Kóngar, drottningar og önnur fyrirmenni hafa haft fyrir sið í gegnum aldirnar að að látið mála af sér myndir. Þar sem engir voru Instagramfilternir til að fegra fólk fengu listamennirnir oftar en ekki þau fyrirmæli að fegra viðfangsefnin. Sum málverkin eru þó miður falleg, önnur fyndin og enn önnur hreinlega sorgleg. Lítum á nokkur sem hafa skapað sér miður gott nafn.
Ferdinand II
Ferdinand II (1452-1516) er þekktur fyrir að hafa sameinað Spán, styrkt Kristófer Kólumbus til Ameríkuferðarinnar og stofna hinn illræmda rannsóknarrétt. Ferdinand var mikill dugnaðarforkur en á þessu málverki eftir Michel Sittow lítur hann út fyrir að vera að koma af íslenskri verslunamannahelgarhátíð. Glerþunnur.
Maria-Anna af Bavariu
Hertogaynjan Maria-Anna af Bavariu (1610-1665) var einnig dugleg kona. Hún var virk í stjórnmálum í Austurríki og mun hafa gengið í öll verk, ólíkt mörgum prinsessunum. Það hefur að líkindum verið erfitt að stússast í pólitíkinni því á málverkinu virði Maria Anna vera óskaplega þreytt eitthvað og pirruð. Eins og hún bara nenni þessu ekki lengur.
Leopold I
Leopold I var af Habsborgarættinni eins og augljóslega má sjá á andlitsfalli hans. Leopold var sannkallaður áhrifavaldur síns tíma og hafði tvær ástríður í lifinu: Að berja á Ottómannveldinu og Frökkum en líta samt æðislega út. Hann var afar greindur og líklega einn menntaðasti valdamaður síns tíma en hans mesta ást var ítalskur ballet og óperur. Hann lét setja upp ótal sýningar i höll sinni og tók oftar en ekki þátt í sýningunum. Á málverkinu er hann einmitt í búning úr einu leikritanna en hann elskaði fátt meira en að klæða sig upp. Leopold var svo ánægður með þetta verk að hann fékk málarann, Jan Thomas, til að mála fjölda málverka af sér og fjölskyldu sinni.
James II
James II varð konungur Skotlands aðeins 6 ára gamall. Fjöldi samsæra voru gerð til að losna við unga kónginn sem tókst að sigrast á öllum sínum andstæðingur. James gerði miklar umbætur í stjórnmálum í stjórnkerfinu og skattkerfinu. Hann stóð einnig fyrir stofnun háskólans i Edinborg. Það hlýtur að vera erfitt að sigrast á óvinum, setja skattalög og stofna háskóla því James virðist einfaldlega alveg búinn á því. Bugaður.
Ljóta hertogaynjan
Það veit enginn hvað ,,Ljóta hertogaynjan“ hét í alvöru en þetta makalausa málverk frá 1513 vekur enn undrun og aðdáun. Í dag er talið fyrir víst að konan hafi þjáðst af afar sjaldgæfu afbrigið af Paget sjúkdómnum. Talið er að málarinn, Quinten Massys, hafi málað hana nákvæmlega eins og hún leit út enda þekktur fyrir það í sínum portrettmyndum. Paget sjúkdómur veldur því að beinvöxtur er afar óeðlilegur. Ljóta hertogaynjan virðist hafa farið afar illa úr út sjúkdómnum en það er þekkt að hann leggist á höfuðkúpu. Þar sem sjúkdómurinn kemur oft ekki fram fyrr en á fullorðinsárum getur verið að konan hafi verið gullfalleg á yngri árum. Átakanlegt en tilfinningaríkt verk, málað af virðingu.
Filip IV
Mikill fjöldi ljótra málverka á upptök sín á Spáni. Þar með talið þetta málverk af Filip IV konungi (1605-1665). Filip var við völd í hvorki meira né minna en 44 ár og eyddi meirihluta þeirra í stríðsbrölt við Frakkland. Þess á milli studdi hann listir af miklum móð, safnaði málverkum og studdi fjölda málara fjárhagslega.
Filip var svo ánægður með þetta málverk málarans Gaspar de Crayer að hann lét hann mála það aftur, nákvæmlega eins en nú með uppáhalds dverg sinn hér við hlið. Spænska hirðin var mjög upptekin af dvergum og safnaði þeim að sér. Hvort það var ástæðan eða hvort Filip vildi einfaldlega virka hávaxnari er erfitt um að segja.
Karl II
Sonur Filips var Karl II sem er oft nefndur innræktaðasti maður sögunnar. Amma hans og móðursystir voru sama konan og móðir hans var systurdóttir föður hans. Hann var mágur Leopolds I hér að ofan sem einnig var föðurbróðir hans. Öll bölvun Habsborgarættarinnar virðist hafa dunið á vesalings Karli sem hafði svo stóran Habsborgarkjálka að hann gat vart borðað, var þroskaskertur og þjáðist af þunglyndi og flogaveiki. Með fráfalli hans lauk valdatíma Habsborgaranna. Nánar má lesa um Karl II hér.
Danska konungsfjölskyldan
Ef við færum okkur inn í nútímann þá er ekki einhugur um hvort þetta málverk Thomas Kluge sé fallegt eða ljótt. Það var málað 2013 og fyrsta málverkið sem gert er að dönsku konungsfjölskyldunni í 125 ár. Sumir segja það eins og veggspjald úr hryllingsmynd. Aðir segja verkið minna á lélega æfingu í Photoshop. Enn aðrir hrósa því sem snilld. Margrét drottning tók formlega við verkinu en athygli vakti að hún mælti ekki orð um hug sinn til þess. Kurteins en köld sögðu þeir sem á horfðu.