fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Hún var sæt og hún var ein – Var lokuð inni í myrkrinu í níu ár

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 10. apríl 2022 19:57

Mynd/Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nobuyuki Sato um það leiti sem hann rændi Fusako.

Fusako Sano var 9 ára telpa sem bjó ásamt foreldrum sínum í bænum Sanjō í Japan. Fusako elskaði hafnarbolta og var ein á gangi heim af leik af þann 13. nóvember 1990 þegar bíll keyrði skyndilega upp að henni. Mistök og klúðursleg vinnubrögð lögreglu og annarra viðbragðsaðila urðu til þess að enginn átti eftir að líta Fusako augum næstu níu ár og tvo mánuði. Nema Nobuyuki Sato.

Fordekraður

Nobuyuki Sato var 27 ára þegar hann nam Fusako á brott. Hann var einkabarn foreldra sinna, faðir hans átti fyrirtæki sem sá um akstur fyrir fyrirtæki og móðir hans starfaði hjá tryggingafyrirtæki. Faðir hans var kominn undir sjötugt þegar hann fæddist, hann var yfir þrjátíu árum eldri en kona hans, og var Nobuyuki oft strítt vegna aldraðs föður síns. Þeir feðgar voru ekki nánir en móðir Nobuyuki umvafði hann í ást og athygli og lét allt eftir syni sínum sem þótti fordekraður. Fjölskyldan var efnuð og hafði Nobuyuki heila hæð á heimilinu út af fyrir sig.

Enginn hlustaði

Frá bænum Sanjō í Japan. Þar búa um 100 þúsund manns.

En það voru vandamál til staðar nánast frá fæðingu hans. Faðir Nobuyuki glímdi við geðsjúkdóma og vitað er til að móðir hans hafi einnig ítrekað leitað sér hjálpar vegna geðrænna vandamála. Nobuyuki einangraðist sífellt meira og hætti að lokum að ganga í skóla og fékk vinnu í varahlutaverksmiðju. Hann þjáðist aftur á móti af áráttu- og þráhyggjuröskun, var með ofsahræðslu við sýkla og þvoði sér í sífellu. Dag einn snerti hann köngulóarvef og missti algjörlega stjórn á sér. Vinnufélagar hans hlógu en Nobuyuki fór heim og mætti aldrei aftur til vinnu.

Nobuyuki tók stjórnina á heimilinu, sparkaði öldruðum föður sínum á dyr og hélt móður sinni í helgreipum skelfingar. Þegar faðir hans dó á vistheimili árið 1989 jókst ofbeldishegðun Nobuyuki til muna. Hann átti það til að brjóta glugga og hurðir í húsinu og heyrðu nágrannar hann oft á tíðum öskra á móður sína. Nobuyuki barði móður sína og skaut með rafbyssu og þurfti hún margoft að fara á sjúkrahús til að láta gera að meiðslum sínum. Í hverri ferð sagði hún hjúkrunarfólki að sonur hennar misþyrmdi henni og grátbað um hjálp en enginn lyfti litla fingri né kallaði eftir aðstoð.

Var sæt og ein

Fusiko Sano var kát lítil telpa með áhuga á íþróttum.

Ári áður en Nobuyuki rændi Fusako hafði hann reynt að ræna annarri telpu, rétt fyrir utan barnaskóla. Vinkona hennar varð aftur á móti vitni af mannránstilrauninni og kennara sem sneri Nobuyuki niður og hringdi á lögreglu. Nobuyuki fékk aðeins eins árs dóm þar sem um fyrsta brot var að ræða. Hann hafði ekki gengið lengi laus þegar hann sá Fusako ganga heim og með sex tommu veiðihníf að vopni þvingaði hann hana ofan í skott bíls síns.  Aðspurður síðar af hverju hann hefði valið hana til að ræna sagði Nobuyuki að hún hefði fullnægt báðum hans skilyrðum; Verið sæt og verið ein. 

Fusiko dvaldi í húsinu í 9 ár og fékk aldrei að fara út meðan á dvölinni stóð.

