Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW Air hefur sett þrjátíu lóðir í Hvammsvík á sölu. Frá þessu er greint á Mbl.is.
Hvammsvík er staðsett í Hvalfirðinum, en þar hefur Skúli búið ásamt unnustu sinni, Grímu Björg Thorarensen, um nokkurt skeið. Hann segist vera heillaður af staðnum, en það sé náttúran og kyrrðin sem sjái til þess.
„Það sem heillaði mig strax við Hvammsvíkina var stórbrotin náttúran og kyrrðin. Hvalfjörðurinn „gleymdist“ svolítið eftir að göngin komu en er algjör perla og útivistarparadís aðeins 45mín frá Reykjavik,“
„Við höfum verið þarna mjög mikið undanfarin ár allt árið í kring og allir árstímar hafa sinn sjarma. Norðurljósin í Hvalfirðinum geta verið magnaðir og fátt betra en að vera í náttúrulauginni og fylgjast með flæða yfir svæðið. Það er ekkert tiltökumál að skjótast í bæinn og við sjáum fyrir okkur að búa þarna meir eða minna yfir sumartímann,“ er haft eftir Skúla.
Lóðirnar sem Skúli hefur sett á sölu eru eignarlóðir, sem eru vestarlega á jörðinni í nokkura kílómetra fjarlægð frá húsunum sem nú eru þar staðsett. Þá segist hann vilja byggja upp þjónustu á svæðinu líkt og gistiaðstöðu, sjóböð og veitingastað.
Einnig kemur fram að nú þegar sé búið að taka frá átta lóðir á svæðinu, en hægt er að skoða þær hér. Auk þess má sjá stutt myndband af Hvammsvík hér fyrir neðan: