fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fókus

Fyrirsætan Ruslana lést á voveiflegan hátt eftir kynni af vellauðugum költleiðtoga – „Þér á eftir að líða illa“

Fókus
Sunnudaginn 20. mars 2022 19:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ruslana Sergeyevna Korshunova var upprennandi fyrirsæta þegar hún lést. Ruslana var frá Kasakstan, fædd árið 1987, var með falleg blá augu og ljóst hár. Hún vakti athygli hvert sem hún fór og sat fyrir á forsíðum stórra tískublaða á borð við Vogue. Hún var aðeins fimmtán ára þegar hún var uppgötvuð og varð hluti af heimi hátískunnar, í allt of stuttan tíma.

Það var þann 28. júní 2008 sem Ruslana féll af svölum íbúðar hennar á níundu hæð í New York og niður á kalt malbikið. Hún var þá aðeins tvítug. „Ég heyrði högghljóð og hélt að einhver hefði orðið fyrir bíl. Þegar ég sneri mér við sá ég stúlkuna á götunni,“ sagði eitt vitnið.

Ruslana er talin hafa látist samstundis. Hvorki var að finna eiturlyf eða áfengi í blóði hennar og hún átti ekki sögu um andleg veikindi. Niðurstaðan var sú að hún hefði framið sjálfsvíg.

Leiði Ruslönu.

Fastagestur hjá markþjálfa

Samkvæmt lögreglunni hafði Ruslana drepið sig eftir að hún varð þunglynd í kjölfar peningavandræða og ástarsambands við giftan mann í Moskvu sem fór út um þúfur.

Í fjölmiðlum var greint frá því að Ruslana hefði sagt einhvers konar markþjálfa (e. life coach) að hún væri orðin þunglynd og hefði íhugað sjálfsvíg.

Markþjálfinn, Vladislav Novgorodtsev, sagði: „Ég hitti hana reglulega og hún sagði mér hluti sem hún sagði engum öðrum. Það sem skipti mestu máli er að hún var afskaplega einmanna og það var í raun enginn sem var henni náinn nema mamma hennar.“

Vladislav Novgorodtsev

Novgorodtsev var markþjálfi hjá Roza Mira þjálfunarmiðstöðinni í Moskvu. Hann sagði að Ruslana hefði komið í miðstöðina í janúar og febrúar, og að hún hefði „leitað að sálarfriði.“ Hann sagði ennfremur að hún væri í peningavandræðum og í sárum eftir misheppnað ástarsamband.

Ekkert sjálfsvígsbréf

Ekkert sjálfsvígsbréf fannst í íbúð Ruslönu en bæði vinir hennar og fjölskyldumeðlimir héldu því staðfastlega fram að hún hefði aldrei stytt sér aldur, Ruslana hefði verið nýkomin úr stóru fyrirsætuverkefni í París og hefði verið bókuð í annað verkefni í Texas seinna í vikunni sem hún lést.

Ruslana hefði líka verið stolt af árangri sínum. Hún hafi verið nýbyrjuð að hitta mann, Mark Kaminsky, og varði mestum frítíma sínum á heimili hans á Staten Island. „Henni gekk vel. Hún var ein af vinsælustu fyrirsætunum. Hún var ánægð,“ sagði vinur hennar.

Ruslana og Mark hefðu verið búin að skipuleggja kvöldið og ætluðu að fara í afmælisveislu til vinar hennar, eða eins og annar vinur hennar sagði: „Ég sá blik í augum hennar þegar hún var með Mark. Hún var yfir sig hamingjusöm.“

Mamma hennar, Valentina Kutenkova, sagði að Ruslana hefði eitt sinn verið þunglynd en það hafi verið um ári áður og allt hafi breyst mikið síðan þá.

Roza Mira þjálfunarmiðstöðin var umdeild hjá mörgum og sögðu sumir að þetta væri ekkert annað en költ. Miðstöðin sérhæfði sig í andlegri þjálfun og persónulegum vexti viðskiptavina. „Þetta var vinsælt,“ sagði Anna Barsukova, fyrirsæta og vinkona Ruslönu. „Önnur vinkona mín fór þangað líka en henni líkaði það ekki. Þau láta fólk gera æfingar sem snúast um þróun persónuleikans.“

Ruslana á forsíðu Vogue

Önnur fyrirsæta sem lést við undarlegar aðstæður

Þegar í ljós kom að Ruslana hefði verið viðskiptavinur Roza Mira, sem einnig var þekkt sem Rose of the World eða Rós heimsins, fóru viðvörunarbjöllurnar að hringja hjá mörgum. Áhyggjuraddir vegna miðstöðvarinnar urðu síðan enn hærri ári síðar þegar Anastasia Drozdova, fyrirsæta frá Úkraínu, lést eftir hátt fall en hún var einnig tengd við Rós heimsins.

