Áhrifavaldurinn og skemmistaðaeigandinn Birgitta Líf Björnsdóttir nýtur nú áramótana á Tenerife. Eins og gefur að skilja saknar hún ástvina sinna á Íslandi og þá sérstaklega hundsins Bellu sem er einn hennar nánasti vinur. Þannig vill til að Bella fagnar þriggja ára afmæli sínu á gamlársdag og því tók Birgitta Líf sig til og birta myndaröð á Instagram af Bellu sinni í tilefni dagsins. Alls fylgja rúmlega 26 þúsund manns Birgittu Líf og því er um að ræða einn vinsælasta Instagram-reikning landsins.
Hún endaði svo myndaröðina á að birta svakalegt myndband úr öryggismyndavél af atviki sem átti sér stað í apríl á þessu ári.
„Enda þetta á myndbandi frá árinu þar sem litla skrímslið hljóp út á Þingvallavatn og ísinn brotnaði undan henni. Ég fæ enn í magann að horfa á þetta og vil ekki hugsa til þess hvernig hefði farið ef ég hefði ekki verið með augun á henni,“ skrifar Birgitta Líf.
Þá varr Birgitta Líf stödd ásamt Bellu og öðrum vinkonum sínum í sumarbústað fjölskyldu sinnar við Þingvallavatn. Um kvöldið var Bella á vappi við vatnið en rak þá augun í fugla úti á ísilögðu vatninu. Hundurinn rauk þá út á ísinn en svo illa vildi til að ísinn var ekki nógu traustur og brotnaði undan Bellu sem féll í jökulkalt vatnið. Þá rauk Birgitta Líf til líkt og Mitch Buchannon forðum daga.
„Ég hugsaði ekkert og hljóp bara af stað. Auðvitað gat ég ekki hlaupið ofan á ísnum eins og hún,“ skrifaði samfélagsmiðlastjarnan á Instagram-síðu sína og á myndbandinu sést hvernig hún hrynur í gegnum ísinn um leið og hún stígur út á hann.
Sem betur fer gat þó Bella haldið sér á floti og Birgitta Líf barðist áfram í gegnum ísinn að tíkinni og náði henni í fangið. Eins og áður segir voru vinkonur Birgittu með í för og lögðu hönd á plóg. „Bestu vinkonur í heimi voru líka fljótar að bregðast við og tóku á móti okkur ísköldum og blautum.“
Birgitta Líf segir síðan í lok myndbandsins að hún hafi verið í miklu áfalli eftir atvikið. „Ég hágrét síðan allt kvöldið í sjokki en Bella var hress. Þakka guði fyrir að ekki fór verr,“ skrifar samfélagsmiðlastjarnan þakklát úr sólinni á Tenerife.