Nobuyuki fór með Fusioko upp í herbergi sitt og batt hana þar fasta auk þess að líma fyrir munn hennar. Hann hafði engar áhyggjur af móður sinni enda fyrir löngu búinn að lemja úr henni alla löngun til að stíga fæti upp á efri hæðina. Nobuyuki sagði Fusiko að herbergið væri hennar nýja heimili og myndi hún aldrei fá að stíga út fæti. Ef hún reyndi að flýja myndi hann drepa hana og sjá til þess að líkið fyndist aldrei.

Norður-Kórea?

Þegar Fusako skilaði sér ekki heim hafði móðir hennar samband við lögreglu. Yfir hundrað manns hófu leit og tvöfaldaðist sá hópur daginn eftir. Þriðja daginn voru kallaður út þyrlur og lögregla í nálægum bæjum látin vita. En Fusako var hvergi að finna. Yfirvöld fóru jafnvel að gruna að henni hefði verið rænt að útsendurum Norðu-Kóreu en vitað var um nokkur slík tilfelli í Japan. Hægt var á leitinni eftir því sem vikurnar liðu og um jólin var leitinni að Fusako hætt og foreldum hennar tilkynnt að hún væri næstum örugglega dáin. Það eru óskiljanleg mistök af hálfu lögreglu að ekki var haft samband við manninn sem hafði reynt að ræna jafnöldru Fusako ári fyrr. Nobuyuki Sato.

Einu sinni í bað

Fusiko Sano rétt fyrir ránið.

Fusako dvaldi í herbergi Nobuyuki næstu níu árin. Fyrstu þrjá mánuðina voru hendur hennar og fætur bundnar. Ef hún reyndi að fara fram úr rúminu sínu eða svaraði ekki Nobuyuki var hún barin. Nobuyuki æfði bardagalistir og æfði höggin á Fusako sem öskraði af sársauka án þess að nokkur kæmi henni til hjálpar. Fyrir utan nærföt sem hann stal úr búðum bæjarins voru einu fötin sem hún fékk notuð föt af honum. Sýklaóttinn gerði Nobuyuki ómögulegt að nota salerni, þess í stað voru notaður plastpokar sem raðað var upp eftir ganginum fyrir utan herbergi hans. Á þessum níu árum fékk hún aðeins einu sinni að fara í bað því Nobuyuki hræddist fátt meira en baðherbergið. En einu sinni kom það fyrir að hún missti þvag og saur og batt þá Nobuyuki fyrir augu hennar, klæddi hana úr og baðaði.

Næringarskortur og vöðvarýrnun

Mynd tekin af Fusiko fljótlega að henn var sleppt af sjúkrahúsinu.

Hann klippti af henni hárið og það eina sem hún hafði sér til afþreyingar var gamalt útvarp. Það var aðeins síðasta árið sem hún fékk að horfa á sjónvarp. Stundum kenndi hann henni eitthvað og notaði til þess sínar gömlu skólabækur. Nobuyuki notaði oft rafbyssuna á Fusiko sem tók upp á því að skjóta sig sjálfa til að venjast sársaukanum. Þar sem herbergið var yfirleitt rökkvað var Fusiko oft með gulu. Hún fékk aðeins að borða einu sinni á dag, ýmist bollasúpu eða samloku, og hrundi niður í þyngd en eftir sex ár bætti Nobuyuki bolla hrísgrjónum við daglega skammtinn. Það leið reglulega yfir Fusiko vegna næringarskorts og hún átti erfitt með að nota hendur og fætur vegna vöðvarýrnunar.

Það er áætlað að hún hafi verið barin um 300 sinnum meðan á vistinni stóð.

Loksins hlustað

Nobuyuki slakaði aðeins á eftirlitinu með árunum og skildi hana stundum eftir eina með ólæstar dyr. En Fusiko var orðin það hjálparvana að hún reyndi aldrei að flýja. Síðar sagist hún í fyrstu hafa verið of hrædd en á seinni árum hafi hana skort orku í flótta. Enginn veit hvernig dvölin í herberginu hefði endað ef starfsfólk sjúkrahússins hefðu ekki loksins hlustað á móðir Nobuyuki þegar hún kom enn og aftur, marin og blá og baðst hjálpar.  Í janúar árið 2000 héldu sjö starfsmenn sjúkrahússins á heimili þeirra mæðgina. Eftir að hafa skimað um á neðri hæðinni héldu þeir upp og opnuðu dyrnar að herbergi Nobuyuki sem öskraði á þá á að koma sér út. Hann henti sér á spítalastarfsmennina sem tókst að yfirbuga hann og sprauta með róandi lyfjum.

