fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fókus

Þorkell sló í gegn í raunveruleikaþáttum á Netflix – ,,Þetta var gjörsamlega snargeggjuð lífsreynsla“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Mánudaginn 18. apríl 2022 09:00

India Bullock og Þorkell Jónsson Mynd/Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Netflix er að finna þættina Baby Ballroom, raunveruleikaþætti þar sem fylgst er með danskólanum Zig Zag í Wolverhamptom í Bretlandi. Skólinn er rekinn af hinum mjög svo litríka Warren Bullock og Jane konu hans og er fylgst með sigrum og sorgum ungmenna í hinum harða heimi samkvæmisdansa. Við sögu koma meðal annars þríburadætur þeirra hjóna svo og annað heimilisfólk. Meðal þeirra eru dansfélagar dætranna, hinn ungi Kiril frá Úkraníu og íslenski dansarinn Thor, réttu nafni Þorkell Jónsson.

Ekkert normalt við þetta

,,Þetta var gjörsamlega snargeggjuð lífsreynsla og akkúrat ekkert normalt við þetta. Einn daginn kom ég til dæmis hrikalega myglaður í morgunmat og það voru upptökur í gangi. Ég var ekki að fíla að reyna að borða hafragraut með myndavél uppi í andliti á mér. Þetta er allt plat að því leyti til að allt er skipulagt og því útilokað eiga eðlileg samtöl við fólk. Sumt er auðvitað raunverulegra en annað og þeir náðu reyndar umtalaðri senu af mér þar sem ég var að öskra á Warren. En í keppnisumhverfi er alltaf hiti og tilfinningar og ég hef svo sem verið orðljótari svo þetta slapp. En það var sko alvöru raunveruleikasjónvarp!” segir Þorkell og hlær. ,,Þetta er reyndar í annað skiptið sem ég slysast inn í raunveruleikaþátt því ég keppti í Dans dans dans í Ríkissjónvarpinu fyrir tíu árum.“

Þorkell og India svífa um gólfið.

,,Warren er ótrúlegur karakter, reyndar stórfurðulegur, en svakalega fyndin týpa og lygilega snjall að búa til bisness í kringum dansinn. Hann langar ekkert meira til en að verða frægur en hann er einlægur og þú veist alltaf hvar þú hefur hann,” segir Þorkell sem flutti til Los Angeles fyrir aðeins þremur vikum. ,,Ég hélt að þessir þættir yrðu bara á Channel 4 í Bretlandi, sem er ekki með mjög mikið áhorf, en allt í einu var Netflix búið að kaupa réttinn og þættirnir komnir út um allan heim. En ekkert okkar sem kom fram fékk greidda krónu.”

Týpískur utanborðslúði

Þorkell er 28 ára og byrjaði að dansa aðeins fimm ára þegar að vinkonu mömmu hans vantaði dansfélaga fyrir dóttur sína. ,,Ég hafði engan áhuga en mamma arkaði samt með mig í dans heilan vetur. Reglan á mínu heimili var alltaf að ef maður byrji á einhverju þá verður að klára það og þegar að fyrsta önnin var búin var ég komin með áhugann. Daman mín hætti aftur á móti skömmu seinna.

Þorkell á upphafsárum dansins, fjórði frá vinstri.

Í dag finnst mér það mjög ógnvekjandi að spá í hvar ég væri ef mamma hefði ekki dregið mig grenjandi í tíma því dansinn er allt mitt líf.”

Foreldrar Þorkels höfðu snemma tekið eftir að liðamót hans virtust ekki eðlileg og fóru með hann til læknis. ,,Ég er með yfirteygjanleg liðamót og þótt það væri ekki unnt að finna nafn á hvað nákvæmlega væri að var þeim sagt að ég myndi aldrei stunda fótbolta eða aðrar slíkar íþróttir. Enda lenti ég alltaf í tognun eða vesini við boltaíþróttir og þegar ég var 14 ára meiddist ég svo illa í fótbolta að það var tekin sú ákvörðun að ég hætti öllu slíku. En boltinn kallaði reyndar aldrei á mig. Ég var í skák og samkvæmisdansi, var rauðhærður með gleraugu og stamaði. Var reyndar alveg týpískur utanborðslúði.”

