Brotist hefur verið inn á Instagram-reikning Kristínar Pétursdóttur, áhrifavalds og leikkonu. Aðgangurinn hennar er nú óaðgengilegur, en hún naut mikilla vinsælda á miðlinum.
Í samtali við DV segir Kristín að hún hafi vaknað við ófagra sjón: „Ég vaknaði bara og kíkti í símann og þá sá ég allt í einu að Instagram-reikningurinn minn var disabled,“ segir hún og bætir við að henni hafi staðið til boða að tilkynna málið, sem hún gerði.
Svo virðist sem þessir sömu óprúttnu aðilar hafi brotist inn og lokað reikningum hjá öðrum íslenskum konum. Kristín segir að tölvuþrjótarnir hafi reynt að fjárkúga þær, en hún hafi sjálf ekki lent í því enn sem komið er.
Sá sem stjórnar nú aðgangi hennar býr nú til nýja hópa í sífellu og býður mörgum notendum að vera í þeim. Kristín biðlar til þeirra sem er boðið í þessa hópa að tilkynna aðganginn.
„Ég er bara í rusli yfir þessu,“ segir Kristín, sem upplifir Instagram sem stóran hluta af lífi sínu. „Það er mjög óþægilegt að einhver sé með hendurnar í mínu persónulega lífi,“ Hún bendir á að á reikningi hennar megi finna mikilvægar minningar, líkt og ljósmyndir eða skilaboð og samskipti. Þær gætu nú verið glataðar.
Svo virðist vera sem tölvuþrjótarnir séu erlendir, en með því að nota þýðingarforrit hefur Kristín komist að því að þeir tala tyrknesku. Hún er ekki viss um hvert markmiðið er með því að brjótast inn á reikningana, en þeir virðast gorta sig af verkum sínum á Instagram. Þó býst hún við því að þeir muni reyna að fjárkúga hana, þó það hafi ekki gerst enn þá.
Kristín og hinar konunnar vinna nú saman að því að ná aftur stjórn á aðgöngum sínum. Hún segir að fólk sem viti hvernig eigi að koma sér úr klandri sem þessu megi endilega hafa samband til að hjálpa henni, en hún hefur nú þegar rætt við fólk sem hefur lent í svipuðum aðstæðum.