúlkur þurftu, og þurfa enn að þola, undir ógnarstjórn Talibana. Ljósmyndin varð til þess að vekja heimsathygli á þeim aðstæðum sem afganska þjóðin bjó við og stórjókst alþjóðleg aðstoð fyrir vikið.
McCurry öðlaðist heimsfrægð fyrir myndina, sem þykir ein albesta fréttamynd allra tíma og hann gat aldrei gleymt stúlkunni með grænu augun.
Hann hafði ekki einu sinni spurt hana að nafni. Hvað hét hún og hvað hafði orðið um hana? Var hún á lífi?
Það var ekki fyrr en sautján árum síðar að hann fann hana aftur og fékk loksins svörin við spurningunum sem höfðu brunnið á honum.
Aftur á flótta
Sharbat hafði ekki hugmynd um eigin heimsfrægð, hvað þá hvaða grettistaki myndin hafði lyft meðal almennings jafnt sem stjórnmálamanna. Hún hafði flutt til Pakistan ásamt fjölskyldu sinni og var ráðstafað í hjónaband sextán ára að aldri, fjórum árum eftir að myndin var tekin. Hún varð miður sín að frétta af frægð myndarinnar þar sem hennar trú og siðir banna alfarið að kona sýni andlit sitt ókunnugum karlmanni, hvað þá að hann taki af því ljósmynd.
Hún sagði að hún væri sátt við líf sitt í Pakistan sem snerist að mestu um að sjá um þrjú börn sín og eiginmann. Eiginmaður hennar lést aftur á móti úr lifrarbólgu árið 2012 og árið 2016 var Sharbat handtekin, ásökuð um kaup á fölsuðum skilríkjum og send aftur til Afganistan, þrjátíu árum eftir að hún yfirgaf landið á flótta. Taldi hún myndinni um að kenna og var bæði reið og sár yfir þeirri frægð sem hún hafði aldrei beðið um.
En þáverandi ríkisstjórn í Afganistan tók henni fagnandi, gaf henni eigið land til ræktunar og mánaðarlegar tekjur frá hinu opinbera.
Sharbat leið loksins vel í eigin landi en það stóð ekki lengi. Fimm árum síðar tóku Talibanar aftur við völdum og aftur var Sharbat komin á flótta, 49 ára gömul.
Þegar að Bandaríkjamenn yfirgáfu Afganistan í fyrra buðu Ítalir Sharbat búsetu.
Sharbat Gulla er nú að aðlagast nýju lífi í Róm ásamt börnum sínum.