Þorkell með fjölskyldu sinni.

 Það var ekki fyrr en í fyrra sem Þorkell fékk greiningu á LoeysDietz heilkenni. ,,Þetta hefur háð mér og ég er til að mynda með skekkju í baki og þarf að passa mig. En ég er alls ekki svo slæmur, það eru til fimm stig og ég er á stigi númer tvö.”

Héldu að ég væri samkynhneigður

Þorkell segist hafa notað húmorinn sem skjöld gegn stríðni á unglingsárunum með góðum árangri auk þess að vera sjóaðri en félagar hans í samskiptum við kvenkynið. ,,Þegar að gaurarnir í skólanum byrjuðu að hafa áhuga á stelpum vissu þeir ekkert hvernig ætti að tala við þær. Ég hafði aftur á móti dansað við þær frá því ég var fimm ára og stelpur voru mínir bestu félagar. Ég hef reyndar alltaf átt fleiri vinkonur en vini og þegar ég byrjaði í menntaskóla héldu mjög margir að ég væri samkynhneigður því ég var svo mikið með stelpunum.”

Þorkell æfði dansinn af krafti í gegnum skólagönguna. Draumurinn hófst síðan fyrir alvöru við lok grunnskóla með heimsmeisturunum Adam og Karen Reeve, sem þá höfðu lagt keppnisskóna á hilluna og voru farin að þjálfa á Íslandi. Meðal ungmennanna sem námu hjá þeim voru unga dansparið Þorkell og Denise Margrét Yaghi sem þau hófu að senda úr landi í kennslu og í keppnir.

Þorkell í Ástralíu.

,,Með þeirra aðkomu fór dansinn frá áhugamáli sem ég hafði lagt mjög mikið í og í að vera eitthvað sem ég vildi gera að mínum ferli.”

Úthverfaprinsar út Kópavogi

Þegar Þorkell var 19 ára ákváðu þau Denise að fara með Adam og Karen til Ástralíu, þaðan sem Adam kemur, og einbeita sér alfarið að dansinum. ,,Adam og Karen voru mínar fyrirmyndir. Foreldrar mínir voru samt harðir á því að ég kláraði menntaskólann, sem ég var reyndar búinn að fá meira en nóg af, en ég fékk að klára prófin á undan áætlun. Mamma og pabbi, María Höskuldsdóttir og Jón Gísli Þorkelsson, eru reyndar bestu foreldrar í heiminum. Ég á bróður, Höskuld Þór,  sem er fjórum árum yngri en ég og var geggjað góður dansari en fór í leikhúsið um 17 ára og hefur haldið sig þar. Sem er skrýtið því við erum báðir úthverfaprinsar úr Kópavoginum og foreldrar okkar eru ekki listafólk. Þau hafa aftur á móti alltaf stutt alla vitleysu sem okkur dettur í hug og verið hundrað prósent að baki okkur sem maður hefur í raun ekki fattað fyrr en í seinni tíð því maður tekur svo mörgu sem gefnu sem krakki og unglingur.”

Óalandi og óferjandi

Þorkell og Denise keyptu miða aðra leiðin til Ástralíu og dvöldu þar í fimm mánuði. ,,Þar fékk ég í fyrsta skipti að vera alfarið dansari, að keppa, æfa og sýna og við fórum frá því að vera allt í lagi og í að verða heimsklassa dansarar. Ég elskaði dvölina í Ástralíu en hún var aldrei hugsuð til framtíðar.“

Þorkell keppti í þáttunum Dans dans dans á RÚV.

Þorkell segist hafa byrjað að leggja mun meiri metnað í dansinn í Ástralíu en sé skapstór og með mikið keppnisskap. ,,Ég var erfiður í samskiptum á þessum árum og það þvældist bæði fyrir mér og samstarfi okkar Denise. Hún ákvað að hætta að dansa með mér í byrjun sumars 2016 þótt okkur gengi vel og ég skil það vel í dag. Ég var óalandi og óferjandi á þessum árum, ekkert komst annað að en að verða betri dansari og eftir því sem ég varð betri varð þvældist skapið meira fyrir mér. Við erum aftur á móti mjög góðir vinir í dag.”

Haldið til Bretlands

Þorkell var nú án dansfélaga og auglýsti eftir dömu í Facebook samfélagi dansheimsins. Hann fékk fjölda skilaboða, meðal annars frá stúlku að nafni India Bullock. ,,Það sem meðal annars heillaði mig var að foreldrar hennar áttu stóran danskóla og ég gat fengið að búa hjá þeim og kenna þar. Bretland var staðurinn fyrir mér enda bjuggu þar flestir mínir kennarar.”

Warren og Jane Bullock ásamt stjörnum raunveruleikaþáttann Baby Ballroom.

Margir vita að borgin Blackpool í Bretlandi er mekka dansins. Þorkell útskýrir að á fyrstu áratugum síðustu aldar hafi borgin verið vinsæll ferðamannastaður Breta og hafi því verið byggðar danshallir enda mikil dansmenningin í Bretlandi. ,,Þegar fólk gat farið að fljúga til staða á borð við Kanarí lá leiðin niður á við en Blackpool hélt áfram að vera höfuðstaður dansins. Ég man eftir að hafa farið svo ellefu, tólf ára inn í i þennan glæsilega sal þar sem allir voru uppástrílaðir og fínir og koma svo út og sjá liðið sem kemur til Blackpool til að djamma. Það er bresk lágmenning eins og hún gerist best!” segir Þorkell hlæjandi. ,,En það er verið að taka borgina í gegn og hornsteinn samkvæmisdansins er og verður Blackpool.”

Við upptökur þáttanna.

Prufurnar með Indiu gengu vel og Þorkell ákvað að gefa Bretlandsdvölinni hjá Bullock fjölskyldunni séns. ,,Ég hafði áhyggjur af því að ég væri 22 ára en hún bara 16 ára og því ekki viss um hvort við gætum unnið saman, sem síðar kom í ljós að var rétt.” Í tvö og hálft ár bjuggu Inda saman á heimili foreldra hennar. ,,Við borðuðum, þjálfuðum, kenndum og ferðuðust saman næstum hverja einustu sekúndu sólarhringsins, sem er raunar ekki óeðlilegt fyrir danspör.”

Vildi ekki vera með í þáttunum

Baby Ballroom þættirnir voru framleiddir meðan á dvölinni hjá Bullock fjölskyldunni í Zig Zag dansskólanum stóð.

,,Ég vildi ekki taka þátt í þessum þáttum. Allir þættir sem ég hafði séð höfðu einblítt á meiköppið og kjólana og allt það sem er slæmt við samkvæmisdansinn var magnað upp. En það var lofað að það myndi ekki verða gert og ég viðurkenni að þáttagerðarfólkið sýndi mun jákvæðari hliðar dansins en margir aðrir þættir. Og krakkarnir úr skólanum sem komu fram í þáttunum voru svo ótrúlega frábær.

Þorkell og India

Eftir á að hyggja hefði ég getað verið jákvæðari en það var eins og draga úr mér tönn að fá mig til að vera með í þáttunum. Ég var aðeins meira líbó gagnvart þessu í seríu tvö en þá var danssamband okkur Indiu á lokametrunum. Svo er ég með þennan þurra og kaldhæðna íslenska húmor og fólk hélt að ég væri miklu pirraðri en ég raunverulega var. Í dag geri ég mér aftur á móti grein fyrir að þættirnir voru himnasending og ég væri ekki þar sem ég er í dag ef ekki væri fyrir þá.”

Gerði of miklar kröfur

Aðspurður af hverju danssamband hans og Indiu hafi slitnað er Þorkell afar einlægur og segir um að kenna áráttu hans fyrir gæðum dansins á þessum tíma, ekkert annað hafi komist að. ,,Hún leit líka upp til mín því ég var eldri og betri dansari en þá hafði ég ekki þroska til að skilja það. Og í stað þess að sýna því skilning að hún væri bara 16 ára lét ég samstarfið pirra mig, kom fram við hana eins og nemanda og gerði of miklar kröfur til hennar. Síðasta hálfa árið var ég orðinn þungur í skapinu en var á kafi í kennslu sem hélt Bretlandsdvölinni á floti enda elska ég að kenna. India ákvað að hætta samstarfinu en í dag erum við bæði búin að eldast og þroskast og erum afar góðir vinir.”

Þorkell var afar náin krökkunum, ekki síst Jack og Emily sem spila stóru rullu í þáttunum.

,,Það er alltaf hægt að finna félaga til að dansa með en erfiðara að finna félaga sem er virkilega gott að vinna með. Og ef parið vinnur ekki saman af einhug fer því ekki mikið fram. Auðvitað eru til frávik, ég veit um pör sem dansa vel þrátt fyrir að hata hvort annað, en það er miklu erfiðara.”

Ömurlegur tími í Moskvu

Þorkell stóð nú uppi án dansfélaga og prufur skiluðu engu. Þá fékk hann skilaboð frá rússneskri stúlku og forvitni hans var vakinn. ,,Það var ekki landið eða menningin sem dró mig heldur langaði mig að kynnast þessum aga sem gerir Rússland svo sterkt í dansi. Hún var líka hávaxinn sem hentaði mér vel og foreldar hennar áttu slatta af peningum svo ég gat flutt inn í íbúð í þeirra eigu í Moskvu. Þetta virtist vera fínt tækifæri og ég greip það en sá fljótlega að það myndi ekki endast.”

Þorkell segist hafa talið Moskvu vera mun alþjóðlegri borg en í raun hafi fæstir talað ensku og hann því algjörlega mállaus. ,,Ég hef margoft komið til Úkraínu, elska landið og á marga vini þar. Þar leggur fólk sig fram við að hjálpa þér í en upplifunin í Moskvu var allt önnur og ömurlegri.” Talið berst að Úkraínu en þótt að margir vina Þorkels hafi náð að flýja til Póllands eru enn margir fastir inni í landinu. ,,Ég hringdi í vinkonu mína þegar stríðið hófst. Hún var grátandi og ég heyrði í sprengjuregninu í gegnum símann. Hvað segir maður frá Íslandi? Farðu varlega? Það er einfaldlega ekkert hægt að segja. Það er mjög mikið af dönsurum í Úkraínu og líka í Hvíta-Rússlandi sem eru örvæntingarfullir að komast úr landi því þeir styðja ekki stríðið og eru því útskúfaðir.”

India og Þorkell við upptökur.

Pútín hinum megin við götuna

Þorkell fékk afar strangan kennara í Rússlandi sem byrjaði á að segja honum að hann kynni ekki að dansa. ,,Ég lærði rosalega mikið. Fyrstu tvo mánuðina lét hann mig standa fyrir framan spegil og æfa grunnspor sem ég hélt reyndar að ég væri nokkuð góður í. Ég hafði ógeðslega gott af því, ég leit of stórt á mig,  fannst ég betri en ég var og þurfti því á þessu að halda. Þarna fór ég virkilega að vinna í sjálfum mér en ég kom heim til Íslands brotinn eftir Rússlandsdvölina.

Með krökkunum í Zig Zag

Ein af fyrstu keppnum þeirra var í Kreml og segir Þorkel það hafa verið furðulega upplifun. ,,Pabbi hennar benti út um gluggann og sagði að skrifstofa Pútín væri hinum megin við götuna sem var mjög súrt.”

Nokkrum vikum fyrir stóra keppni fékk dama Þorkels lungnabólgu og gat ekkert æft. ,,Ég hef aldrei verið eins nálægt því að verða geðveikur. Ég var búinn að vera rosalega mikið einn með sjálfum mér og fyrstu 4-5 dagana fór ég einn í stúdíóið en nennti því svo ekki og var bara dögum saman einn í íbúðinni. Ég missti allt tímaskyn, sofnaði og vaknaði um miðjar nætur. Ég man eftir að hafa verið að elda mér eitthvað og sá sjálfan mig út undan mér tala við sjálfan mig. Ég er félagsvera og þarna áttaði ég mig á að eitthvað þurfi að breytast.”

Tveimur vikum fyrir stóru keppnina í Blackpool tognaði Þorkell á ökkla. Eftir sex mánuði af rótleysi og vanlíðan vissi hann að honum var ekki ætlað að vera í Rússlandi og notaði skort á atvinnu sem honum hafði verið lofað sem afsökun til að fara heim til Íslands. Þorkell lenti á Íslandi sumarið 2019 eftir það sem honum fannst hafa verið þriggja ára dvöl.

Netflix þykir voða fínt

,,Þetta var svæsin tognun svo ég datt í vanlíðan, gat ekki dansað og vissi ekki einu sinni hvort ég vildi það. Ég hélt að dansferli mínum væri lokið, fór að borða mikið og þyngdist bæði andlega og líkamlega. Ég fór að vinna á skrifstofu í nokkra mánuði, var kominn í þægindaramma, og farinn að íhuga að finna mér kærustu og kaupa íbúð. En þegar að ég fékk skilaboð frá vini mínum að það væri kona að leita að aðila til að hjálpa sér við að opna dansskóla í Los Angeles greip ég tækifærið. En Ísland er yndislegt, það er og verður alltaf baklandið mitt og ég get alltaf snúið aftur.

Þættirnir fengu gríðarlega góðar viðtökur.

Upphaflega var hugmyndin að Þorkell færi út í febrúar 2020 en Covid skall á og læstist hann inni í tvö ár. Hann dansaði lítið en kenndi þó með hléum hjá Dans og jóga. ,,Þessi tvö ár á Íslandi voru ótrúlega þroskandi því ég hafði verið í þessum heimi sleitulaust frá fimm ára aldri og upp í tuttugu og fimm ára. Eins klisjulega og það hljómar þá lærði ég mikið um sjálfan mig. Ég fór í heimspeki í háskólanum, sem breytti allri minni lífssýn, og fór að vinna á sambýli fyrir börn með hegðunarvandamál. Það gerði mér rosalega gott að fara úr glamúrnum og í venjulega vinnu með börnum með erfiðleika. Ég vann þar í eitt ár og ef ég á að vera hreinskilin þá var erfitt að fara þaðan. Ef ég fæ nóg af samkvæmisdönsum sé ég mig alveg fara í slík störf, læra þroskaþjálfann eða annað slíkt.”

Dansbræðurnir Höskuldur og Þorkell.

Þorkell segir að sé litið til baka hafi verið ástæða fyrir öllu. ,,Danssamband mitt við Indiu var kannski mistök en ég hefði ég sennilega ekki fengið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum nema vegna þess að ég hafði verið á Netflix sem þykir voða fínt. Og ef ég hefði ekki farið til Rússlands hefði ég ekki kynnst Fedor vini mínum sem kynnti mig fyrir Olgu sem ég vinn fyrir núna. Slæm eða góð, þetta er allt reynsla og allt undir mér komið hvort ég nýti hana.”

Huggulegar konur í LA

Þorkell segir Los Angeles vera geggjaða og sjái hann fram á að vera þar áfram ef allt gengur eftir en skólinn opnar eftir eina til tvær vikur með pompi og pragt.

,,Ég er spenntur fyrir að fara að keppa aftur,og er núna í leit að dansfélaga. Ég var lengi rótlaus og vafrandi milli dansfélaga en í dag er ég að leita að manneskju sem ég get talað við, sem ég næ sambandi við og og hefur sömu gildi sem dansari. Það er langbest að dansa við sömu manneskjuna í langan tíma, þið lærið inn á hvort annað en vandamálið við dansheiminn er að það eru engir samningar og partnerinn getur yfirgefið þig á morgun.

Þorkell Jónsson.

Talið berst að samböndum og segist Þorkell aldrei hafa verið í rómantísku sambandi við dansfélaga og ekki einu sinni deitað stelpur í dansumhverfinu. En nándin milli dansfélaga er mikil svo og tíminn sem danspör eyða saman. ,,Ég veit um pör sem æxlast til að fara í rómantískt samband því það er einfaldlega þægilegt. Ég veit líka um fólk sem hætti í dansi því makanum fannst nándin í dansinum óþægileg. Ég deitaði á Íslandi en var með varann á mér því ég vildi ekki binda mig í samband vitandi af því að ég væri að fara til Bandaríkjanna. En ég hef aldrei haft þessa þörf fyrir að vera í sambandi. Ég er mikil félagsvera og hef spurt sjálfan mig hvort ég sé með einhverja fælni við skuldbindingu en hef þá afsökun ferðast svo mikið að það er erfitt að vera í föstu sambandi. Ég er á góðum stað og kannski verð ég kominn með kærustu eftir viku eða mánuði enda fullt af huggulegum konum hér í Los Angeles. Ég hef aftur á móti enga sérstaka þörf fyrir það.”

Dansinn hefur allt

Þorkell segir dansinn hafa allt og hvetur bæði börn og fullorðna að prófa. ,,Dansinn hefur allt. Þjálfun í takti, úthaldi og þoli og frábæran félagsskap. Og það er ekki til betra áhugamál fyrir hjón að vera í danssal með hópi fólks í stað þess að standa til dæmis úti í rokrassi í golfi. Og ég hlusta ekki á afsakanir um að fólk kunni ekki að dansa, hvers vegna ætti fólk að fara í kennslu ef það kann nú þegar að dansa?

Þorkell kom fram með Sinfónínuhljómsveit Íslands.

Það er enginn að spá í þér og algjört rugl að vera að hugsa um hvað öðrum finnst. Samfélagsmiðar hafa ýtt undir þær hugmyndir að allir eigi að vera fullkomnir.” Sjálfur segist Þorkell vera samfélagsmiðlafatlaður og næstum ósýnilegur á netinu. ,,Ég hefði kannski átt að gera eins og India en Instagrammið hennar sprakk út eftir þættina. En mér hefur aldrei fundist þetta spennandi dæmi.”

Rómantíkin í geðveikinni

“Samkvæmisdansaheimurinn er snargeðveikur og þú þarft að vera nett klikkaður til að vera í þessu eftir táningsaldurinn. En hann er svo fallegur á sinn klikkaða hátt. Það er ekki umhverfi dansheimsins sem ég elska heldur dansinn sjálfur. Að svífa um með aðra manneskju í örmunum um gólfið. Samspil sjálfs síns, félagans og tónlistarinnar sem er bæði svo einfalt og gríðarlega flókið í senn. Það er svo mikil rómantík í kringum geðveikina sem er á svona háu keppnisleveli.”

Áður en varir eru liðnir næstum þrír klukkutímar af myndsímtali við Þorkel í Los Angeles og hann þarf að rjúka enda að mörgu að huga fyrir opnun.

,,Og veistu? Ef að fólk er að íhuga að horfa á Baby Ballroom eftir að hafa lesið þetta get ég í sannleika sagt að þetta eru bara ágætis þættir,” segir Þorkell Jónsson dansari og raunveruleikastjarna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Oliver þoldi ekki brjóst sín og fór í brjóstnám – „Ef þetta er það sem lætur þér líða betur, þá gerirðu þetta“

Oliver þoldi ekki brjóst sín og fór í brjóstnám – „Ef þetta er það sem lætur þér líða betur, þá gerirðu þetta“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tom Brady viðurkennir að hafa gert mistök í föðurhlutverkinu

Tom Brady viðurkennir að hafa gert mistök í föðurhlutverkinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mummi fór hjá sér þegar svæsnustu prakkarastrikin voru borin undir hann – „Fokk þetta verður eitthvað“

Mummi fór hjá sér þegar svæsnustu prakkarastrikin voru borin undir hann – „Fokk þetta verður eitthvað“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Víðir um veikindin – „Ég varð þunglyndur og átti bara mjög erfitt“

Víðir um veikindin – „Ég varð þunglyndur og átti bara mjög erfitt“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona setur þú upp útiseríurnar að hætti Gulla byggis

Svona setur þú upp útiseríurnar að hætti Gulla byggis
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – Klámstjörnuvandamál og feðradagurinn

Vikan á Instagram – Klámstjörnuvandamál og feðradagurinn