Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, og eiginkona hans, Ruth Melsted lyfjatæknir, hafa sett glæsilegt einbýlishús sitt í Úlfarsárdalnum á sölu.
Húsið, sem var byggt 2019, er hið glæsilegasta og hefur engu verið til sparað, en húsið var teiknað af Kára Eiríkssyni arkitekt og innanhússhönnun var í höndum Valgerðar Á. Sveinsdóttur. Lóðahönnuður var svo Ólafur Melsteð landslagsarkitekt.
Í húsinu má finna sérsmíðaðar innréttingar frá Eldhúsvali, hurðar frá Smíðastofu Sigurðar R. Ólafs ehf, gólfefni frá Birgisson og svo er Hager EASY hússtjórnunarkerfi frá Rönning í húsinu. Að sjálfsögðu má svo finna verönd með hitabræðslu og heitan pott, en lóðin er gríðarlega stór eða um 927 fermetrar og er innri lóðin afgirt með steyptum veggjum.
Húsið sjálft er á tveimur hæðum. Á þeirri neðri má finna stóra hjónasvítu með baðherbergi, tvö rúmgóð svefnherbergi, baðherbergi, þvottahús og svo bílskúrinn en inn af honum er annað baðherbergi. Efri hæðin skiptist í stóra skrifstofu eða sjónvarpsherbergi með sérsmíðuðum innréttingum og stórri bókahillu. Þar má einnig finna gestasnyrtingu. Svo er stórt rými sem er opið og skiptist í eldhús, stofu og borðstofu. Þar má finna fallegan arin og glæsilega eldhúsinnréttingu með svakalega miklu skápaplássi.
Ekki er neitt ásett verð á eigninni heldur er óskað eftir tilboðum. Fasteignamatið er þó rétt tæpar 133 milljónir svo hæpið er að eignin fari undir því verði.