fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Trúarleiðtoginn sem hjó af útlimi fylgjenda sinna

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 6. febrúar 2022 19:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestum sem hittu Kanadamanninn Roch Thériault snemma á áttunda áratug síðustu aldar líkaði vel við hann. Hann þótti fyndinn, orðheppinn og andlega þenkjandi guðsmaður sem boðaði kosti hráfæðis og fordæmdi notkun tóbaks og alkahóls.

Þegar sannleikurinn um Thériault kom í ljós, ríflega áratug síðar, var sannleikurinn hryllilegri en nokkurn hafði órað fyrir.

Dómsdagur nálgast

Roch Thériault fæddist inn í íhaldsama kaþólska fjölskyldu árið 1947 í Ontario í Kanada. Hann þótti afar vel gefinn en hætti snemma í skóla, fór að einbeita sér að lestri Gamla Testamentisins og gekk í raðir Sjöunda dags aðventista. Þar náði hann nokkurri hylli sem predikari, ekki síst hjá ungu fólki sem var leitandi í lífinu. Aðventistarnir gáfust þó fljótlega upp á sérkennilegri hegðun Thériault sem þá var kominn með hóp um tólf fylgjenda, að stærstum hluta stúlkna um tvítugsaldurinn, sem hlýddu hans hverju orði.

Allt lék í lyndi í upphafi

Árið 1977 sannfærði Thériault fylgjendur sína um að hann væri spámaður, breytti nafni sínu í Móses, og kvað Guð hafa tilkynnt sér um heimsendi í febrúar 1979. Eina leiðin til að forðast þau illu örlög voru að afneita umheiminum, þar með talið fjölskyldu og vinum, og fylgja honum út í óbyggðir Kanada. Þar yrði til syndlaust samfélag, byggt á jafnræði og hreinu líferni. Hópurinn kallaði sig ,,The Ant Hill Kids“ sem var tilvísun í aðdáunarverða vinnusemi maura.

Ungmennin voru snarlega sett í að byggja bjálkakofa, var synjað um svefn og nærðust aðeins á hráu grænmeti. Þrekið minnkaði og allar tilraunir til sjálfstæðrar hugsunar barðar niður.  Smám saman fór glansinn af sjálfbæra, syndlausa, samfélaginu. Thériault varð sífellt stjórnsamari og ofbeldisfyllri auk þess sem áfengisdrykkja hans fór fram úr öllu hófi. Dómsdagur kom og fór en Thériault útskýrði skort á heimsendi með ólíkum tímabeltum jarðar og himnaríkis. Fylgjendurnir sýndu því fullan skilning.

Barneignir og pyntingar

Þegar þarna var við sögu komið var lífið í kofanum orðið hreint helvíti á jörðu en heilaþvottur Thériault hafði lukkast það vel að fylgjendur dáðu hann sem spámann Guðs sem aldrei fyrr og létu sífellt grimmilegri hegðun yfir sig ganga. Thériault barði fylgjendur með hamri, lét þá berja sjálfa sig og hvor aðra, plokkaði af þeim hárin eitt af öðru, braut útlimi þeirra auk þess að hægja sér á þá og láta aðra kommúnumeðlimi gera slíkt hið sama. Peningum fyrir áfengi og öðrum persónulegum eigum aflaði Thériault með sölu á bakstri kvennanna sem seldur var í nálægum þorpum.

Hann hélt reglulegar ,,hjónabandsathafnir“ og eignaðst 26 börn með konunum, enda máttu hinir örfáu karlmenn kommúnunnar ekki eiga nein kynferðisleg samskipti vð konurnar.

Spámaðurinn við ríki sitt

Með tilkomu barnanna hófst jafnvel enn skelfilegra tímabil andlegs, líkamslegs og kynferðislegs ofbeldis sem beindist nú einnig að börnunum. Þau urðu fyrir sömu misþyrmingum og mæður þeirra. Þau voru barin, hýdd, beinbrotin og tennur og neglur dregnar af þeim. Ein refsingin var að binda börnin við tré og láta mæðurnar grýta þau. Að öðru leyti fengu flestar konurnar ekki að eiga samskipti við eigin börn, aðeins ,,uppáhaldeiginkonum” Thériault var veittur sá heiður.

,,Ofsóknir stjórnvalda“

Eðli máli samkvæmt barst út orðrómur um lífið í veröld Thériault, þótt engum dytti í hug hversu alvarleg staðan væri. Einstaka sinnum tilkynntu barnaverndayfirvöld um komu sína og var þá öllu tjaldað til og samfélagið hamingjan ein. Foreldrar kommúnumeðlimana tóku sig aftur á móti saman og með þrýstingi á stjórnvöld komu þau því í gegn að Thériault var vistaður á geðdeild og látinn sæta geðrannsókn.

