Greint var frá því í janúar á þessu ári að Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri í embætti.
Talsverður stormur hafði geisað um sveitarstjórann áður en hann ákvað að draga sig í hlé frá pólitíkinni. Andstæðingar hans höfðu til að mynda gagnrýnt frammistöðu hans og urðu þær raddir háværari þegar hann fór í veikindaleyfi í fyrra. Þegar Kristján Þór sneri tilbaka var greint frá því að hann og eiginkona hans, fjölmiðlakonan Guðrún Dís Emilsdóttir, eða Gunna Dís eins og hún er oftast kölluð, væru skilin.
„Ég mun ekki sækjast eftir starfi sveitarstjóra og mun ekki bjóða mig fyrir fyrir sveitarstjórnarkosningarnar hér í Norðurþingi,“ segir Kristján Þór í samtali við Fréttablaðið í janúar. Þá kom fram í umfjöllun blaðsins að Kristján Þór væri að reikna með að flytja frá Húsavík eftir kosningarnar.
Ljóst er að nú eru plönin um að flytja frá Húsavík að verða að veruleika en Kristján og Gunna Dís hafa sett íbúðina á Húsavík á sölu. Kristján Þór er einn skráður eigandi íbúðarinnar en hann gekk frá kaupum á henni í desember árið 2016.
Um er að ræða fjögurra herbergja neðri hæð í tvílbýlishúsi með bílskúr en eignin er alls 150,6 fermetrar, ásett verð er 44.900.000 krónur.
Íbúðin var tekin í gegn fyrir um 5 árum síðan en þá var hiti lagður í gólf, nýtt rafmagn dregið í íbúðina og skólp- og vatnslagnir lagaðar. Þá voru settar nýjar innréttingar og nýjir skápar í öll rými, hurðagöt stækkuð og nýjar innihurðir settar í stað þeirra gömlu. Einnig er búið að skipta um hurðina á sérinnganginum og hurðina sem gengur út á veröndina sem er nýleg og með skjólvegg.