Hún var höfð að háði og spotti af nágrönnunum og falin af foreldrum sínum áður en örlög hennar urðu að verða skemmtiefni fyrir spænsku hirðina. Hennar hefur verið minnst í gegnum aldirnar sem,,La Monstrua” eða ,,vanskapningsins.” Það er ekki fyrr en mörgum öldum síðar að farið var að grafa ofan í sögu stúlkunnar í höllinni, Eugeniu Martinez Vallejo.
Fædd í guðshúsi
Saga Eugeniu hófst sunnudag nokkurn árið 1674 þegar foreldrar hennar, Antonia de la Bodega og José Martínez Vallejo, voru stödd í messu. Antonia var með barni og í miðri guðsþjónustunni fékk hún svo snöggar hríðir að hún fæddi barnið í kirkjunni. Íbúar þorpsins voru þess fullvissir að eitthvað stórfenglegt ætti eftir að bíða barns fæddu i guðshúsi. Það reyndist rétt en kannski ekki á þann hátt sem flestir bjuggu við.
Strax sem ungabarn var Eugenia ólík systkinum sínum, alltaf svöng og þyngdist hratt, sem þótti reyndar jákvætt á þessum tíma mikils barnadauða. Hún var yfir 20 kíló á fyrsta afmælisdegi sínum og þegar hún var sex ára var hún orðin 70 kíló. Fegurðarviðmið þessa tíma voru hliðholl þéttvaxnari konum en Eugenia fór snemma fram úr þeim. Foreldrar hennar fóru með hana unga til læknis sem setti hana á strangan megrunarkúr en án árangurs.
Hún varð fyrir svo miskunnarlausri stríðni meðal þorpsbúa að foreldrar hennar földu hana inni en ekkert minnkaði hinn stöðugi straumur fólks sem var forvitið að sjá ,,risabarnið”. Orðrómur um feitu stelpuna barst um nágrannaþorpin og þaðan til höfuðborgarinnar og alla leið til hirðar Karls II Spánarkonungs.
Karl var afar forvitin um þessa dularfullu, feitu stúlku og sendi menn til foreldra hennar með boð um að koma á fund konungs. Foreldrum Eugeniu leist illa á en gátu ekki með neinu móti neitað kóngi. Á þessum árum var það tíska hjá konungsfólki að safna að sér fólki með andlega og líkamlega annmarka og sem haft var til sýnis sem aðhlátursefni og skemmtun. Dvergvaxið fólk var sérstaklega eftirsótt því það undirstrikaði ,,fullkomnun” hinnar ráðandi stéttar. Filip IV , faðir Karls, hafði hvorki meira né minna en 110 dverga við hirð sína. Kóngafólk lagði metnaði sinn í að finna sem furðulegustu einstaklingana og þóttist Karl hafa komist í feitt þegar hann heyrði af Eugeniu.
Sem er nokkuð sérstakt með tilliti til þess að sjálfur var Karl afmyndaður vegna innræktunar.
Bölvun og blessun
Karl var svo uppnuminn af Eugeniu að hann kvaðst vilja halda henni í höllinni. Foreldrum Eugeniu þótti eðlilega skelfilegt að skilja við sex ára gamla dóttur sína en áttu ekki annars kosta völ og sneru heim í þorp sitt, vongóð um að kannski biði dóttur þeirra betra líf í höfuðstaðnum.
Eugenia átti aldrei eftir að sjá heimili sitt né foreldra aftur.
Karl mætti með Eugeniu í allar veislur og varð hún afar vinsæl meðal hirðarinnar. Stóðu aðalskonur í röðum að láta mála myndir af sér, með hana sér við hlið, til að leggja áherslu á fegurð eigin líkamsvaxtar. Dvölin hjá kóngi var Eugeniu bæði bölvun og blessun. Annars vegar var hún höfð að háði og spotti launalaust frá morgni til kvölds en hins vegar fékk hún góðan mat, vönduð föt og hlýtt rúm, ólíkt því sem fátækt sveitafólk átti að venjast. Það sem skilur Eugeniu frá öðrum ,,furðuverkum” við hirðina er að konungur var það upptekinn af henni að hann lét hirðmálara sinn, Juan Carreno de Miranda, mála tvær myndir af henni. Það var ,,heiður“ sem aðeins örfáum ,,fríkum“ hlaust. Eugenia er augljóslega afar döpur á báðum málverkunum, hún þjáðist af ýmsum líkamlegum kvillum auk þess sem stærð hennar gerði henni erfitt fyrir að sitja fyrir svo klukkustundum saman.
Málverkin bera þau ósmekklegu nöfn ,,Vanskapningurinn í spariklæðnaði” og ,,Vanskapningurinn nakinn”
Hissa yfir hversu ljót hún er
Carreno de Miranda fór stóran í lýsingum sínum á Eugeniu:
,,Eugenia er föl en ekki ófríð þrátt fyrir að andlit hennar sé alltof stórt. Höfuð, andlit og háls eru á stærð við höfuð tveggja karlmanna og magi hennar jafn stór og hjá feitri konu sem að fara að fæða barn. Læri hennar eru svo þykk að maður verður ruglaður og hissa yfir hversu ljót hún er. Fótleggir hennar eru aðeins minni en á karlmanni en umvafnir spiki. Fætur hennar eru í samræmi við líkamann, reyndar eins og á karlmanni, og hún á erfitt með að hreyfa sig vegna þess hversu stór hún er.”
Í dag er talið að Eugenia hafi þjáðst af Prader-Willi heilkenni sem yfiirleitt veldur líkamlegum og andlegum þroskatengdum einkennum. Eitt helsta einkenni heilkennisins er að finna aldrei til þeirrar tilfinningar að vera saddur og vill því stöðug hungurtilfinning leiða til ofáts.
Vansæla stúlkan í höllinni
Eugenia átti erfitt með að komast um ganga hinnar risastóru hallar sökum stærðar sinnar og var oft móð og másandi, sem hirðfólki þótti afar fyndið. En þrátt fyrir allt virðist sem Eugenia hafi gert sitt besta úr hallarvistinni. Hún var sögð ljúf í viðmóti og mun aldrei hafa reiðst né hækkað róminn við nokkurn mann. Hún var vinsæl og vinamörg alla sína tíð.
Eugenia Martinez Vallejo lést í svefni 25 ára gömul og hafði þá verið í höllinni í tæpa tvo áratugi.
Árið 1997 minntust Spánverjar vansælu stúlkunnar í höllinni með því að reisa henni styttu í borginni Avilés. Styttan er þörf áminning um hversu grimm mannskepnan getur verið og að aldrei megi sömu fordómarnir og Eugenia, og hin ,,fríkin“ í höllinni urðu að þola, verða liðnir í samfélagi manna.