fbpx
Sunnudagur 01.september 2024
Fókus

Edda segir að þerapisti og barnsfaðir Bryndísar hafi haft samband við sig fyrir viðtalið – „Þau voru að reyna að sanna fyrir mér að þú sért „geðsjúkur ofbeldismaður““

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 15. febrúar 2022 11:30

Bryndís Ásmundsdóttir. Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Söng- og leikkonan Bryndís Ásmundsdóttir er nýjasti gestur Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur. Hún ræðir um meint ofbeldissamband sem hún var í við barnsföður sinn um þriggja ára skeið fyrir um áratug síðan.

Hún opnaði sig fyrst um ofbeldið í viðtali við DV árið 2017.

Sjá einnig: „Ég held mig í sannleika og heiðarleika og er þess vegna ekki hrædd“

Bryndís er greind með geðhvarfasýki, bipolar 1, sem hún segir að hafi verið notað gegn sér í forræðisdeilu milli hennar og barnsföðursins. Þá kemur fram að Bryndís hafi kært manninn fyrir ofbeldi en þrátt fyrir það er hinum meinta geranda falin full forsjá yfir barninu.

Í þætti Eigin Kvenna ræðir Bryndís um sambandið en einnig hvernig þerapisti, sem Bryndís leitaði til fyrst til að hjálpa syni sínum, hafi að hennar mati brotið traust og trúnað við sig. Hún segir þerapistann hafa lokað á öll samskipti við hana, fært sig yfir á aðra stofu og haldið áfram að taka viðtal við son hennar, án hennar leyfis og vitundar.

Athygli vekur að Edda fullyrðir að áður en hún tók viðtalið við Bryndísi hafði umræddur þerapisti samband við hana og nokkrum dögum seinna barnsfaðir hennar, og reynt að sannfæra hana um að Bryndís væri „geðsjúkur ofbeldismaður“ og „veik á geði.“

Bryndís segist hafa kært barnsföður sinn fyrir margs konar brot, eins og að beita sig hálstaki, nauðga sér ítrekað, frelsissviptingu og annars konar líkamlegt ofbeldi sem og andlegt.

Aðspurð um myndir af áverkunum

„Ofbeldið í þessu sambandi var orðið þannig að hann beitti ekki bara andlegu, hann beitti líka líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, mjög grófu. Einu sinni var ég einmitt spurð að því, hvort ég ætti áverkamyndir af ofbeldinu, hvort ég gæti sýnt [þá] […] Það var ekki það fyrsta sem mér datt í hug, að taka „selfies“ af mér með marblettina sko. Heldur er maður bara mjög fljótur að hugsa: „Ég átti þetta auðvitað skilið því ég var ekki búin að kæla bjórinn hans nógu vel. Ég var ekki búin að þrífa buxurnar hans,“ og þannig var þetta,“ segir Bryndís og heldur áfram:

„Allt fjárhagslegt öryggi var farið, hann skammtaði mér peninga vikulega. Ég varð alltaf að vera búin að kæla bjórinn hans vel, búin að þrífa heita pottinn fyrir hann og fylla áður en hann kom heim. Þetta eru atriði sem urðu að vera tip top. Hann brjálaðist yfir því að ég eldaði ekki gúllas súpu frá grunni heldur keypti úti í búð og hitaði hana upp.“

Þorði ekki út úr húsi

Bryndís segir frá því að henni hefði tekist að koma sér úr sambandinu en var ein með ung börn og þrjú þúsund krónur í veskinu og ekkert annað. Hún segir ofbeldið hafa haldið áfram og tekið á sig aðra mynd, umsátur og ofsóknir.

„Þarna var ég ennþá ofboðslega hrædd og þorði varla út úr húsi. En eftir að ég leitaði til Stígamóta, þaðan fór ég í Bjarkarhlíð og í millitíðinni fékk ég taugaáfall, ég fór í gegnum áfallastreitumeðferð. En það eru þessar afleiðingar, áfallastreitan, óróleikinn innra með mér, hræðslan, álag og það var bara ofboðslega erfitt fyrir mig að halda utan um þetta allt saman,“ segir Bryndís.

Bryndís viðurkennir að hún var farin að drekka mikið og loka sig af. „Svona deyfa [mig], sem að náttúrulega hjálpaði engan veginn í minni sjálfsvinnu og svo á ákveðnum tímapunkti hætti ég að drekka. En þarna var ég að koma til baka fannst mér,“ segir hún.

„Ég geri þetta og kærði hann, því enn og aftur ég er ekki ein. Þarna erum við margir þolendur þarna úti sem höfum orðið fyrir þessu.“

Hafði miklar áhyggjur af syni sínum

Á þessum tíma segist Bryndís hafa leitað aðstoðar fyrir sig og börnin sín. „Staðreyndin er sú, og allir vita, að það er mjög erfitt að komast að hjá sálfræðing og sér í lagi barnasálfræðing. En ég leita þarna til þessara konu sem að var að starfa þá á stað sem heitir Lausnin í Kópavogi. Þarna er ég mjög örvæntingarfull, ég er að fá upplýsingar þess efnis að fólk hefur gríðarlegar áhyggjur af barninu mínu, verandi heima hjá föður sínum þar sem er ofbeldi á því heimili. Fólk hefur áhyggjur, heyrir lætin, það er bara gargandi ofbeldi í gangi,“ segir Bryndís. Umrædd kona var ekki sálfræðingur heldur titlaði sig sem „þerapista.“

„Ég byrja á því að tala við barnið, svona aðeins að athuga. En áttum okkur á því líka að þarna er hann mjög hræddur að segja mér frá hvað gengur á inni á heimili hjá pabba sínum, því þar er hann þjálfaður í því að hann má ekki segja frá. En hann opnar sig og fer aðeins að tala um þetta og segir mér hvað hann gerir þegar pabbi verður brjálaður,“ segir Bryndís.

