Talið er að nasistar hafi stolið um 600 þúsund listmunum um alla Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni. Sumir fundust og var skilað til réttmætra eigenda eftir stríð en mikið af verðmætum glataðist. Meðal þess sem er Amber herbergið. Er þar sennilegast um að ræða stærsta rán nasista en illmögulegt er að leggja mat á verðmæti herbergisins.
Áttunda undur veraldar
Herbergið var kallað áttunda undur veraldar og var eitt af dýrmætustu eigum Rússlands. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar var það tekið í sundur af hersveitum nasista sem sendu það í einingum til Þýskalands þar sem það var sett vandlega saman aftur og haft til sýningar. Nokkrum vikum fyrir stríðsloka hvarf það aftur á móti og hefur aldrei fundist tangur né tetur af því síðan.
Upphaf Amber herbergisins má rekja allt aftur til 1701 þegar að þýski myndhöggvarinn Andreas Schlüter hóf að hanna það. Schlüter var aðalarkitekt prússnesku hirðarinnar og fyrstur hönnuða til að vinna með amber, sem er steingerð trjákvoða sem má finna í miklu magni á Balkanskaga.
Schlüter dreymdi um að skreyta veggi konungshallarinnar í Berlín með þiljum úr amber. Hann fékk til liðs við sig danskan handverksmann og saman fundu þeir leið til að vinna efnið. Amber var hitað og svo dýft í blöndu af hunangi og hörfræjum. Því næst voru veggirnir huldir með amberblöndunni sem svo var skeytt með gulli, silfri og verðmætum gimsteinum. Smám saman varð til herbergi engu öðru líkt í heiminum. Árið 1716 kom Pétur mikli Rússakeisari í heimsókn til Berlínar og féll kylliflatur fyrir herberginu. Friðrik I Prússakeisari sá sér leik á borði að ná langþráðu bandalagi við rússneska stórveldið og gaf því Pétri herbergið eins og það lagði sig.
Lokkaði og laðaði listamenn
Herbergið var tekið í sundur og flutt til borgarinnar sem Pétur hafði nýlega stofnað og nefnt í höfuðið á sjálfum sér, Sankti Pétursborg. Næstu áratugina lokkað herbergið að sér listamenn frá Rússlandi, Þýskalandi og Ítalíu sem stækkuðu herbergið og skreyttu en frekar. Árið 1770 var herbergið orðið tæplega 60 fermetrar, skreytt 6 tonnum af amber og meiru af silfri, gulli og gimsteinum en unnt er að gera sér í hugarlund. Glæsileiki þess gerði hvern þann sem inn í það steig orðlausan og þótt það sé erfitt að setja verðmiða á herbergið hefur verið áætlað að verðmæti þess hafi verið einhvers staðar á bilinu 40 -60 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi.
Herbergið var þjóðarstolt Rússa og jafnvel Bolsévikarnir báru of mikla virðingu fyrir því til að hreyfa við því á nokkurn hátt eftir valdatöku kommúnista. En Þjóðverjar voru ekki sama sinnis. Hitler var alltaf með hugann við að ná sem mestri og bestri list frá herteknum löndum og var sérstaklega í mun að ná Amber herberginu sem hann leit á sem þýska eign.
Árið 1941 hertóku Þjóðverjar borgina og safnstjóra herbergisins, Anatoly Kuchumov, skipað að taka herbergið í sundur og pakka því niður fyrir flutning til Þýskalands. Hann taldi hins vegar amber veggina of viðkvæma fyrir flutning og reyndi sitt besta til að telja Þjóðverjum hughvarf. Það gekk ekki, hermenn voru settir í verkið, og á 36 klukkustundum var búið að pakka hverju einasta snitti niður í kassa. Herbergið var flutt til Königsberg í Þýskalandi, sem í dag heitir Kaliningrad og tilheyrir Rússlandi, og sett saman í Königsberg kastala þar sem það var almenningi til sýnis næstu tvö árin. Að þeim tíma liðnum var verulega farið að halla á framgang Þjóðverja í stríðinu og skipaði Hitler að herberginu skyldi enn og aftur pakkað saman.
Árið 1944 gerðu Bretar miklar árásir á Köningsberg og árið eftir gjöreyddi sovéski herinn því litla sem eftir var af borginni og þar með talið kastalanum að langmestu leyti. Þegar að Sovétmenn hófu leit að herberginu var hvergi að finna neinn vott af því í þeim hlutum kastalans sem eftir stóðu né í rústunum. Ekki eina gullrós né flögu af amber.
Fullt af kenningum
Líklegasta skýringin er að herberginu hafi verið gjöreytt í loftárásunum og meðtóku sovésk yfirvöld það í fyrstu. En ofangreindur Kuchumov, sá hinn sami og neitaði að pakka saman herberginu árið 1941, neitaði alfarið að trúa því og fékk á endanum stuðning stjórnvalda til að hefja eigin rannsókn á hvarfi herbergisins. Næstu árin komu fram fjöldi kenninga. Eitt vitni fullyrti að hafa séð herberginu pakkað saman og komið um borð í þýskt flutningaskip sem sökk í janúar 1945. Aftur á móti hafa kafarar farið að þessu sama skipi og hefur ekkert fundist sem bendir til að herbergið hafi verið um borð. Aðrir segja að herbergið falið í gömlum saltnámum í Tékklandi, enn aðrir að því hafi verið sökkt í lón í Litháen og svo eru þeir sem halda staðfastlega fram að það hafi verið sent í pörtum til Bandaríkjanna þar sem þeir voru seldir.
Aldrei kom neitt út úr rannsókninni og á endanum gafst Kuchumov upp.
Eini gripurinn sem nokkurn tíma fannst voru skápur og mósaík listaverk sem þýskur hermaður hafði stolið við pökkunina á herberginu árið 1941. Það fannst í eigu sonar hans árið 1997 og tók þýska ríkið munina yfir.
Dauðsföll
Í bók um herbergið sem kom út 2004 er talið næsta fullvíst að herberginu hafi verið eytt í árás Sovétmanna á kastalann og rannsókn sovéskra yfirvalda aðeins verið til þess að breiða yfir að sjálfir hefðu þeir eytt sínu heittelskaða Amber herbergi. Það að Sovétmenn hafi látið eyða rústunum af Köningsberg kastala árið 1968 svo ekki væri unnt að leita í þeim, styður þá kenningu. Rússar hafa aftur á móti alltaf þvertekið fyrir það.
En sögu Amber herbergisins var ekki lokið. Þýskur áhugamaður, Georg Stein, sem eyddi stórum hluta ævi sinnar í að rannsaka hvarf herbergisins, var myrtur á grimmdarlegan hátt árið 1987 og Yuri Gusev, Rússi sem hafði veitt blaðamönnum aðstoð við leitina, dó í bílslysi árið 1993 við grunsamlegar kringumstæður.
Árið 1979 smíðuðu Sovétmenn nákvæma eftirlíkingu af herberginu og borguðu þýsk stjórnvöld hluta reikningum sem var upp á 1,4 milljarða íslenskra króna.
En hið eina sanna Amber herbergi er ekki gleymt og telja margir að leitinni að heimsins mesta fjársjóði sé langt frá því að vera lokið.