,,Ég hef það bara fínt og er í lyfjagjöf aðra hvoru viku í sex mánuði. Dagarnir eru mismunandi, maður er óttalegt dauðyfli strax á eftir lyfjagjöfina en fær stoðlyf á við stera sem gefa manni auka orku. Það er fullt af góðum dögum inn á milli og þá er maður fljótur að gleyma þessum vondu. En maður fær vissulega högg þegar maður heyrir orðið krabbamein í fyrsta skipti,” segir Hildur Ómarsdóttir matgæðingur, verkfræðingur og móðir fimm ára drengs og eins árs stúlku.
Hildur er vegan og hefur vakið mikla athygli fyrir Instagram síðu sína, @hilduromarsd, þar sem hún deilir meðal annars vegan uppskriftum. Hún var greind með krabbamein í janúar síðastliðinn og hefur verið opin með að pósta um ferlið. ,,Þetta gerðist hratt. Ég vakna með verk og er greind tveimur vikum síðar,” segir Hildur.
Erfið helgi
,,Ég fæ að heyra krabbamein á föstudegi og fer inn i helgina án þess að vita neitt. Maður er ekki viðbúin því að heyra orðið krabbamein, hleypir hugsunum djúpt og fer að hugsa um dauðann. Valdið er tekið af manni því maður er ekki lengur við stjórnina og þá vilja tilfinningarnar hlaupa svolítið djúpt sem er óviðráðanlegt en allt í lagi. Þetta var erfið helgi. Á mánudaginn hitti ég svo lækninn sem segir mér hvernig krabbamein þetta sé og að það séu góðar horfur. Og þegar maður heyrir að það sé til lyfjameðferð og horfurnar góðar er ekki annað hægt en að vera þakklátur og jákvæður. Það er bara verkefni að fá völdin til baka.”
Mitt síðasta áfall
Hildur hefur alltaf trúað að það sé tilgangur með öllu í lífinu, það sé forsjón og henni því ætlað það verkefni að takast á við krabbameinið. ,,Maður áttar sig á því að það eru allir glíma við eitthvað. Ég var nýbúin að hlusta á áhrifaríkt viðtal við Guðna Gunnarsson í hlaðvarpi hjá Snorra Björnssyni þegar ég fékk greininguna. Það talaði hann um að þurfi ákveðið mörg áföll til að lifa með sjálfum sér. Ég eignaðist barn með hjartagalla og það hafa verið áföll í gegnum árin og þegar ég varð ólétt aftur var grunur um hjartagalla en svo reyndist ekki vera. En það var eins og það væri rifið af gömlu sári og það var jafnvel verra en í fyrra skiptið. Þá fattaði ég að var ekkert búin að vinna út úr þessu öllu. Það er ótrúlegt að það þurfi krabbamein til að leiða mig í þessa átt og þiggja þá aðstoð til að vinna úr fleiru en krabbameininu. Og þegar ég fékk greininguna hugsaði ég til þessara orða Guðna og ákvað að ég ætlaði að láta þetta verða mitt síðasta áfall til að lifa með sjálfri mér. Það er verið að beina mér í ákveðna átt og ég þarf að horfa inn á við,” segir Hildur.
Hún segir magnað hvað Krabbameinsfélagið grípi fólk strax og fær varla lýst hversu þakklát hún er styrktarsamtökunum Ljósinu og Krafti. ,,Þeir gefa manni þau verkfæri sem þarf til að takast á við þetta. Ég skráði mig í samtökin og fékk strax símhringingu og mér var leiðbeint, fékk fund með iðjuþjálfa og skráði mig á námskeið um þrautseigju og núvitund. Og þetta eru ekki bara verkfæri fyrir krabbameinsferlið, þetta eru verkfæri fyrir lífið sjálft. Þetta er ótrúlega gott starf.”
Hildur bætir við að allir hafi gott af því að fara til dæmis á fyrirlestur um kvíða og hitta sálfræðing.
Segi já við öllu
Hildur bókaði sálfræðitíma áður en hún byrjaði í lyfjameðferðinni til undirbúnings. Hún hafði ekki farið til sálfræðings fyrir greiningu. ,,Hvað átti ég að tala um? Hvað var mitt vandamál? En ég er að uppgötva núna hvað það er gott. Ég segi já við öllu hvort sem það er hugleiðsla eða leirnámskeið. Ég nýti alla hjálp sem er í boði því hún gerir þetta geranlegt. Ég er að læra inn á sjálfa mig og skil núna að ég hefði kannski þurft á þessu að halda fyrr til að vinna úr áfallinu þegar strákurinn minn fæddist með hjartagalla. Lífið heldur bara einhvern vegin áfram og maður staldrar aldrei við. Hann var orðinn heilbrigður og þetta bara búið.”
Hún bætir við að auðvitað vildi hún óska þess að hún hefði ekki fengið krabbamein, heldur uppgötvað þetta öðruvísi.
,,Veistu, mér leið eins og það væri verið að segja mér eitthvað. Þetta var svo skrítin tímasetning, ég var að koma úr fæðingarorlofi og að fara að vinna þegar ég vakna með þennan hræðilega verk. Ég veit ekki hvað er verið að segja mér, það er erfitt að útskýra það, það er eitthvað tákn. Ég er ennþá óviss um hvað er verið að segja mér. Ég ætla bara að reyna að hlusta á innsæið.
Rússibanareið
Hildur segist ákveðin í að taka eins mikið út úr þessari reynslu og hún getur, það sé ekkert grín að greinast með krabbamein en hún sé ekki ein í þessu.
,,Það sem er í boði er klárlega að hjálpa manni að sjá þetta sem geranlegt. Oft heyrir maður um þá sem deyja úr krabbameini, sér sársaukann. En það er fullt af hetjum þarna úti sem eru að berjast en taka samt þátt í lífinu.”
Hildur hafði fyrir tilviljun verið að fylgja Birnu Almars á Instagram en Birna var með sama krabbamein og Hildur. ,,Hún var að lifa sínu lífi, hugsa og stelpuna sína og æfa og mjög opin með allt. Ég var í algjörri óvissu þarna fyrst, ég ber tilfinningarnar utan á mér og ætla ekki að gera lítið úr því að fyrsta tímabilið var erfitt. Biðin og óvissan áður en meðferðin hefst er erfið, hvaða rússíbana er ég að fara í?
Ég sá að Birna var búin í þessari rússibanareið og sá að þetta var hægt. Ég leitaði til hennar því það er svo mikilvægt að geta talað við einhvern sem er búinn að ganga í gegnum það sama. Birna gaf mér fótfestuna.”
Helgi í djúpar hugsanir
Hildur er ákveðin í að vera ekki upptekin við að vera veik. ,,Ég er kannski ekki að fara að hoppa í vinnuna, en ég ætla að nýta góðu dagana í að gera það sem eflir mig, læra að hugleiða, fara í göngutúra og skapa í eldhúsinu. Það er mikilvægt að hafa einhverja rútínu í ferlinu.“
Hildur og Ragnar Gauti, maður hennar, voru með son sinn, sem verður fimm ára í sumar, heima í þrjá mánuði, eða frá því Hildur greindist, vegna Covid-19. Hún segir að það hafi verið dýrmætt að vera heima með fjölskyldunni. ,,Ég ætla að komast í gegnum þetta fyrir þau. Ég var farin að horfa á manninn minn og vorkenna honum fyrir að verða einstæður faðir og þurfa að syrgja mig. Það fór ein helgi í í djúpar hugsanir um óréttlæti og ég grét alla helgina. Ég fann til vanmáttar og hugsaði hvort ég ætti í alvöru ekki að fá að fylgja börnunum mínum? Og þegar maður fær þær fréttir að maður fái að fylgja börnunum sínum fer maður að fylgjast enn betur með þeim.”
Fjölskyldusjúkdómur
Hildur segist upplifa krabbamein sem fjölskyldusjúkdóm. ,,Það er gríðarlegt áfall að fá þær fréttir að maki sé með krabbamein og í raun flóknari staða því þú leyfir þér kannski ekki að sýna tilfinningarnar því þú ,,átt” að vera til staðar og hughreysta makann. Það er í raun það sem gerðist í okkar tilfelli en við erum meðvituð um að hlúa að hvort öðru en hann kom mér í gegnum verstu óvissuhelgina og passaði að ég staldraði ekki allt of lengi í of hræðilegum hugsunum.
Það að verða svo snögglega veik móðir og geta ekki sinnt börnunum sínum eins og áður hefur mér þótt vera erfitt á köflum en að sjá hvernig maðurinn minn sinnir foreldrahlutverkinu 150% á meðan hefur gert það mun auðveldara. Það er næstum eins og hann hafi fengið orkuna lánaða sem ég hef tapað. En við höfum held ég aldrei verið nánari og erum dugleg að láta okkur dreyma um framtíðina.”
Hún segir að sitt góða bakland geri hlutina auðveldari.
Hárið
Hildur deildi á Instagram þegar hún klippti á sér hárið stutt. Hún segir að það hafi ekki verið erfitt því hárið muni nýtast öðrum en það verður notað til hárkollugerðar. ,,Ég trúi smá á karma og vona að þetta komi kannski til mín. Ég vildi vera á undan sjúkdómnum. En ég hef reyndar haldið hárinu mjög lengi. Flestir missa hárið eftir um tvær vikur en það eru komnar fimm lyfjameðferðir hjá mér. Ég get ennþá farið brosandi út í búð og falið þetta. Núna er þetta reyndar orðið strjált og ég er farin að ganga með derhúfu en um leið og hárið fer alveg þá er maður farinn að bera sjúkdóminn svolítið utan á sér. Það er erfið tilhugsun því þá fer fólk mögulega að vorkenna þér og ég vil ekki láta líta á mig sem sjúkling.“
,,En maður sér aðra í Ljósinu sem hafa misst hárið en hlæja og borða saman. Maður upplifir sig ekki einan,” bætir Hildur við.
Himnaríki á jörðu
Talið berst að Ljósinu og segir Hildur það vera himnaríki á jörðu. ,,Þar er boðið upp á slökun, jóga og aðra líkamsrækt sem er frábært því ég veit ekki hversu tilbúin ég er að fara á venjulega jógastöð til dæmis, það er aðeins öðruvísi. Ég var þar á námskeiði sem heitir Þrautseigja og innri styrkur og er á biðlista eftir Núvitundarnámskeiði. Þetta er hollt fyrir alla. Ég hugsaði ekki hvað þetta væri frábært því ég er krabbameinssjúklingur heldur eru þetta hollar áminningar og verkfæri hvernig maður getur gripið hugsanir sínar og lært um bjartsýni. Ég fékk staðfestingu á að ég er bjartsýn manneskja. Í Ljósinu er svo góður andi. Og maturinn er æðislegur! Kjötlaust eldhús!” Hildur segist hafa næstum grátið af gleði.
Þarf að uppfæra upplýsingar
Í framhaldi berst spjalli að mat en Hildur hefur verið grænmetisæta alla ævi og aldrei smakkað fisk né kjöt. ,,Ég hef aldrei litið á fisk eða kjöt sem mat, þetta hafa alltaf verið dýr fyrir mér. Og sem barn gerir maður ekki upp á dýra svo mér fannst útilokað að borða dýr. Ég er þakklát fyrir að hafa lært þetta sem barn því það er erfiðara að aflæra eitthvað. Mér finnst oft að ungbarnavernd ýti undir óöryggi vegan foreldra því þeirra ráðleggingar í sambandi við mat byggja á mörgu leyti á gamaldags upplýsingum sem ekki tekur tillit til grænkerafæðis og þarf að uppfæra. Á meðan ungbarnaverndin hefur ekki nýrri gögn verða sumir foreldrar ráðvilltir. Ég fæ mikið af skilaboðum frá vegan foreldrum sem vantar ráð og finnst ótrúlega gaman að geta hjálpa þeim.,” segir Hildur.
Ekki lengur geð á mjólk
Hún fór þó ekki að pæla í veganisma fyrr en hún flutti til Svíþjóðar fyrir tíu árum. ,,Svíarnir voru komnir lengra í þessu og vöruúrvalið var miklu meira en á Íslandi. Við fórum að kaupa vegan vörur en fengum okkur stundum ost á pizzunar. Við prófuðum okkur áfram og smám saman vissi ég að þetta var eitthvað sem ég vildi. Við vorum búin að taka eggin út því mér fannst þau alltaf eitthvað skrítin. Og þegar ég byrjaði með barn á brjósti varð svo ofboðslega skýrt fyrir mér hvað mjólk er og maður fann þessi fullkomnu tengsl milli barns og móður. Þá hafði ég ekki lengur geð á mjólk því það er ekkert annað spendýr sem drekkur úr annarri tegund af spendýri. Mér finnst mjög skrýtið og absúrd að það sé norm. Við höfum verið alfarið vegan síðastliðin fimm ár.”
Gömlukalla yfir sig
Hildur segir að enn séu þess dæmi að litið sé á veganista sem öfgafólk. ,,Ein sem ég þekki sagði að maður sem var að tuða yfir veganisma væri að,,gömlukalla yfir sig.” Það finnst mér vel að orði komist!, segir Hildur og hlær. ,,Ömmu minni níræðri finnst reyndar óskaplega gaman að elda grænmetisrétti svo þetta er ekki endilega aldurstengt. Þetta er sem betur fer að breytast og veganismi samþykktari, ekki síst vegna aukinnar áherslu á umhverfisvernd. Veganismi eru miklu umhverfisvænni og það er skammarlegt að það sé ekki til betri kolefnistölur yfir landbúnaðinn, sérstaklega kúabúin. Það er einhver feluleikur þar í gangi en vonandi er verið að vinna í því.”
Instagram síða Hildar er afar vinsæl. Hún hóf að pósta myndum af mat og fór fólk í auknum mæli að hringja að spyrja út í uppskriftir og fá ráðleggingar. ,,Það er gaman að þessum aukna áhuga, fólk er að spyrja og gera uppskriftirnar. Ég hef svo gaman af að mitt áhugamál nýtist öðrum,” segir Hildur Ómarsdóttir sem er á leiðinni norður að fá grænmetisrétti hjá ömmu sinni.