„Þarna er ég að treysta þessari konu fyrir börnunum mínum. Ég hringi í þessa konu, eins og ég segi við vorum kunningjar, og ég spyr hana um að hjálpa mér og að ég hafi áhyggjur af barninu mínu og segi henni frá þessu og minni fyrri reynslu af þessum manni, og að ég sé ekki ein og þetta sé ekki eina barnið. Þannig það er líka áríðandi því þetta er mynstur. Hún bara alveg miður sín yfir þessu og að sjálfsögðu ætlaði hún að taka á móti drengnum. En ég spurði hana hvort hún væri búin að láta pabbann vita, þarna fannst henni það ekki áríðandi, en henni bar skylda til að gera það [vegna sameiginlegrar forsjár].“

Bryndís fullyrðir að umrædd kona hefði endað með að láta barnsföðurinn vita og sagt svo Bryndísi allt sem hann hefði sagt og þar með brotið fjölda siðareglna og trúnað.

„Ég áttaði mig ekki á því strax því ég var svo mikið að hugsa hvort hún gæti ekki hjálpað drengnum mínum.“

Lokaði á öll samskipti og fór á aðra stofu

„Í þessu ferli er hún algjörlega sammála um að þetta sé áhyggjuefni, hún hefur áhyggjur af barninu. Hún var mjög dugleg að tala við mig á Messenger á Facebook, og hringja. Og ég gat hringt í hana hvenær sem var, sem er eftir að hyggja mjög ófaglegt líka. Svo sagði hún við mig á ákveðnum tímapunkti: „Ég var að spá í, á ég ekki að hringja í karlinn.“ Og ég segi við hana: „Jújú, ég meina þú getur reynt það, en ég ætla að vara þig við, þetta er maður sem hatar konur eins og maður segir, hann á eftir að ná þér, hann á eftir að ná að snúa þér við og sannfæra þig um annað.““

Bryndís segir að konan hefði sagst alveg vita hvað hún væri að gera, hringdi í barnsföður hennar og hringdi svo strax í hana til að deila því sem hefði farið fram í símtalinu við manninn, og brotið þar með trúnað í leiðinni.

Bryndís varð mjög ósátt með vinnubrögð konunnar og segist hafa kvartaði yfir henni hjá Lausninni, konan hætti þar í kjölfarið og lokaði á öll samskipti við Bryndísi. En að sögn Bryndísar hélt konan áfram að taka son hennar í viðtal á nýjum stað, án hennar vitundar og leyfis.

Þerapistinn hefur samband við Eddu Falak

Eins og áður segir fullyrðir Edda Falak, þáttastjórnandinn, að umræddur þerapisti hefði haft samband við sig í aðdraganda viðtalsins. „Hún finnur sig knúna til að senda mér skilaboð, ég þekki hana ekki neitt, og segja mér trúnaðarupplýsingar um þig. Og þarna finnst mér þetta svo skýrt, þarna er hún í einhverri herferð, en hún finnur sig knúna til að segja mér hvað þú ert „algjörlega biluð“. Nafngreinir þig og segist vera með börnin þín í meðferð. Þetta er svo súrrealískt. Bara það eitt og sér, en þá fer maður [að hugsa], hún er ekki sálfræðimenntuð þannig það er ekki hægt að svipta hana einhverjum [réttindum], hún kallar sig einhvern þerapista. En þetta er ekki í lagi,“ segir Edda.

Edda segir barnsföður Bryndísar einnig hafa sent sér skilaboð. „Ég hef ekkert verið að „læka“ eða tjá mig neitt um þetta mál en með [eins til þriggja daga millibili] sendir hún mér skilaboð og hann í kjölfarið. Og þau öll að varpa á mig einhverjum upplýsingum og reyna að sanna fyrir mér að þú sért „geðsjúkur ofbeldismaður.“ Þau þekkja mig ekki neitt […] Þarna eru þau augljóslega að vinna saman eitthvað.“

„Þau afhjúpa sig sjálf með því að leita til þín,“ segir Bryndís og Edda tekur undir og segir barnsföðurinn hafa farið hamförum í skilaboðaskrifum sínum til hennar.

Þær ræða skilaboðin frá þerapistanum og barnsföðurnum nánar á mínútu 43:20.

Horfðu á þáttinn í heild sinni hér að neðan.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Gúrkusalat Sölku slær í gegn

Gúrkusalat Sölku slær í gegn
Fókus
Í gær

Skilin eftir 21 ár – „Þetta var mjög vel heppnað hjónaband að okkar mati“

Skilin eftir 21 ár – „Þetta var mjög vel heppnað hjónaband að okkar mati“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bjuggu saman í húsvagni í byrjun sambandsins

Bjuggu saman í húsvagni í byrjun sambandsins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir þetta eitrað við skrifstofumenningu

Segir þetta eitrað við skrifstofumenningu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stóð við gröf föður síns og spurði hvað hún ætti að gera – Ákvað að elta drauma hans og skráði sig í skóla

Stóð við gröf föður síns og spurði hvað hún ætti að gera – Ákvað að elta drauma hans og skráði sig í skóla
Fókus
Fyrir 4 dögum

Var kölluð lygari en fær nú að segja sögu sína – Rænt og átti að vera seld til hæstbjóðanda

Var kölluð lygari en fær nú að segja sögu sína – Rænt og átti að vera seld til hæstbjóðanda