Það getur verið pínlegt að rekast á fyrrverandi. Hvað þá þegar fyrrverandi tilkynnti um sambandsslitin fyrir framan milljónir manna.
Spólum aðeins til baka. Leikkonan Minnie Driver kynntist leikaranum og handritshöfundinum Matt Damon í áheyrnarprufum fyrir kvikmyndina The Good Will Hunting. Þau byrjuðu saman og voru eitt heitasta par Hollywood á sínum tíma. Þau voru bæði tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndinni. Matt Damon vann Óskarsverðlaun ásamt Ben Affleck fyrir besta handritið.
Þau voru búin að vera saman í rúmt ár þegar Matt fór í alræmt viðtal til Opruh í „The Oprah Winfrey Show“ árið 1997.
Matt var þá 28 ára og Minnie 27 ára. Aðspurður í viðtalinu um sambandsstöðu sína sagðist hann vera einhleypur. Það voru fréttir fyrir Minnie sem kallaði hegðun hans „stórkostlega óviðeigandi“ á sínum tíma. Það er óhætt að segja að fjölmiðlar hafi h aft mikinn áhuga á sambandsslitum þeirra.
Í hlaðvarpsþættinum Keep It! segist Minnie hafa rekist á Matt síðasta sumar, tuttugu árum eftir að þau töluðu saman síðast.
„Ég rakst á Matt Damon á ströndinni og ég hafði ekki talað við hann síðan við tókum upp [Good Will Hunting], í alvöru,“ segir Minnie.
„Þetta var síðasta sumar og það var reyndar mjög indælt að hitta hann og börnin hans og eiginkonu hans. Það var smá svona miðaldra fílingur í þessu, sem var traustvekjandi.“
Minnie segir að það hefði verið gott að eiga „miðaldra samtal um veðrið og þess háttar.“