Myndband þar sem má heyra samtal mæðgna, auk lýsinga dótturinnar á andlegu ofbeldi, hefur vakið mikinn óhug á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Í myndbandinu má heyra móðurina segja dóttur sinni að hún sé of feit og þurfi að grenna sig. Hlaðvarpsþátturinn Eigin Konur deildi myndbandinu á Instagram og birti stuttu seinna viðtal við konuna á Patreon-síðu þáttarins. Konan, sem er 24 ára í dag, er nafnlaus í viðtalinu og er blörrað yfir andlit hennar.
Í þættinum segir hún frá andlega ofbeldinu sem móðir hennar beitti hana alla æsku og hvernig var að alast upp með móður sem er með sjálfhverfa persónuleikaröskun (e. narcissist). Einstaklingur með sjálfhverfa persónuleikaröskun er meðal annars með upphafna hugmynd um sjálfan sig, upplifir sig einstakan og æðri öðrum, telur sig eiga meiri rétt en aðrir og skortir samkennd. Fleiri þættir einkenna narsissista og skrifaði Sigríður Björk Þormar ítarlega grein um sjálfsdýrkendur fyrir Stundina sem má lesa hér.
Ímynd skipti móður hennar miklu máli og einu hrósin sem hún fékk var þegar hún léttist.
„Þetta snerist svo mikið um peninga og útlit […] Þetta er svo mikið leikrit,“ segir hún.
Konan rifjar upp þegar hún var nýkomin úr aðgerð og mátti ekki æfa. Fyrir aðgerðina var hún vön að æfa tvisvar til þrisvar á dag. „Ég bara lá upp í rúmi að horfa á þætti. Þá kom hún inn í herbergi til mín að ég væri svo feit og þyrfti að hreyfa mig og ég sagði við hana að ég væri í aðgerð og mætti það ekki,“ segir hún. Umrætt atvik er samtalið í myndbandinu sem má sjá hér að neðan.
Konan þróaði með sér óheilbrigt samband við mat og seinna átröskun, hún æfði óhóflega mikið og var með mjög slæma líkamsímynd. „Ég var farin að æla öllu því litla sem ég borðaði. Ég var orðin mjög grönn en þá fékk ég hrós [frá henni]. En mér hefur sjaldan liðið jafn illa með mig sjálfa,“ segir hún.
Konan spilar upptöku fyrir Eddu í þættinum þar sem móðir hennar er að öskra á henni eftir að hún sagði henni að hún væri að glíma við lotugræðgi (e. bulimia). Í lok upptökunnar má heyra stúlkuna gráta og mömmu hennar öskra á hana: „Ég þoli þig ekki.“
Brot úr upptökunni má sjá hér að neðan.
Í þættinum lýsir konan augnablikinu, sem hún segist aldrei muna gleyma, þegar móðir hennar sagði að það „væri betra fyrir alla ef þú myndir bara deyja.“
„Ég mun aldrei gleyma þessu. Ég man hvar ég stóð, ég man nákvæmlega hvar við vorum. Hún var að reykja við svalahurðina og ég stóð á móti henni, við vorum eitthvað búnar að vera að rífast. Hún var öskrandi á mig og ég sagði við hana: „Hvað viltu að ég geri, hvað á ég að gera?“ Og hún svaraði: „Það væri kannski bara best fyrir alla að þú myndir bara deyja.“ Og þarna var ég ekki orðin sjálfráða.“
Hún segist hafa brotnað niður í kjölfarið. Mamma hennar henti henni út á náttfötunum og hún hringdi í pabba sinn til að sækja sig.
„Pabbi talaði við barnaverndarnefnd, ég vissi ekki af því […] Dagurinn sem bréfið kom inn um lúguna var hræðilegur. Mamma brjálaðist út í mig, öskraði og sagði við mig að ég skuli bara hringja á barnaverndarnefnd og segja að þetta hafði ekki gerst. Ég bjó hjá henni og var háð henni, ég gerði það sem hún sagði og hún stóð yfir mér allan tímann. Barnaverndarnefnd skipti sér aldrei [aftur að okkur],“ segir hún.
„Ég hefði alveg viljað að þau hefðu ekki tekið mark á mér þegar ég sagði að þetta væri ekki satt. Hún stóð yfir mér. Ég gat ekkert annað gert.“
Konan var sjö ára þegar foreldrar hennar skilja. Eftir það bjó hún með móður sinni og systur, sem var þá sextán ára og flutti fljótlega út. Þá var það bara hún og mamma hennar.
„Annað hvort var hún ótrúlega góð, svo yndisleg og góð. Eða hún var bara akkúrat öfugt. Það var enginn millivegur, þetta var ekkert eðlilegt hversdagslíf,“ segir hún.
Þegar hún var tólf ára fór hún með pabba sínum í Kringluna eftir skólann. Einhver hefur séð til þeirra því þegar pabbi hennar skutlaði henni til móður sinnar var búið að skipta um sílinderinn í útihurðinni og hún komst ekki inn. Hún þurfti að hringja aftur í pabba sinn til að koma og sækja sig. Eftir þetta þurfti hún að stelast til að hitta pabba sinn, sem varð auðveldara eftir að hún fékk bílpróf en viðurkennir að vera sífellt með það á tilfinningunni að þú sért að gera eitthvað rangt, eitthvað sem má ekki, var þess valdandi að hún hefur glímt við mikinn kvíða frá barnsaldri.
Konan segir að hún muni aldrei skilja móður sína, sérstaklega núna þegar hún er sjálf foreldri.
„Ég mun aldrei skilja þetta. Ég horfi á barnið mitt og hugsa „ég mun aldrei geta verið vond við hann.“ Um leið og maður verður foreldri vill maður gera allt til að vernda barnið sitt,“ segir hún.
Myndböndin og viðtalið hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og hefur hún fengið mikinn stuðning frá netverjum sem hafa lýst andstyggð sinni á hegðun móðurinnar og fordæmt ofbeldið.
Þáttinn má horfa á í heild sinni á Patreon-síðu Eigin Kvenna.