fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fókus

Heiður og skylda ofar öllu – Maðurinn sem háði eins manns stríð í þrjátíu ár

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 15. maí 2022 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sagan af Hiroo Onoda er saga af þrjósku, hugarórum, hugrekki og jafnvel klikkun. Japanskir hermenn seinni heimsstyrjaldarinnar voru þekktir fyrir hollustu sína við keisarann en sennilega hefur enginn gengið lengra en Onoda í að sanna trúmennsku sína. 

Það liðu nefnilega heil 29 ár frá stríðslokum í þann 2. september 1945 og þar til Hiroo Onoda samþykkti loks uppgjöf. 

Afkomandi samúræja

Onoda var fæddur í Wakayama í Japan árið 1922, afkomandi margra kynslóða stríðsmanna, og þótti snemma þrjóskur í skapi. Forfeður hans voru samúræjar og faðir hans lést í styrjöld Japans við Kína. 

Onoda sem ungur hermaður.

Onoda fylgdi í fótspor ættmenna sinna og skráði sig í herinn um leið og hann hafði aldur til, einu ári áður Japan hóf styrjöld við Bandaríkin. 

Í hernum var Onoda sendur í þjálfun í óhefðbundum hernaðaraðferðum, þar á meðal skæruhernaði, skemmdarverkum, gagnnjósnum og áróðri. Þjálfunin átti eftir að nýtast Onoda vel þegar hann var sendur til Lubang eyju á Filippseyjum þegar hann lauk þjálfun árið 1944. 

Japanski herinn hafði náð yfirráðum yfir Filippseyjum tveimur árum áður en var illa mannaður og þegar að Bandaríkjaher réðist að Japönum í ársbyrjun 1944 hrökkluðust þeir út stærri borgum og á minni eyjar í filippíska eyjaklasanum, eyjar á borð við Lubang. 

Onoda í skóginum.

Onoda var sendur til eyjunnar vegna sérþekkingar sinnar í skæruhernaði sem þeir notuðu gegn bandarískum og filippískum hersveitum. Aðferðafræði japanska hersins var að gera leifturárásir og hörfa svo í felur inn í frumskóga til að tefja fyrir framgang óvinarins. Þessar aðgerðir virkuðu reyndar ótrúlega vel og pirruðu yfirmenn herafla Bandaríkjanna lengi vel. 

Skæruhernaðurinn

Þegar að bandarískar hersveitir komu til eyjarinnar þann 28. febrúar 1945 voru þær fljótar að sigra fámennar sveitir Japana og þegar að Onoda sá í hvað stefndi safnaði hann saman þremur félögum sínum, þeim Yūichi Akatsu, Shōichi Shimada og Kinshichi Kozuka, og skipaði þeim að fylgja sér inn í frumskóginn og berjast þaðan með skæruliðahernaði. Hann átti eftir að halda því sleitulaust áfram í næstum þrjá áratugi. 

Suzuki og Onoda.

Onodo og menn hans lifðu á hrísgrjónum sem þeir stálu af ökrum eyjarinnar, kókoshnetum og kjöti af dýrum sem þeir rændu af býlum í skjóli nætur. Þess á milli gerður þeir árásir á filippískar hersveitir. Styrjöldinni lauk í ágúst 1945 og þótt að Onoda tæki eftir að eitthvað væri nú minna um óvinahermenn kom honum aldrei til hugar að Japanir hefðu gefist upp. Svo hann hélt áfram að heyja sína einkastyrjöld ásamt mönnum sínum, myrti þorpsbúa sem hann trúði að væru í samstarfi við bandaríska herinn og skaut að lögreglumönnum sem voru sendir til að ná í hann. 

Tilraunir til sambands

Bandarísk hernaðaryfirvöld vissu vel hvernig japanskur skæruhernaður færi fram, lykilatriðið var engin samskipti og því engar talstöðvar né annað slíkt til að ná sambandi við Onoda og aðra japanska hermenn sem enn kynnu að felast í frumskógum Filippseyja. Var brugðið á það ráð að prenta upplýsingar um stríðslokin á bæklinga á japönsku og dreifa þeim um eyjaklasann úr flugvélum.

Þan 9. mars 1974 yfirgaf Onoda loks frumskóginn.

Strax í byrjun október 1945 byrjaði fréttunum að rigna niður á Onoda og félaga sem voru snöggir að afgreiða bæklingana sem stríðsáróður og trúðu ekki orði. Í árslok var brugðið á það ráð að fá sjálfan æðsta yfirmann japanska hersins til að skrifa skipun til hermannanna um að gefast tafarlaust upp og gefa sig fram. Onoda og félagar voru á báðum áttum en eftir umræður sín í milli ályktuðu þeir að skipunin væri fölsuð. Onoda hafði alist upp við aldaforn japönsk gildi þar sem uppgjöf var einfaldlega ekki í boði og gátu þeir ekki gert sér í hugarlund að japanska keisaradæmið hefði gefist upp fyrir Bandaríkjamönnum. Ekki á meðan einn, og hvað þá fjórir, japanskir hermenn stæðu í lappirnar. Svo þeir héldu áfram sínu striki. 