Thériault átti 26 börn með konunum

Ekki aðeins var Thériault útskrifaður sem heilbrigðin uppmáluð, skínandi fyrirmynd dugnaðarmanns sem lifði friðsemdarlífi af landinu í góðra vina hóp, heldur var haldinn blaðamannafundur þar sem læknar og sálfræðingar geðsjúkrahússins fordæmdu ofsóknir stjórnvalda á þessum mæta manni. Og til að bæta gráu ofan á svart var hann sendur heim með sjúkling af geðdeildinni í þeirri von að hann næði andlegum bata með lífrænni fæðu og fersku lofti. Sá var settur í barnagæslu og þegar nokkra mánaða gamalt barn grét meira en honum líkaði, barði hann barnið þar til það missti meðvitund. Þegar Thériault komst að því skar hann kynfærin undan manninum en taldi réttu leiðina til að lækna barnið vera umskurð.

Roch Thériault

Móses Thériault hafði nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að guð hefði veitt honum náðargáfu til skurðlækninga sem hann hófst handa við að stunda af miklum móð, á eldhúsborðinu, með eldhúsáhöld að vopni.

Barnið lést úr alkahóleitrun sem Thériault hugðist nota sem svæfingu.

Djöfullinn í Solange

Misþyrming sjúklingsins og dauði barnsins barst til byggða og var Thériault snarlega handtekin og dæmdur til fangelsisvistar. Örfáir meðlimir kommúnunnar notuðu tækifærið og flúðu en eins ótrúlegt og það kann að hljóma beið meirihlutinn eftir að spámanninum yrði hleypt út úr grjótinu og fylgdu honum aftur upp í óbyggðir, nú á annað stað, aðeins 14 mánuðum síðar.

En núna var var athygli yfirvalda vakin. Barnaverndaryfirvöld mættu á svæðið og buðu konunum að yfirgefa Thériault ella yrðu börnin tekin af þeim og sett til ættleiðingar. Engin kvennanna tók boði yfirvalda sem hurfu á brott með börnin.

Thériault varð æfur úr reiði. Hann lýsti yfir að ástæðan fyrir brottför barnanna væri að djöfullinn hefði tekið sér bólfestu í einni kvennanna, Solange Boilard. Hann fór með hana út í skóg og þegar þau komu til baka, mörgum klukkutímum síðar, var Boilard nær dauða en lífi. En hryllingnum var ekki lokið. Thériault hana afklæðast og leggjast á eldhúsborðið þar henni var haldið fastri á meðan hann setti í hana stólpípu, fyllta olíu, opnaði kviðarholið og reif út hluta innyflanna áður en annar meðlimur var látinn sauma hana saman.

,,Skurðborðið“

Það þarf engum að koma á óvart að Boilard lést kvalafullum dauðdaga. En þar sem Thériault hafði auðvitað þá náðargjöf að geta lífgað fólk við, hófst hann handa við upprisuna með því að bora gat í höfuð hennar. Hún lifnaði ekki við.

Og þannig liðu ár andlegra og líkamlegra misþyrminga undir ógnarstjórn Móses Thériault.

Náði handalaus til byggða

Það var ekki fyrr en að Gabrielle Lavallée, sem hafði gengið til liðs við söfnuðinn sem ung hjúkrunarkona við stofnun hans, flúði og hafði samband við yfirvöld að bundinn var endir á ógnarstjórn Thériault.

Reyndar var um að ræða annan flótta Lavallée. Af einhverju ástæðum var Thériault einstaklega illa við Lavallée sem hafði hlotið hvað verstu meðferðina. Hún hafði verið illa brennd, ekki síst á kynfærum, úr henni dregnar átta tennur auk þess sem hún var með fasta nál í mænunni eftir eina af skurðaðgerðunum á eldhúsborðinu. Hún hafði einnig misst 5 mánaða son sinn sem Thériault henti nöktum út í ískalda kanadíska vetrarnóttina til að refsa henni.  Samt sem áður fannst Lavallée hún ekki geta lifað án kommúnunnar og sneri aftur. Thériault var allt annað en kátur með flóttann og refsaði henni með því að negla hægri hendi hennar við trjástubb og höggva af. Nítján dögum síðar flúði Lavallée aftur og þótti ekkert minna en kraftaverk að hún náði til byggða á lífi.

Gabrielle í dag. Hún sór þess eið að lifa til að segja sögu sína

Svo fór að lögregla réðist til inngöngu árið 1989 þar sem við blasti hrottaleg sjón vannærðra safnaðarmeðlima sem alla vantaði hluta fingra, táa, tanna og jafnvel útlima.

Roch Thériault var dæmdur til lífstíðarfangelsins fyrir morðið á Solange Boilard. Ekki tókst að sanna afgerandi á hann önnur dauðsföll innan kommúnunnar. Thériault lést í fangelsinu árið 2011, líklegast af völdum klefafélaga síns, þótt það væri aldrei fullsannað.

Og það sem er kannski lygilegast af öllu við hryllingssögu Thériault er, að allt fram að dauða hans, hélt lítill hópur safnaðarmeðlima hans trúnað  við hann.

Gabrielle Lavallée náði aftur sambandi við dóttur sína, sem hafði verið tekin af henni 6 ára gömul, og sór þess dýran eið að láta sögu sína verða til vitundarvakningar. Hún skrifaði bók um reynslu sína og heldur fyrirlestra um hættur sértrúarsafnaða og heilaþvottar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“