Kvikmyndaþátturinn Bíóbær, sem er í umsjón þeirra Gunnars Antons Guðmundssonar og Árna Gests Sigfússonar, er á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar í kvöld kl.20.
Í þætti kvöldsins spjalla félagarnir um kvikmyndina The Lost City með Söndru Bullock, Channing Tatum og Brad Pitt í aðalhlutverkum, japönsku óskarstilnefningamyndina Drive My Car sem og þýska kvikmyndahátíð í Bíó Paradís
Meðal þeirra mynda sem sýndar eru á hátíðinni er þýska kvikmyndin Dear Thomas sem er óður til rithöfundarins Thomas Brasch. Bendir Árni Gestur á að Brasch hafi skemmtilega tengingu við Ísland en hann fór með lítið hlutverk í kvikmyndinni Tár úr steini eftir Hilmar Oddsson frá árinu 1995.
Gunnar Anton kemur þá með enn skemmtilegri tengingu en hann bendir á að Hilmar sé einmitt fyrrverandi leigusali hans. „Ef að klósettið mitt stíflaðist þá hringdi ég í Hilmar Oddsson leikstjóra,“ segir Gunnar Anton og hlær. Hann tekur síðan fram að það hafi þó blessunarlega aðeins gerst einu sinni og Hilmar hafi sannarlega reddað málunum.