Leikarinn og fyrrum ríkisstjóri Kaliforníu Arnold Schwarzenegger, hefur vakið mikla athygli síðasta sólarhringinn eftir að hann deildi myndbandi þar sem hann ávarpar rússnesku þjóðina og rússneska hermenn í þeim tilgangi að upplýsa þau um raunverulegu stöðuna í Úkraínu. Myndbandið hefur breiðst út sem eldur í sinu og hafa fleiri tugir milljóna horft á það.
Vonir Arnolds stóðu til þess að myndbandið næði augum og eyrum rússnesku þjóðarinnar og verður að telja líklegt að það hafi tekist líklega að hluta.
Hefur ávarpið einnig vakið athygli fyrir þá staðreynd að forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hefur haft á leikaranum nokkrar mætur, en Arnold er meðal þeirra fáu sem opinber Twitter-aðgangur Pútíns er að fylgja á þeim miðli.
„Ég er að tala við ykkur í dag því það eru hlutir í gangi í heiminum sem er haldið frá ykkur, hræðilegir hlutir sem þið ættuð að vita af,“ segir Arnold í ávarpi sínu.
Arnold byrjar frásögn sína á því að deila sögu um rússneskan mann sem varð hetja Arnolds í lífinu. Þegar Arnold var 14 ára gamall var honum boðið til Vínarborgar til að horfa á heimsmeistaramótið í kraftlyftingum. Hann hafi verið meðal áhorfenda þegar Yuri Petrovich Vlasov sigraði keppnina með því að vera fyrstur manna til að lyfta 200 kg yfir höfuðið á á sér.
„Einhvern veginn tókst vini mínum að koma mér baksviðs. Skyndilega stóð 14 ára drengur andspænis sterkasta manni í heimi. Ég trúði varla eigin augum. Hann rétti fram höndina til að taka í mína, ég var enn með hönd lítils drengs. Hann var með sterkar fullorðins hönd sem gleypti mína. En hann var góður og hann brosti til mín. Ég mun aldrei gleyma þessum degi.“
Í kjölfarið varð Yuri að persónulegri hetju Arnolds, sem hengdi mynd af hetjunni á vegginn heima hjá sér til að vera honum innblástur, föður hans til mikillar mæðu enda hafði hann barist í seinni heimsstyrjöldinni fyrir nasista og fyrirleit Rússa. Sagði hann syni sínum að taka myndina niður og finna sér þýska fyrirmynd, en Arnold lét sér ekki segjast.
Sem fullorðinn maður átti Arnold eftir að hitta Yuri aftur og af Yuri honum þá kaffibolla sem Arnold notar enn í dag til að fá sér kaffi á morgnanna.
Arnold segir að hann hafi borið mikla virðingu og aðdáun til Rússa nánast alla tið og vonar að rússneska þjóðin sé tilbúin að heyra skilaboð hans.
Hann segir að innrásin í Úkraínu sé óréttlætanleg og tilraunir rússneska yfirvalda til að réttlæta hana með vísan til tilvistar nasista innan úkraínskra stjórnvalda sé fráleit, enda forseti Úkraínu gyðingur sem hafi misst náskylda ættingja í seinni heimsstyrjöldinni.
„Þetta er ekki stríð rússnesku þjóðarinnar,“ segir Arnold. Arnold birtir með ávarpinu myndir og myndskeið frá Úkraínu til að varpa ljósi á stöðuna. Hann minnir svo á að það séu ekki bara Úkraínumenn sem séu að tapa lífinu í stríðinu.
„Mér þykir leitt að tilkynna ykkur að þúsundir rússneskra hermanna hafa tapað lífinu,“ segir Arnold og rekur það að margir hermenn hafi komið til Úkraínu án þess að vita hvað þeirra beið þar. Rússnesk yfirvöld hafi logið að þeim og þeir talið sig vera að fara þangað til að berjast við nasista, að þeim yrði tekið fagnandi og jafnvel að þeir væru hreinlega bara að fara á hernaðaræfingu.
„Þeir vissu jafnvel ekki að þeir væru á leið í stríð“
Arnold segir að myndskeið sem hann hafi séð frá Úkraínu minni á seinni heimsstyrjöldina.
„Þegar faðir minn kom til Leníngrad var hann uppfullur af lygum frá ríkisstjórn sinni. Þegar hann yfirgaf Leníngrad var hann brotinn maður, líkamlega sem og andlega. Hann varði restinni af lífi sínu kvalinn, vegna brotins baks, vegna brotajárnsins sem minnti hann stöðugt á þessi hryllilegu ár, og hann kvadist vegna samviskubitsins sem hann fann fyrir.“
Arnold segir marga rússneska hermann nú vita hið rétta. „Þið hafið sé þetta með eigin augum. Ég vil ekki að þið endið brotnir eins og faðir minn. Þetta er ekki stríð til að verja Rússland eins og stríði sem afar ykkar og langafar börðust í. Þetta er ólögmætt stríð. Lífi ykkar, limum og framtíðum er fórnað fyrir tilgangslaust stríð sem heimurinn hefur fordæmt.“
Minnti Arnold á að milljónir Rússa eru tengdir Úkraínu fjölskylduböndum. „Með hverju skoti eru þið að skjóta bróður eða systur. Hver sprengja og skotflaug sem fellur er ekki að falla á óvin heldur á skóla, spítala eða heimili.“
Arnold telur að rússnesk þjóðin átti sig ekki á stöðunni.
„Svo ég hvet rússnesku þjóðina og rússneska hermenn í Úkraínu til að átta sig á þeim áróðri og lygum sem hefur verið haldið að þeim. Ég bið ykkur að hjálpa mér við að koma sannleikanum á framfæri svo að rússneskir bræður ykkar viti að um þann mannlega harmleik sem er að eiga sér stað í Úkraínu. Við Pútín forseta vil ég koma eftirfarandi á framfæri: Þú hófst þetta stríð. Þú leiðir þetta stríð áfram. Þú getur stöðvað þetta stríð núna.“
I love the Russian people. That is why I have to tell you the truth. Please watch and share. pic.twitter.com/6gyVRhgpFV
— Arnold (@Schwarzenegger) March 17, 2022