Blaðamaðurinn Peter Pomeranstsev var einn þeirra sem taldi Rós heimsins vera hættulegt trúarkölt og vildi hann rannsaka andlát Ruslönu enn frekar. Rós heimsins átti rætur sínar að rekja til bandaríska költsins Lifespring sem varð gjaldþrota árið 1980 eftir að stór hluti fyrrum meðlima þess fór í mál vegna andlegra vandkvæða í kjölfar þess að taka þátt í starfinu. Fólkið hafði endurtekið verið niðurlægt af „þjálfurum“ Lifespring.

„Þér á eftir að líða illa“

Pomeranstsev komst að því að það kostaði yfir 300 dollara á dag að sækja námskeið á vegum Rósar heimsins og þar var notast við afmennskandi aðferðir þar sem „markþjálfarnir“ niðurlægðu viðskiptavinina og kenndu þeim sjálfum um allt sem miður hafði farið í þeirra lífi.

Í þjálfunarmiðstöðinni voru viðskiptavinir látnir fara inn í myrkvað herbergi með það að markmiðið að lama hugann og sömuleiðis alla gagnrýna hugsun. „Markþjálfinn“ myndi síðan segja við viðkomandi: „Þér á eftir að líða illa á næstu dögum. Upplifa ótta. En þetta er gott. Þetta er merki um þær innri hindranir sem þú þarft að komast yfir.“ Viðskiptavinir voru síðan beðnir um að deila því versta sem þeir hefðu upplifað á ævinni og kalla fram allar slæmar minningar sem þeir hefðu mögulega bælt niður.

Vinir og ættingjar Ruslönu fóru að taka eftir breytingum á henni í kjölfar þess að hún mætti reglulega í þjálfunarmiðstöð Rósar heimsins, hún varð uppstökk, blótaði mikið og léttist sem hún þurfti alls ekki á að halda.

Pomeranstsev skráði sig sjálfur hjá Rós heimsins til að kynnast því betur sem þar fór fram bak við luktar dyr. Hann ræddi við einn „markþjálfann“ sem sagði: „Ruslana var dæmigert fórnarlamb. Stundum er betra að fremja sjálfsvíg þegar fólk getur ekki breyst.“

Vellauguður og hvergi nærri hættur

Seinna kom í ljós að Novgorodtsev var einn af þeim sem stýrðu Rós heimsins í Moskvu.  Hann þurfti að loka miðstöðinni og varpaði sökinni á fyrirsæturnar sem höfðu látið lífið. „Ég þurfti að loka því viðskiptavinir mínir yfirgáfu mig,“ sagði hann.

Mail Online greindi frá því árið 2014 að Novgorodtsev væri enn vellauðugur og hefði einfaldlega bara opnað nýja þjálfunarmiðstöð undir eigin nafni sem notaðist við sömu aðferðir og Rós heimsins. Þarna væri markhópurinn ríkir Rússar sem hefðu verið undir miklu álagi, og gætu þeir komið á þriggja daga námskeið fyrir 700 dollara.

Novgorodtsev lýsir sjálfum sér sem sérfræðingi í mannlegri hegðun. Hann sækist enn í að þjónusta hina ríku og frægu, og segist vilja komast að leyndarmálum þeirra.

Novgorodtsev fer reglulega í sumarleyfi til Mónakó og Maldíveyja, vetrarfrí til Sviss og slappar reglulega af í Feneyjum og á Ibíza. Hann er dyggur aðdáandi Formúlu eitt og sést gjarnan á snekkju við St. Tropez eða keyra um Frakkland á Ferraribílum.

Fjölskylda Ruslönu neitar því enn að hún hafi framið sjálfsvíg heldur hafi hún verið fórnarlamb í einhvers konar glæp. Opinberlega er andlát hennar enn skráð sem sjálfsvíg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Dan um breytingaskeið karla – „Smátt og smátt fór ég að verða betri, sterkari, rólegri, skýrari, graðari, ánægðari“

Gunnar Dan um breytingaskeið karla – „Smátt og smátt fór ég að verða betri, sterkari, rólegri, skýrari, graðari, ánægðari“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sagðist ætla að sænga hjá öllum þessum pöbbum – Kom upp um sig í þessu myndbandi

Sagðist ætla að sænga hjá öllum þessum pöbbum – Kom upp um sig í þessu myndbandi