Húsálfurinn Bolli og skólaálfurinn Bjalla, umsjónarfólk Stundarinnar okkar á RUV, eru sífellt að lenda í ævintýrum. Í þættinum sem sýndur var í gær settu þau á svið leikverkið Rómeó og Júlía eftir William Shakespeare, eða Vilhjálm Hristispjót eins og þau kalla hann upp á íslensku.
Þau hafa þó varla hafið æfingar þegar í ljós kemur að bæði Bolli og Bjalla höfðu hugsað sér að leika Júlíu. Bolli leggur til að það séu þá bara tvær Júlíur en það getur Bjalla ekki hugsað sér: „Þetta er ástarsaga, Bolli, og það verður að vera einn strákur og ein stelpa!“
Í þættinum kanna þau síðan bæði kyn og kynhneigðir, og komast að því að þau eru miklu fleiri en þau höfðu áttað sig á.
Bolli bjó fyrst einn álfa hjá hinum ellefu ára gamla Bjarma en hann fékk herbergisfélaga þegar Bjalla smyglaði sér heim í pennaveskinu hans Bjarma.
Bjalla verður afar hissa þegar í ljós kemur að Bjarmi á tvær mömmur og finnst það hreinlega svolítið skrýtið. Bolli er ekki sammála: „Fjölskyldur eru allskonar; tvær mömmur, tveir pabbar, ein mamma, einn pabbi, fullt af börnum…“
Eins og sést í myndbrotinu hér neðst úr þættinum áttar Bjalla sig samt ekki alveg á því hvað það er að vera samkynhneigð/ur.
Sjá brot úr samtali Bjöllu og Bolla:
– Já, Bjalla mín. Þær eru konur sem eru skotnar í öðrum konum.
– Bolli Könnuson! Svona segir maður ekki! Stelpur eru bara skotnar í strákum og strákar eru bara skotnir í stelpum. Ég meina, hvaða rugl er þetta? Það er allavega þannig í skólanum mínum!
– En, Bjalla, ég er meira skotinn í strákum heldur en stelpum.
– En, Bolli, þú ert strákur!
– Ég veit…
– Þannig að… Ert þú…?
– Hommi?
– Samkynhneigður
– Já!
Níels Thibaud Girerd fer með hlutverk Bolla húsálfs. Hann segir það klárlega skipta máli að persónur í barnaefni ræði um samkynhneigð. „Boðskapurinn liggur í fræðslu. Eins og Bjalla kemur svo einlægt inn á þá veit hún ekki hvað þetta er. En það er ekki henni að kenna. Það er augljóslega hennar samfélag, samfélag skólaálfa, sem hefur ekki sagt henni frá því hve litir regnbogans eru margir og fjölbreyttir. Hversdagslegir hlutir geta verið flóknir ef okkur er ekki sagt frá þeim,“ segir hann.
Á árum áður sá Felix Bergsson um Stundina okkar ásamt Gunnari Helgasyni og er Felix opinberlega samkynhneigður. Það var þó enginn fókus á samkynhneigð í þáttunum þá og aðspurður segist Níels giska á að aldrei áður hafi svokallaður umsjónarmaður þáttarins, því Bolli er sannarlega umsjónarmaður, verið opinn með samkynhneigð sína.
Níels á að baki fjölbreyttan feril þó Bolli sé hans fyrsta hlutverk eftir útskrift úr leiklistinni og þykir honum afar vænt um Bolla. „Það er yndislegt að leika Bolla og að vera treyst fyrir svona persónu. Það skiptir máli að Stundin okkar, og allt fjölskyldusjónvarp sem er í raun fyrir óskilgreindan hóp þó markhópurinn séu börn frá fjögurra til tólf ára, taki á samfélagslegum málum. Hversdagurinn getur verið flókinn og skrýtinn og erfiður. Þess vegna erum við að fjalla um skilnað og dauða og samkynhneigð og rasisma, og setja í hversdaginn. Þrátt fyrir að hver þáttur hafi ákveðinn boðskap þá má segja að hver þáttur hafi sérkenni í hversdeginum.“
Brot úr nýjasta þætti af Stundinni okkar: