Á fasteignavef Vísis má finna ansi óvenjulega auglýsingu fyrir eign sem er til sölu. Eignin er nokkurs konar hulduhús þar sem hvorki má sjá heimilisfang né myndir af eigninni í auglýsingunni. Um er að ræða 426 fermetra glæsihýsi í Garðabænum með fasteignamat upp á 141.200.000 krónur. Þá er ekkert ásett verð á eignina heldur er óskað eftir tilboðum.
Svona er eigninni sem um ræðir lýst á fasteignavefnum:
„Einstakt einbýli í Garðabæ. Húsið skiptist í anddyri, 4-5 barnaherbergi, hjónaherbergi með fata og baðherbergi inn af, borðstofa, rúmgóð stofa með laufskála/koníaksstofu inn af, eldhús, þvottahús, gangur, sjónvarpshol, arinstofa/skrifstofa, bílskúr. Í garði er baðhús með tengingu við garðinn með heitum potti, gufubaði og salerni. Lóðin er stór með stórum afgirtum og skjólssælum veröndum, geymsluskúr og baðhúsi ásamt leiktækjum fyrir börn. Hússtjórnunar kerfi er í húsinu ásamt fullkomnu öryggiskerfi. Húsið er upprunalega byggt 1990 en hefur verið endurnýjað mikið seinustu tvö ár með vönduðum gólfefnum og innréttingum. Einstök eign á fallegum stað í Garðabænum.“
Mannlíf fjallaði um eignina en samkvæmt heimildum þeirra er það Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og Alvotech, sem á hulduhúsið sem verið er að selja. Heimildirnar herma að Róbert vilji fá 400 milljónir fyrir húsið en hann keypti það fyrir 170 milljónir fyrir tæpum þremur árum síðan.
Þau sem hafa fylgst með húsnæðismarkaðnum vita að það er barist um nánast allar eignir sem þangað detta inn, sérstaklega þær sem eru í ódýrari kantinum. Ljóst er að ekki er verið að berjast jafn hart um eign Róberts en húsið hefur verið á sölu síðan þann 6. júlí síðastliðinn. Þó er einhver áhugi á eigninni en nokkrum „vel völdum efnuðum einstaklingum“ hefur verið boðið að skoða húsið samkvæmt heimildum Mannlífs.