Þegar að tilkynnt var um uppgjöf Japana, og þar með lok seinni heimsstyrjaldarinnar, þann 14. ágúst 1945 flykktist fólk út á götur Bandaríkjanna að fagna.
Á Times Square var sjóliði nokkur sem í tilfinningahitanum virtist ekki hafa séð sér annað fært en að grípa næstu stúlku og smella á hana kossi. Ljósmyndarinn Alfred Eisenstaedt náði að smella mynd af atvikinu og úr varð ein þekktasta ljósmynd sögunnar. Allt gerðist þetta svo hratt að Eisenstaedt hafði engan tíma til að taka niður nöfnin á fólkinu auk þess sem þúsundir manna voru allt um kring.
Myndin var birt í Life tímaritinu þann 27. ágúst og varð samstundis heimsfræg enda þótti hún lýsa afspyrnu vel stemningunni sem skapast hafði þennan dag. Fjöldi fólks gaf sig fram næstu árin og kvaðst vera fólkið á myndinni en engum tókst að sanna mál sitt með afgerandi hætti.
Árið 2012 kom út bókin ,,The Kissing Sailor” þar sem fullyrt er að sjóliðinn hafi heitið George Mendonza. Stúlkan var aftur aðstoðarmaður á tannlæknastofu og hét hún Greta Zimmer Friedman. Höfundar bókarinnar leituðu fólkið uppi og viðurkenndi Mendonza að hafa verið dauðadrukkinn þegar myndin var tekin. Því má bæta við að hann var í þokkabót á stefnumóti og má sjá stúlkuna sem hann var á stefnumóti við, Ritu Perry, í bakgrunn myndarinnar, steinhissa á svip. Þau áttu síðar eftir að giftast.
Zimmer-Friedman sagði höfundunum að henni hefði verið brugðið þegar Mendonza greip hana og það hefði akkúrat ekkert rómantískt verið við kossinn. ,,Hann var svo sterkur að ég gat mig hvergi hreyft. Það er varla hægt kalla þetta koss, það var frekar að hann klessti sér upp að mér.”
Bæði voru þau aftur á móti alltaf hrifin af myndinni og stolt af að hafa verið á réttum stað á réttum tíma.
Greta Zimmer-Friedman lést 92 ára gömul árið 2016 og George Mendonza lést 95 ára gamall árið 2019.
Í dag er farið að líta myndina öðrum augum, rómantíski blærinn er farinn að fölna og þess í stað telja margir að um hreina og klára kynferðislega áreitni hafi verið að ræða.
Dæmi nú hver fyrir sig.