Þekktu hana ekki

Fangelsismynd af Nobuyuki Sato

Því næst sáu þeir einhverja hreyfingu í rökkrinu og þegar þeir tóku upp teppi lá ung stúlka í hnipri undir. Hún var spurð að því hvar hún ætti heima og sagðist hún búa í herberginu og ekki vilja fara þaðan. Það var farið með hana út, henni brá augljóslega við það, og á leiðinni til sjúkrahússins sagði stúlkan þá loksins til nafns. Hún kvaðst vera Fusako Sano, litla stúlkan sem hafði horfið sporlaust níu árum fyrr. Lögregla var strax kölluð til og staðfestu fingraför að um Fusako Sano væri að ræða. Foreldrar hennar höfðu haldið í vonina öll þessi ár og þustu af stað að hitta hana. Þau þekktu hana aftur á móti ekki. Fusako var náhvít og tekin eftir níu ára innivist, hún sýndi augljós merki vannæringar og átti erfitt með hreyfingar sökum beinkramar. 

Vinur og fjölskyldumeðlimur

Japönsk alþýðar var æf út í lögreglu og heilbrigðisyfirvöld.

Læknisskoðun leiddi í ljós að hún hafði ekki þurft að þola kynferðismisnotkun og staðfesti Fusako það í samtölum við lögreglu. Aðspurður í yfirheyrslum sagðist Nobuyuki hafa litið á Fusako sem vin og fjölskyldumeðlim og því aldrei komið til hugar að leita á hana kynferðislega. Móðir hans þverneitaði að hafa vitað af tilvist Fusako á efri hæðinni en flestum fannst það ótrúverðugt þar sem hún mun bæði hafa fært henni máltíðir og keypt fyrir hana dömubindi. Móðirin var samt sem áður ekki kærð en Nobuyuki var talin andlega hæfur til réttarhalda þrátt fyrir mótmæli lögmanna hans. Hann var dæmdur til 14 ára fangelsisvistar og staðfesti hæstiréttur þann dóm. Nobuyuki var sleppt úr fangelsi árið 2015, 52 ára gömlum. Móðir hans hafði látist meðan á fangelsisvistinni stóð.

Nobuyuki var metinn öryrki og komið fyrir í húsnæði á vegum hins opinbera þar sem hann fannst látinn af náttúrulegum orsökum tveimur árum síðar. 

Mikil reiði

Mikil reiði braust út á meðal japönsku þjóðarinnar eftir björgun Fusako, ekki síst þegar að í ljós kom að lögreglustjórinn hefði neitað að yfirgefa spilakvöld daginn sem henni var bjargað. Hann sagði af sér í kjölfarið. 

Nýleg en ódagsett mynd af Fusiko.

Almenningur var einnig sleginn og reiður yfir vangetu lögreglunnar að finna stúlkuna, jafnvel þótt að fjöldi vísbendinga bentu til Nobuyuki. Fólk spurði sig einnig að því hvernig í ósköpunum gat staðið á því að enginn hefði hlustað á móður Nobuyuki, sem ítrekað bað um hjálp á sjúkrahúsinu, brotin og sárkvalin.

Alltaf níu ára 

Fusako var lengi á sjúkrahúsi eftir björgunina. Hún þjáðist af áfallastreituröskun og fjölda líkamlegra og andlegra kvilla. Hún var með stöðugar martraðir og átti afar erfitt með mannleg samskipti. Læknar mátu þroska hennar á við níu ára barn. Þroski hennar hafði einfaldega stoppað daginn sem henni var rænt.  Fusako fór aftur á móti mun meira fram eftir að sjúkrahúsdvölinni lauk og hún flutti til foreldra sinna. Hún lærði á bíl og fékk áhuga á ljósmyndun. Fusako vinnur í dag með foreldrum sínum á hrísgrjónaökrum fjölskyldunnar. Hún forðast enn fólk en hefur gaman af að fara á knattspyrnuleiki. Hennar helsta áhugamál er ljósmyndunin. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar