Botched eru vinsælir raunveruleikaþættir sem hafa verið sýndir á sjónvarpsstöðinni E! síðan árið 2014. Í þáttunum sýna lýtalæknarnir Paul Nassif og Terry Dubrow frá störfum sínum.
Sjöunda þáttaröð er nú í gangi og í fyrsta sinn í sögu þáttanna brotnaði Terry Dubrow niður á fundi með sjúkling.
Sjúklingurinn var Serena, 22 ára söngkona frá Kanada. „Þegar ég var sextán ára þá hóf ég kynleiðréttingarferli mitt og byrjaði að taka hormón. Það getur látið þig virðast vera kvenlegri en gerir ekki allt sem fegrunaraðgerðir geta gert fyrir þig,“ sagði hún í þættinum.
Í gegnum árin hefur Serena farið í aðgerð á brjóstum og nefi, og fengið bótox og fylliefni í andlit. Hún sagðist vonast til að Botched læknarnir gætu hjálpað henni með að laga misheppnaða brjóstaaðgerð og stækka þau í leiðinni.
En það var ekki ástæðan fyrir því að Terry brotnaði niður. Heldur þegar Serena fór að tala um æskuna.
„Ég elska foreldra mína og samband okkar hefur alltaf verið gott. Þeir hafa stutt mig í einu og öllu og ég er svo þakklát fyrir það, því ég á vini sem koma úr allt öðruvísi aðstæðum. Eins og að vera hent út af heimilinu eða sagt að gera ekki það sem þeir eru að gera, og það er ömurlegt,“ sagði hún.
„Ég fékk alltaf stuðning og jákvæða hvatningu. Það er stundum það eina sem maður þarf.“
Á þessum tímapunkti byrjaði Terry að tárast og stuttu seinna var hann kominn í svo mikið uppnám að hann þurfti að yfirgefa herbergið.
„Ég hef aldrei séð þetta áður,“ sagði Paul Nassif við Serenu. „Ég hef aldrei séð hann brotna svona niður.“
Terry útskýrði af hverju hann hefði farið í uppnám.
„Ég á þrjár dætur og einn son, og ég tengdi bara virkilega við sögu hennar því ég hef svo miklar áhyggjur af öllu tengdu börnunum mínum. Og þetta minnir mig bara á hversu mikilvægt það er að vera stuðningsríkt foreldri, og þegar þú ert það ekki hversu erfitt það er fyrir barnið þitt.“
Terry kom aftur inn í herbergið til Paul og Serenu og hélt ráðgjöfin áfram eins og ekkert hefði í skorist.
Lýtalæknarnir komust að þeirri niðurstöðu að það væri of hættulegt fyrir Serenu að fá stærri brjóstapúða og hún endaði með að leggjast ekki undir hnífinn í þættinum.