Litli drengur Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, og maka hennar Sævars Ólafssonar, er kominn í heiminn. Dóra greinir frá gleðitíðindunum á Facebook í dag, en í dag var einmitt settur dagur hjá Dóru. Hins vegar hafði drengurinn flýtt sér í heiminn og mætti á þriðjudaginn.
„Hann er svo undurfallegur og bjartur og lýsir upp hjörtun okkar. Ég hef aldrei upplifað slíka ást.“
Dóra segir að fæðingin og fyrstu dagarnir hafi verið krefjandi. Áætluð heimafæðing endaði upp á Landspítala og þurfti tímabundið að leggja drenginn inn á vökudeild. Hann fylgdi þó foreldrum sínum heim í dag þar sem fjölskyldan nýtur þess að kynnast. „Hann setur allt lífið vissulega í alveg nýtt samhengi.“
Dóra segist hafa botnlausa virðingu fyrir vinnu og mikilvægi heilbrigðisstarfsfólks í ljósi þessarar reynslu.
„Ég vil þakka ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, fæðingarlæknum og barnalæknum bæði Bjarkarinnar og Landspítala frá innstu hjartarótum fyrir að grípa mig og fjölskyldu mína á ögurstundu. Fagleg og styrk hjálparhönd þeirra í bland við botnlausa umhyggju og hlýju sem við höfum hlotið síðustu daga frá þessu yndislega fólki gerir mig klökka.
Þau hafa ekki bara tryggt okkur fjölskyldunni viðeigandi og rétta meðhöndlun og meðferð sem hefur lyft okkur yfir þessa erfiðu hjalla heldur líka sáluhjálp, ráðgjöf og öxl til að gráta á. Undursamlegar ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa bæði fyrir, undir og eftir fæðingu og á meðan dvöl okkar á vökudeild stóð hlustað á mig, ráðlagt mér, sýnt mér endalausan skilning og stuðning og hafa bókstaflega gripið mig í sinn faðm þegar tárin hafa streymt niður vangana í rosalegasta tilfinningarússíbanakokteil lífs míns.
Borið hefur á þungri umræðu um fæðingar og heilbrigðisstarfsfólk síðustu mánuði en ég vil segja að mín erfiða reynsla er þó böðuð ljóma þessa fólks. Þeirra visku og hjartagæsku. Ég verð þessu fólki ævinlega þakklát. Þetta fólk á allt gott skilið. Það á skilið miklu meira en það fær. Gleðilegan 1. maí. Baráttan lifir. Velkominn í heiminn elsku barnið mitt“