Árið 1949 fór einn mannanna, Akatsu, að gruna að hugsanlega væri stríðið búið. Hann yfirgaf félaga sína í skjóli nætur, kom sér upp búðum langt frá þeim og hugsaði þar málið í hálft ár. Í mars 1950 gaf hann sig svo fram við filippíska herinn.

Eins manns styrjöld

Akatsu staðfesti grun manna um veru Onoda og félaga í frumskóginum og hafði Bandaríkjaher samband við fjölskyldur mannanna og bað þær um að skrifa ástvinum sínum og senda þeim ljósmyndir í þeirri von að það dygði til að lokka þá út úr skóginum og árið 1952 fengu þeir félagar reglulega sendingar frá fjölskyldum sínum af himni ofan. Þeir trúðu því aftur á móti staðfastlega að fjölskyldur þeirra væru fangar óvinarins og neyddar eða jafnvel pyntaðar til að senda bréfin og myndirnar.

Onoda afhendir forsetanum sverð sitt sem merki um uppgjöf.

Næstu tuttugu ár voru Onoda erfið. Shimada var skotinn til bana af filippískum leitarflokki árið 1954 en þá voru yfirvöld á eyjunum búin að missa alla þolinmæði gagnvart japönsku hermönnunum sem nú voru eftirlýstir glæpamenn. Voru nú aðeins Onoda og Koszuka eftir og var sá síðarnefndi skotinn af lögreglu árið 1972 þegar þeir voru að reyna að kveikja í þorpi. Onoda var þá orðinn einn eftir í sínu stríði. 

Þjóðsagan

Þegar þarna var við sögu komið var Onoda orðin hálfgerð þjóðsaga í Japan, ekki ósvipaður snjómanninum ógurlega. Ævintýrakappinn og ferðalangurinn Norio Suzuki ákvað að hann myndi ekki gefast upp fyrr en hefði uppi á Onoda og tókst honum það í febrúar 1974. Gamli hermaðurinn var í upphafi tortrygginn gagnvart unga og hippalega manninum sem aftur á móti sýndi honum fulla virðingu, hneigði sig djúpt og sagði: ,,Onoda-san, keisari vor og japanska þjóðin hafa áhyggjur af yður.”

Onoda sagði síðar að hann hefði komist við að heyra að einhver hefði áhuga á tilfinningum hans og líðan.

Haldin var sýning á búnaði Onoda úr skóginum.

Onoda neitaði aftur á móti að yfirgefa skóginn og sagði Suzuki að þar til að hans yfirmaður skipaði honum annað myndi hann standa sína plikt. Japönsk stjórnvöld leituðu uppi yfirmann Onoda sem nú var aldraður bóksali og flugu með hann til Lubang.

Þann 9. mars 1952 kom Onoda út úr frumskóginum, enn í tættum einkennisbúningum og með riffil sinn og sverð í fyrsta flokks ástandi. Þar beið hans yfirmaður hans sem skipaði honum að leggja niður vopn, 29 árum eftir lok styrjaldarinnar. Onoda var greinilega óviss um stöðu mála en lagði niður riffil og skotfæri og heilsaði japanska fánanum að hermannasið. Onoda afhenti Ferdinand Marcos, forsætisráðherra Filippseyja, sverð sitt tæpri viku síðar og gafst formlega upp. Marcos notaði tækifærið til að tilkynna Onada að allar ákærur á hendur honum yrðu felldar niður frá og með þessum degi. 

Onoda var fagnað sem hetju við heimkomuna.

Kunni ekki við hið nýja Japan

Onoda var fagnað sem hetju við komuna til Japan og litu margir á hann með hlýju sem fulltrúa gamalla gilda. En Onoda leið ekki vel í hinu nýja Japan og átti erfitt með að meðtaka að þjóð hans hefði gefist upp, tekið ábyrgð á stríðinu í austur Asíu og í þokkabót leyft vesturveldunum að leggja niður japanska herinn.  Onoda sneri sér því að stjórnmálum á hægri vængnum en var illa við frægðina og átti erfitt með að fóta sig í gjörbreyttu samfélagi.  Onoda flutti því til Brasilíu árið 1975, gifti sig, eignaðist börn og rak nautabú. Hann flutti heim til Japans á efri árum og stofnaði sumarbúðir ætlaðar til að tengja börn náttúrunni og kynna þau fyrir jákvæðum gildum. 

Hiroo Onoda á efri árum.

Þann 6. janúar 2014 lést Hiroo Onoda, 91 árs að aldri. Hann var aftur á móti ekki síðasti japanski hermaðurinn til að viðurkenna lok styrjaldararinnar, það var Teruo Nakamura, sem barðist í frumskógum Indónesíu nokkrum mánuðum lengur en Onoda. Onoda er hins vegar sá þekktasti og saga hans mest heillandi. Þrjóska hans og takmarkalaus hollusta gerðu honum kleift að yfirstíga aðstæður sem erfitt er að gera sér í hugarlund. En þessir sömu eiginleikar urðu líka til þess að hann hikaði ekki við að myrða saklausa borgara svo árum skipti í blindri trú á málstað sem var löngu horfinn. Saga Hiroo Onoda sýnir fram á hvað hollustu, stolt og ákveðni geta áorkað.

Jafnt til góðra verka og illra. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu