Tónlistarmaðurinn Júlí Heiðar gaf á miðnætti út nýtt lag sem ber titilinn Brenndur. Lagið fylgir eftir fádæma vinsældum lagsins Ástin heldur vöku sem að hefur notið gríðarlegra vinsælda síðustu mánuði og var vikum saman á toppi íslenska listans.
Í viðtali við FM957, þar sem lagið var frumflutt, segir tónlistarmaðurinn að í laginu sé hann að biðja foreldra sína afsökunar á hegðun sinni í kringum tvítugt.
„Ég varð fyrir miklu einelti í grunnskóla og þegar maður verður fyrir ítrekuðu aðkasti þá er það bara þannig að það fara að myndast sprungur sem erfitt er að fylla upp í án aðstoðar, þá sérstaklega þegar maður er ungur,“ segir Júlí Heiðar.
Hann hafi farið útaf sporinu þegar hann var 19 – 23 ára gamall og sjái eftir hegðun sinni gagnvart foreldrum sínum og systkinum.
„Svo lagið er einhverskonar afsökunarbeiðni til þeirra og vitnar í þá sjálfsvinnu sem ég hef þurft að fara í vegna brotinnar sjálfsmyndar frá æsku,“ segir Júlí Heiðar.