Ofurkonan og langhlauparinn Mari Jaersk vann það magnaða afrek um helgina að vinna sigur í Bakgarði 101 hlaupinu. Alls hljóp Mari 43 hringi um höfuðborgina, sem gera alls 288,1 kílómetra, og stórbætti Íslandsmetið. Hlaupið hófst á laugardagsmorgun og því lauk um klukkan fjögur í nótt, aðfaranótt mánudags. Háði Mari harða baráttu við Þorleif Þorleifsson um sigurinn en þau hlupu þar til að annað gæfist upp.
Í viðtali við Fréttablaðið sagðist Mari vera afar ánægð með árangurinn en verkefnið hafi ekki verið auðvelt enda hafi hana langað til að fara að grenja á ákveðnum tímapunktum í hlaupinu.
,,Maður er svo meyr eftir þetta, allir vinir mínir voru á staðnum að hvetja mig áfram og þeir gerðu sitt besta til þess að koma mér í gegnum þetta,“ segir Mari í viðtalinu.
Mari er ótrúleg íþróttakona en á Instagram-síðu hennar hefur það vakið talsverða athygli að hún sást fá sér sígarettu meðan hún hvíldist milli hringja.
,,Ég náttúrulega reyki og í svona hlaupum þá þarf maður bara að fá sér sígarettu ef maður er á annað borð reykingarmaður. Þú getur bara rétt ímyndað þér hvernig það hefði verið fyrir mig að fara í gegnum þessa 288 kílómetra án þess að fá mér sígarettu. Að fara í gegnum þessa tvo daga án þess að gera það sem ég geri reglulega var bara ekki í boði, ég varð bara að gera þetta,“ segir Mari í samtali við Fréttablaðið.
,,Sérstaklega í þessu hlaupi. Ég varð bara rosalega kærulaus, mig langaði í sígarettu og þá fæ ég mér bara sígarettu. Þetta er bara ‚‘kickið‘ mitt og ég bara varð að nýta mér það. Ég geri þetta hins vegar ekki í styttri vegalengdum og keppnum en á sama tíma er þetta ekki að eyðileggja fyrir mér.“
Hér má lesa ítarlegt viðtal Fréttablaðsins við afrekskonuna.