Í langri færslu á Instagram baðst Smith afsökunar. „Ofbeldi, í hvaða formi sem það er, er eitrað og eyðileggjandi. Hegðun mín á Óskarsverðlaunaafhendingunni í gær var óásættanleg og ófyrirgefanleg. Ég vil gjarnan biðja þig afsökunar, Chris. Ég fór yfir strikið og ég gerði mistök. Ég skammast mín og hegðun mín sýnir ekki þann mann sem ég vil gjarnan vera,“ skrifaði Smith.
Hann fór upp á svið og löðrungaði Rock eftir að hann hafði gert grín að hári Jada Pinkett Smith, eiginkonu Will Smith, eða öllu heldur hárleysi hennar. Hún þjáist af húðsjúkdómi sem veldur blettaskalla. Í brandara sínum vísaði Rock í kvikmyndina G.I. Jane frá 1997 en í henni er aðalkvenpersónan snoðuð.
„Grín á minn kostnað er hluti af starfinu en grín um sjúkdóm Jada var meira en ég þoldi og ég brást við af mikilli tilfinningasemi,“ skrifaði Smith á Instagram.
Hann biður einnig Óskarsakademíuna afsökunar, framleiðendur hátíðarinnar, áhorfendur og „alla þá sem horfðu víða um heim“. Skömmu eftir löðrunginn fór Smith aftur upp á svið og tók við verðlaunum sem besti karlinn í aðalhlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni King Richard.
Óskarsakademían tilkynnti í gær að hún fordæmi það sem Smith gerði og að rannsókn sé hafin á atvikinu. Ekki liggur því enn fyrir hvort þetta hafi afleiðingar fyrir Smith og hvort hann verði sviptur Óskarsverðlaununum.