Entertainment Weekly birti í gær fyrsta sýnishorn úr kvikmyndinni Against the Ice sem Baltasar Kormákur og RVK Studios framleiða en hún verður frumsýnd 2.mars á Netflix.
Baltasar Kormákur og RVK Studios framleiddu myndina fyrir Netflix í samstarfi við danska leikarann Nikolaj Coster-Waldau, sem margir kannast við úr Game of Thrones, og var hún að stærstum hluta unnin hér á landi. Myndin hefur nú verið valin inn á kvikmyndahátíðina í Berlín, sem fram fer í febrúar, og verður frumsýnd þar í í flokknum Berlinale Special – Gala Screening.
Against the Ice er byggð á sannsögulegum atburðum; ótrúlegri þrekraun tveggja pólfara sem urðu innlyksa á Grænlandi um langt skeið snemma á tuttugustu öldinni. Með aðalhlutverk fara Nikolaj Coster-Waldau og Joe Cole (Peaky Blinders, Gangs of London) og með önnur hlutverk fara meðal annars Charles Dance (Game of Thrones), Heiða Rún Sigurðardóttir (Heida Reed) og Gísli Örn Garðarsson.