Að kvöldi 7. mars árið 1943 kom maður inn á lögreglustöð og tilkynnti að hann hefði heyrt skothvell og í kjölfarið séð mann falla í götuna í Austurstræti, nánar tiltekið milli bókaverslunar Ísafoldar og Havana. ,,Þegar lögreglan kom á vettvang var búið að fjarlægja manninn og töldu þeir sem höfðu séð hann að hann hefði slasast mikið,” sagði í frétt Alþýðublaðsins þann 9. mars 1943.
Um var að ræða eitt sérkennilegasta slys sem orðið hefur hér á landi.
Maðurinn hét Ásmundur Elíasson sjómaður frá Norðfirði. Hann var kvæntur og faðir tveggja ungra barna. Ásmundur lést á Landakotsspítala morguninn eftir.
Þytur í lofti og hvellur
Ásmundur hafði verið á göngu um Austurstræti ásamt félaga sínum fyrr um kvöldið þegar þá umlukti hvítur púðurreykur. Í fréttinni segir að Ásmundur hafi hljóðað sáran og fallið en við fallið breyttust hljóðin í þunga stunu. ,,Þetta gerðist allt mjög skjótlega. Bifreið sem kom eftir götunni var stöðvuð og flutti hún manninn í sjúkrahús.”
Sjónarvottur sagðist hafa verið einn á gangi í Austurstræti um kl. 8. ,,Gekk ég eftir gangstéttinni sunnan megin við götuna. Þegar ég var kominn á móts við Austurstræti 6 sá ég brezka sjóliða sem gengu á undan mér. Bentu þeir upp í loftið framundan sér og sögðu ,,hvaða ljós er þetta?” Leit ég þá strax upp og sá mjög skært ljós sem bar yfir bifreiðastöð Steindórs. Í sama mund heyrði ég þyt i loftinu og heyrði um leið hvell af sprengingu rétt fyrir aftan mig. Ég leit jafnskjótt við og sá að maður var að falla á gangstéttina um það bil 6 metra frá mér.”
Sprengihylki frá hernum
Í fréttinni segir að sprengihylki frá breska hernum hafi orðið Ásmundi að bana. Krafturinn hafi verið slíkur að það brotnaði upp úr gangstéttarhellu og rúður brotnuðu í nærliggjandi húsi. Hernaðaryfirvöld hylkið til rannsóknar og reyndist það vera 25 cm langt og 3 tommur á þykkt.
Félagi Ásmundar hafði gengið samhliða honum og sagðist hann hafa heyrt snöggan þyt og um leið hafi gosið upp reykur allmikill svo hann sá ekki Ásmund í svip. Fylgdi reyknum hark allmikið og ólykt. Þegar reykurinn minnkaði sá hann að Ásmundur var fallinn og að hann gerði ekki tilraun til að standa upp og virtist mikið særður.
Lenti á barnaleikvelli
Í Alþýðublaðinu segir að annað sprengjuhylki muni hafa fallið um 30 mínútum síðar á barnaleikvöll vestur við Framnesveg. Sjónarvottar heyrðu hvin í loftinu og rótaðist upp mold og grjót sem kastaðist um nágrennið. Fannst það svo djúpt að ,,maður stóð á brjóst í holunni”. Ekki urðu nein slys á mönnun.
Herstjórnin á Íslandi gaf frá sér þær upplýsingar að minnsta kosti i fyrra tilfellinu hefði um verið að ræða hylki utan af ljóssprengju sem breskur togari skammt frá landi hefði skotið.
Í fréttinni segir ennfremur að breski sendifulltrúinn hafi gengið á fund utanríkisráðherra daginn eftir og tjá honum harm sinn út af dauðaslysinu í Austurstræti. ,,Vottaði hann samhyggð sína og brezka flotaforingjans hér.”
Ásmundur var 38 ára þegar hann lést. Hann lét eftir sig eiginkonu, Valborgu Ingimundardóttur og tvö ung börn.
Maður vissi alltaf af þessu
Erla Hrönn Ásmundsdóttir var yngra barn Ásmundar og Valborgar og aðeins tveggja ára gömul þegar faðir hennar lést. Bróðir hennar var sjö ára og er hann látinn í dag.
,,Ég var auðvitað svo ung þegar þetta gerðist en það var mikið talað um þetta heima og maður vissi alltaf af þessu,” sagði Erla í spjalli við DV. Aðspurð um hvort að breska stjórnin hefði haft samband við fjölskylduna eða greitt skaðabætur segir Erla að börnin og móðir þeirra hafi fengið einhvern styrk. ,,Mamma gat að minnsta kosti verið heima næstu tvö árin en var síðan í ótal vinnum eftir það. Þau voru nýlega búin að byggja á Akureyri, pabbi var á Lagarfossi sem var með heimahöfn á Akureyri en því var breytt í stríðinu. Pabbi ætlaði að fara einn túr áður en hann færi aftur norður og seldi húsið. En af því varð ekki. Mamma flutti aftur á móti með okkur norður á Ægisgötuna, í húsið sem þau byggðu, og bjó þar til níræðisaldurs. Hún var hörkukona, alltaf róleg og yfirveguð, ættuð austan af fjörðum eins og pabbi.”
Erla ólst upp á Ægisgötunni og segir alla í götunni hafa verið eins og fjölskyldu. ,,Við gátum hlaupið inn og út úr öllum húsum í götunni. Það var ótrúlegt fólk sem bjó þarna.”
Eldsvoðinn í New York
Fyrr um veturinn var Ásmundur var kyndari á Dettifossi þegar eldur kom upp í skipinu í New York fyrr um veturinn og fékk hann allmikil brunasár. ,,Hann óð í gegnum eldinn og lá á sjúkrahúsi í New York í langan tíma. Hann hlýtur að hafa verið feigur,” segir Erla.
Þann 18. febrúar þetta sama ár hafði orðið eitt mannskæðasta sjóslys Íslandssögunnar þegar vélskipið Þormóður frá Bíldudal fórst. Létust allir um borð, 31 maður. Efnt var til viðamikillar söfnunar fyrir þann fjölda barna sem stóð uppi föðurlaus og fengu systkinin smáræði úr þeirri söfnun. ,,Ég fór í Húsmæðraskólann í Reykjavík í einn vetur fyrir þann pening,” segir Erla.
Margt á huldu
Valborg og börnin fengu aldrei skýringar á hvað varð Ásmundi að bana né hvaðan skeytið kom en sjálf segist Erla hafa heyrt að um voðaskot hafi verið að ræða þegar hermenn voru að hreinsa byssur. Það stangast aftur á móti á við frásögn Alþýðublaðsins. ,,Mig hefur alltaf langað til að vita meira um hvað kom fyrir. Það gerðist ýmislegt sem er á huldu á þessum stríðsárum og það væri áhugavert að vita hvað er að finna í skjölum hersins frá þessum árum.”
Eins og áður segir var Ásmundur frá Norðfirði og segist Erla fyrst hafa frétt af því í vetur að þegar Norðfirðingar voru í Reykjavík hafi þeir lengi vel gert sér ferð í Austurstrætið. ,,Ummerkin í gangstéttinni voru sýnileg í langan tíma og þetta var þeirra virðingarvottur,” segir Erla Hrönn Ásmundsdóttir.