fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fókus

Níu daga drottningin – Var viljalaust verkfæri blóðugrar valdabaráttu

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Miðvikudaginn 13. apríl 2022 22:01

Aftaka Jane Grey í túlkun franska málarans Paul Delaroche.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 12. febrúar 1554 kraup hin 16 ára gamla lafði Jane Grey við höggstokkinn og lagði sál sína í hendur drottins. Andartaki síðar var hún látin, hálshöggvin fyrir föðurlandssvik. Að baki lá harmsaga ungrar stúlku sem varð peð í valdabrölti Bretlands og galt fyrir með lífi sínu. 

Björt framtíð

Lafði Jane var af háaðli, langafi hennar var Hinrik VII og móðir hennar frænka Eðvarðs VI, hins barnunga konungs Breta. Foreldrar hennar áttu enga syni og veittu því elstu dóttur sinni bestu fáanlegu menntun.

Listamenn hafa reynt að ímynda sér útlit Jane Grey.

Allt var í lagt til að undirbúa hana undir hjónaband og lífsstíl aðalsfólks þessa tíma. Jane var vel gefin stúlka, hún var snemma afar vel lesin, talaði átta tungumál reiprennandi, og þótti opin og skemmtileg. Þegar hún var fjórtán ára skipulagði faðir hennar hjónaband til þess að styrkja stöðu fjölskyldunnar og var hún gefin öðrum unglingi, hertogasyninum Guilford Dudley. Jane og Guilford voru bæði hæstánægð með ráðahaginn og í augnablik virtist framtíð ungu hjónanna björt. En fljótlega voru ský á himni.

Leitin að eftirmanni

Eðvarð VI konungur var einkasonur eins frægasta konungs Breta, Hinriks VII. Hann var einarður í mótmælendatrú sinni, konungur í landi sem logaði í trúarbragðadeilum. Hann átti tvær eldri systur, Maríu, þekkt sem Blóð-María, og Elísabetu, sem síðar varð hin magnaða drottning Breta.

Árið 1553 vissi hinn 15 ára gamli konungur að hann átti ekki langt eftir og sennilegast má telja að hann hafi haft berkla. Eðvarð hinn ungi var barnlaus og gat ekki til þess hugsað að María systir sín, kaþólikki sem hann fyrirleit, tæki við völdum. Hóf hann örvæntingarfulla leit að mögulegum eftirmanni meðal mótmælenda og tilnefndi sinn nánasta ættingja þeirrar trúar sem eftirmann sinn. Þrátt fyrir yfirlýsta andúð á konum sem valdhöfum hafði Eðvarð aðeins einn valkost. Hina 15 ára gömlu Jane Grey. 

Grét óstjórnlega

Sagan segir að þegar að menn konungs hafi farið á fund Jane til að tilkynna henni um væntanlega upphefð hafi hún brotnað niður og grátið óstjórnlega. Ólíkt mörgum samtíðarkonum sínum hafði Jane engan áhuga á titli drottningar og átti sér þá einu ósk að fá að lifa í friði og spekt án pólitískra og trúarlegra átaka.

Bréfið sem fyrirskipar Jane sem drottningu er skrifað með barnalegri rithönd Eðvarðs konungs.

En um sumarið lést Eðvarð og táningurinn Jane Grey var allt í einu orðin drottning án þess að hafa nokkuð um það að segja. En þótt að Jane hefði engan áhuga á krúnunni var ekki sama sagt um Guilford mann hennar sem krafðist þess að fá konungsnafnbót ella myndi hann ekki sofa hjá henni og neita þar með krúnunni um erfingja. Jane gat aftur á móti staðið í lappirnar þótt ung væri og neitaði kröfum eiginmannsins. Hún tilkynnti að hann yrði að láta sér hertogatitil að góðu verða og fóru hann og fjölskylda hans í ævintýralega fýlu og höfðu hátt um ósanngirni Jane. 

Hlaupist undan merkjum

Fjórum dögum eftir lát kóngs var Jane útnefnd drottning og hélt ásamt föruneyti til London. En Eðvarð hafði vanmetið vinsældir Maríu sem almenningur taldi réttborna drottningu og var vesalings Jane púuð niður.

Lady Jane bregst við fréttunum um titilinn í málverki eftir Hendrik Jacobus Scholten.

Mótmælin jukust dag frá degi og hlupust þeir sömu og höfðu skipulagt krýningu Jane undan merkjum. Jafnvel foreldrar hennar afneituðu henni og lýstu yfir stuðningi við Maríu. Jane stóð eftir ein ásamt manni sínum í stöðu sem hún hafði aldrei sóst eftir. Jane sat í höllinni í rúma viku og lét lítið fyrir sér fara á meðan að miðaldra karlmenn plottuðu um framtíð hennar og eiginmaðurinn ungi óð um ganga hallarinn og krafðist þess að vera titlaður kóngur.

Þann 19. júlí, eftir aðeins níu daga sem drottning, steyptu fylgismenn Maríu Jane af stóli. 

Samúð Maríu

Jane og Guildord voru fangelsuð í Turninum og gera má ráð fyrir að unglingarnir hafi verið skelfingu lostnir um framtíð sína. 

María hafði tekið við völdum og var illa við að hefja valdatíð sína á ofbeldi, ekki síst í garð ungrar frænku sinnar. María var 37 ára gömul lífsreynd kona og hafði samúð með barnungri stúlkunni sem hún vissi mæta vel að krúnunni hafði verið þvingað upp á. En María þurfti samt að sýna fram á hún léti ekki vaða yfir sig og samþykkti að réttað yrði yfir ungu hjónunum. Bæði játuðu þau sig sek um landráð í von um að bjarga lífi sínu. Þau voru aftur á móti bæði dæmd til dauða í nóvember 1537 og hljóðaði dómurinn upp á Jane skyldi afhöfðuð og lík hennar brennt.

Lengi vel var talið að um væri að ræða málverk af Jane Grey. Sennilegra er þó að um sé að ræða Catherine Parr, síðustu eiginkonu Hinriks VIII

Sennilega hefur María vonast til að Jane myndi gleymast því hún fór ekki fram á framkvæmd aftökunnar og liðu því fleiri vikur sem Jane og Guilford sátu fangelsuð í turninum, alls óviss um framtíð sína. María fyrirskipaði meira að segja að gæslan yrði minnkuð og fékk Jane að ganga óhindruð um Turninn og jafnvel fara út.  Lafði Jane leyfði sér að vona að hún fengi frelsið innan skammt. En enn og aftur kom valdabrölt annara niður á hinni ungu Jane.

Ný uppreisn

Í ársbyrjun 1554 tilkynnti María drottning að hún hygðist ganga í hjónaband með Filip Spánarkonungi og var mörgum brugðið sem töldu að Bretland yrði lítið annað en sýsla í veldi Spánar með ráðahagnum. María hafði ekki gert ráð fyrir svo mikilli andstöðu og fengu forystumenn mótmælenda byr undir báða vængi og efndu til uppreisnar. Meðal forsvarsmanna uppreisnarinnar var enginn annar en Henry Grey, faðir Jane, sem enn og aftur hafði snúið við hollustu sinni. Á meðan sat Jane í Turninum og hafði enga hugmynd um hvað var að gerast utan veggja hans, hvað þá að í gangi væri uppreisn undir hennar merkjum. 

Líður að aftöku

Uppreisnin var skammvinn og reyndar bæld niður næstum áður en hún hófst. María drottning sá fram á að þurfa að losa sig við alla pólitíska andstæðinga, ekki síst stúlkuna í Turninum, sem gat orðið uppreisnarmönnum leiðarljós. Þann 7. febrúar sendi drottning skilaboð til Jane frænku sinnar um að undirbúningur undir aftöku hennar væri hafinn. Jane tók fréttunum af jafnaðargeði og hóf að skrifa kveðjubréf til fjölskyldu og vina.

Jafnvel þótt María sæi sér ekki annað fært en að láta taka Jane af lífi hafði hún áhyggjur af velferð hennar handan þessa heims og sendi til hennar prest til að snúa henni til kaþólskrar trúar. Eftir þrjá daga gafst klerkurinn upp og kvaðst ómögulegt að snúa Jane til réttrar trúar. Böðullinn var snarlega kallaður til. 

Saklaust fórnarlamb

Þann 12. febrúar 1554 horfði Jane út um gluggann á eiginmann sinn afhöfðaðan og beið eftir að verða sjálf sótt skömmu síðar. Þegar upp á pallinn var komið bað Jane áhorfendur um að biðja fyrir sér, fór sjálf með stutta bæn og fór rólega á hné sér. Eitt högg dugði til að enda líf níu daga drottningarinnar. Hún var sextán ára gömul.

Lafði Jane Grey var gleymd í margar aldir. Hún gerði akkúrat ekki neitt á drottningartíð sinn og ekki er til eitt einasta málverk sem talið er afgerandi að sé af henni. Það var ekki fyrr en löngu síðar að harmsaga ungu drottningarinnar var rifjuð upp, stúlku sem sökum ætternis síns var saklaust og viljalaust fórnarlamb í blóðugri baráttu um völd. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Amorim er fluttur út
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þráði stærri brjóst og lagði fermingarpeningana til hliðar fyrir stækkun – Lét taka púðana 9 árum seinna og útskýrir af hverju

Þráði stærri brjóst og lagði fermingarpeningana til hliðar fyrir stækkun – Lét taka púðana 9 árum seinna og útskýrir af hverju
Fókus
Fyrir 5 dögum

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni