fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
Fókus

Blóðdropinn verður afhentur í dag

Fókus
Miðvikudaginn 23. mars 2022 11:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blóðdropinn 2022, verðlaun Hins íslenska glæpafélags fyrir bestu íslensku glæpasögu ársins 2021 verður afhentur í Grófarsafni Borgarbókasafnsins við Tryggvagötu í dag, miðvikudaginn 23. mars kl. 17.00. Léttar veitingar og allir unnendur íslenskra glæpasagna hjartanlega velkomnir og hvattir til koma og samfagna aðalkrimmanum í ár, sýna sig og sjá aðra.

Hér að neðan er listi yfir þær fimm glæpasögur sem tilnefndar eru til verðlaunanna, í stafrófsröð titla, ásamt stuttri umsögn dómnefndar Glæpafélagsins og kápukynningu viðkomandi krimma.

 

Farangur, eftir Ragnheiði Gestsdóttur.
Umsögn dómnefndar HÍG:

Farangur eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Farangur er önnur glæpasaga Ragnheiðar en hún hefur skrifað mikið fyrir börn og unglinga. Aðalsögupersónan,  Ylfa, leggur á flótta frá ofbeldisfullum sambýlismanni sínum en lendir í vægast sagt í óvæntum atburðum á lestarstöðinni í upphafi flóttans. Atburðarásin er hröð og andrúmsloftið þrungið spennu. Við fylgjumst með Ylfu reyna að leysa hvert vandamálið á fætur öðru, hundelt og dauðhrædd.

Kápukynning:

„Ylfa stendur á brautarpallinum, loksins búin að gera upp hug sinn. Hún verður að komast burt. Undir eins, áður en hann vaknar. Lestin, sem er væntanleg á hverri stundu, mun bera hana fyrsta áfangann á leiðinni heim. Heim í öryggið á Íslandi. Ekkert má koma í veg fyrir að hún komist af stað. Ekki einu sinni þessi óvænti farangur sem hún fær í fangið.“

Úgefandi: Bókabeitan

Horfnar, eftir Stefán Mána

Umsögn dómnefndar HÍG:

Í bókinni Horfnar eftir Stefán Mána heldur sagan um rauðhærða risann Hörð Grímsson áfram. Eftir erfiða reynslu við lögreglustörf gerist Hörður varðstjóri í litlu þorpi þar sem ekkert gerist. Það á þó eftir að breytast og hvarf tveggja stelpna á bakpokaferðalagi leiðir Hörð í gegnum spennandi atburðarás þar sem hann kynnist litríkum persónum sem hafa ýmislegt misjafnt í pokahorninu. Frásögnin er kraftmikil og auðvelt er að gleyma sér við lesturinn.

Kápukynning:

„Það er sumarbjart og sólin skín við Kirkjubæjarklaustur. Tvær þýskar vinkonur á bakpokaferðalagi heillast af stórbrotinni náttúrunni. Undir friðsælu yfirborðinu við Klaustur leynast þó myrk leyndarmál sem stúlkurnar tvær vilja ekki vita af.

Hörður Grímsson lögreglumaður er mættur að Klaustri til afleysinga. Þar gerist aldrei neitt. Að hann heldur.“

Útgefandi: Sögur

 

Lok, lok og læs eftir Yrsu Sigurðarsdóttur

Umsögn dómnefndar HÍG:

Lok lok og læs eftir Yrsu Sigurðardóttur. Stór og mikil bók frá Yrsu í ár, 350 blaðsíður sem innihalda mikla spennu og hrylling. Í upphafi lýsir hún mjög dularfullum og hrottalegum glæp sem framinn er í íslenskri sveit og þú leggur bókina ekki svo auðveldlega frá þér eftir það. Í sögunni fylgjumst við með lögreglumanninum Tý og félögum hans við rannsókn glæpsins og samhliða fáum við að fylgjast með aðdraganda harmleiksins.

Kápukynning:

„Á köldu vetrarsíðdegi fer nágranni að huga að fjölskyldu í Hvalfjarðarsveit sem ekki hefur svarað skilaboðum. Fólkið veit ekki aura sinna tal og hefur komið sér fyrir í afdal utan alfaraleiðar. Nágranninn sér ummerki um mannaferðir en enginn svarar þegar hann drepur á dyr. Eftir að hafa litið inn í húsið hrökklast hann aftur út og kallar til lögreglu. Hvað gerðist hjá þessum nýju ábúendum?

Jafnframt því að fylgjast með rannsókn málsins fær lesandinn að skyggnast inn í líf fjölskyldunnar í aðdraganda þessara voveiflegu atburða þar sem ekki er allt sem sýnist.“

Útgefandi: Bjartur

Náhvít jörð, eftir Lilju Sigurðardóttur

Umsögn dómnefndar HÍG:

Dyggir lesendur Lilju Sigurðardóttur kannast vel við persónur Náhvítrar jarðar, sem halda áfram að stækka, verða áhugaverðari með hverri bók og njóta samúðar lesenda. Glæpunum sem tekist er á við er fagmannlega fléttað inn í persónuleg átök sögupersóna. Sögusviðið er að langmestu leyti Ísland en við ferðumst þó út fyrir landsteinana og tekist er á við stóra og skelfilega glæpi í feykilega spennandi frásögn.

Kápukynning:

„Náhvít jörð er hrollvekjandi saga um glæpamenn sem svífast einskis og fórnarlömb mansals – þræla nútímans. Áður eru komnar út tvær vinsælar bækur um sömu persónur, Helköld sól og Blóðrauður sjór.

Á hvítum vetrarmorgni finnst yfirgefinn flutningagámur í Rauðhólum við Reykjavík. Þegar hann er opnaður blasir hryllingurinn við: fimm lífvana konur sem augljóslega hafa verið fluttar í þessum gámi yfir hafið. Hvernig getur svona lagað gerst og hverjir standa að baki þessari óhæfu?

Rannsóknarlögreglumennirnir Daníel og Helena mæta á vettvang og hefjast handa en á meðan sinnir Áróra, vinkona Daníels, öðru máli: Elín frænka hennar er í sambandi við rússneskan mann sem vill endilega að þau gifti sig en virðist hafa óhreint mjöl í pokahorninu …“

Útgefandi: JPV

Út að drepa túrista, eftir Þórarinn Leifsson

Umsögn dómnefndar HÍG:

Skáldsagan Út að drepa túrista er frumraun Þórarins Leifssonar á sviði glæpasagna. Höfundur leikur sér engu að síður af mikilli leikni að hinu hefðbundna glæpasagnaformi svo úr verður frumleg saga sem byggir á þekktum hefðum og minnum innan formsins. Sagan er spennandi en um leið bráðfyndin og heldur lesandanum vel við efnið.

Kápukynning:

„Út að drepa túrista er egghvöss og ísmeygilega fyndin glæpasaga mitt úr brjálæði massatúrismans. Hér gefst fágætt tækifæri til að gægjast bak við tjöldin í furðulegustu atvinnugrein landsins korteri áður en kórónaveiran lamar alla heimsbyggðina. Saga sem kemur sífellt á óvart.

Leiðsögumaðurinn Kalman er þreyttur. Hring eftir hring og ár eftir ár hefur hann mátt sinna kenjum fólks frá öllum heimshornum, svara furðulegum spurningum og bregðast við óvæntum uppákomum. En þessi síðasta Suðurstrandarferð ætlar allt að trompa. Ekki nóg með að einn farþeginn finnist myrtur í upphafi ferðar og morðinginn leynist um borð í rútunni heldur sveimar hættuleg veira um, veðurspáin er viðbjóður og sá sem lögreglan sendir til að leysa málið er í hæsta máta vafasamur.

Þórarinn Leifsson er með meirapróf í að eiga við ferðamenn. Áður hefur hann skrifað bækur bæði fyrir börn og fullorðna sem hafa verið þýddar á fjölda tungumála, hlotið verðlaun og fengið frábæra dóma. Þetta er fyrsta glæpasaga hans.“

Útgefandi: Mál og menning

Dómnefnd Hins íslenska glæpafélags var að þessu sinni skipuð þeim Helgu Birgisdóttur formanni, Áslaugu Óttarsdóttur og Snæbirni Pálssyni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Brooke Shields segir að lýtalæknir hafi framkvæmt „bónus aðgerð“ á kynfærum hennar án samþykkis

Brooke Shields segir að lýtalæknir hafi framkvæmt „bónus aðgerð“ á kynfærum hennar án samþykkis
Fókus
Í gær

Stefanía segir það gefandi að syngja í jarðarförum – „Erfitt að sjá fólk sem manni þykir vænt um í sárum“

Stefanía segir það gefandi að syngja í jarðarförum – „Erfitt að sjá fólk sem manni þykir vænt um í sárum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Konur gera tilraun til að svara þessari áleitnu spurningu – Hvers vegna eru ungir karlmenn komnir lengra til hægri?

Konur gera tilraun til að svara þessari áleitnu spurningu – Hvers vegna eru ungir karlmenn komnir lengra til hægri?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir mótlætið mikilvægt – Óvænt og ófyrirgefanleg uppsögn það besta fyrir ferilinn – „Heimurinn skuldar manni ekki neitt“

Segir mótlætið mikilvægt – Óvænt og ófyrirgefanleg uppsögn það besta fyrir ferilinn – „Heimurinn skuldar manni ekki neitt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ástin logaði á hvíta tjaldinu – Ásakanir um kynferðislega áreitni, ofbeldi og einelti loga nú milli stjarnanna

Ástin logaði á hvíta tjaldinu – Ásakanir um kynferðislega áreitni, ofbeldi og einelti loga nú milli stjarnanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Komst að leyndarmáli eiginmannsins og ætlar að nota afmæliskortið til að hefna sín

Komst að leyndarmáli eiginmannsins og ætlar að nota afmæliskortið til að hefna sín