Endaraðhús í Dalselinu er mest skoðaða eignin á fasteignavef Vísis í dag og er ágæt ástæða fyrir því, fermetraverðið á eigninni er með því lægsta sem sést hefur á fasteignamarkaðnum undanfarið.
Eignin er 233,8 fermetrar að stærð og er sett verð á hana 55.900.000 krónur, fermetrinn kostar því um 239 þúsund krónur. Er það um það bil þrefalt ódýrara en yfirleitt gengur og gerist á höfuðborgarsvæðinu.
Það er þó ágæt ástæða fyrir þessu lága verði en samkvæmt lýsingu á eigninni þarfnast hún standsetningar vegna lekavandamála og allsherjar yfirhalningu. Í eigninni má telja 6 herbergi, þar með eru talin 2 baðherbergi. Eignin er á þremur hæðum og með henni fylgir stæði í lokaðri bílageymslu.
Landsbankinn er eigandi fasteignarinnar en bankinn eignaðist hana í skuldaskilum og hefur aldrei haft starfsemi eða afnot af eigninni. Fram kemur í lýsingunni á eigninni að eigandinn þekki eigninna ekki umfram það sem fram kemur í opinberum gögnum.
„Því leggur seljandi ríka áherslu á að sérstakrar árvekni sé gætt við skoðun og úttekt á eigninni og veitir seljandi eða fasteignasali allan nauðsynlegan aðgang til þess. Eignin selst í því ástandi sem hún er við skoðun.“
DV hafði samband við löggiltan fasteignasala hjá Fasteignasölunni Garður en hún er ein af nokkrum fasteignasölum sem er með eignina í sölu hjá sér. Sá sagði að ástæðan fyrir þessu ódýra fermetraverði væri einmitt sú að það þarf að taka hana algjörlega í gegn. „Þetta er bara mjög ódýrt enda er hún mjög illa farin af leka og myglu,“ segir fasteignasalinn í samtali við blaðamann.
„Það getur örugglega einhver grætt á þessu en þetta er náttúrulega fljótt að telja. Fólk sem er með verkvit og er með gott fólk í kringum sig getur tekið þetta og gert eitthvað gott úr þessu, þetta er komið á það stig. En auðvitað er þetta líka hagstætt verð og það er alveg hægt að gera eitthvað út úr þessu.“
Hér fyrir neðan má sjá myndir af eigninni: