Jake Gyllenhaal og Vanessa Kirby hafa yfirgefið Ísland eftir að hafa dvalið hér til að undirbúa tökur á kvikmyndinni Suddenly og eflaust njóta þess sem að landið hefur upp á að bjóða. Stefnt er að því að tökur fari að mestu leyti fram hér á landi og hefjast þær í haust. Íslenska framleiðslufyrirtækið Truenorth er meðal framleiðanda kvikmyndarinnar.
Samkvæmt heimildum DV sáust þau Gyllenhaal og Kibry á Keflavíkurflugvelli í dag og voru að fljúga á brott. Íslendingar eru orðnir nokkuð sjóaðir í að taka á móti heimsfrægum Hollywood-stjörnum en það vekur þó nokkra furðu að slíkar stórstjörnu komist til og frá landi í hefðbundnu farþegaflugi án þess nánast að nokkur verði þeirra var. Til þess þurfa heimsþekktar stórstjörnur að koma til landsins með einkaflugvélum.
Jake Gyllenhaal er þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum á borð við Brokeback Mountain, Donnie Darko, Nightcrawler og Everest, kvikmynd Baltasars Kormáks, en Gyllenhaal var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í Brokeback Mountain.
Vanessa Kirby hefur leikið í kvikmyndum á borð við Mission Impossible, Fast & Furious og einnig Everest. Hún hefur einnig verið tilnefnd til Óskarsverðlauna og var það fyrir kvikmyndina Pieces of a Woman.