Fyrr í dag greindi DV frá því að Kristín Pétursdóttir, leikkona og áhrifavaldur, hafi orðið fyrir barðinu á þrjóti sem hakkaði Instagram-síðuna hennar. Vísir hefur nú greint frá því að fleiri íslenskar konur hafi lent í því sama og Kristín.
„Ég vaknaði bara og kíkti í símann og þá sá ég allt í einu að Instagram-reikningurinn minn var disabled,“ sagði Kristín í samtali við DV um málið fyrr í dag. Henni stóð til boða að tilkynna málið, sem hún gerði.
Það virðist vera sem þessir sömu óprúttnu aðilar hafi brotist inn og lokað reikningum hjá öðrum íslenskum konum. Kristín segir að tölvuþrjótarnir hafi reynt að fjárkúga þær, en hún hafi sjálf ekki lent í því enn sem komið er.
Birgitta Líf Björnsdóttir, athafnakona, áhrifavaldur og einn af eigendum Bankastræti Club, er ein af þeim sem lenti einnig í hakkaranum. „Þetta er svolítið óþægilegt. En ég er alltaf jákvæð og ég er bara að reyna að leysa þetta,“ segir Birgitta um málið í samtali við Vísi en Instagram-síða henna lokaðist fyrir nokkrum klukkustundum síðan.
„Ég var hrædd – það var eins og hann var að targeta mig“
Svo virðist vera sem um herferð sé að ræða því tvær aðrar ungar konur lentu í því sama og tjáðu sig um málið við Vísi. Það eru vinkonurnar Sigurbjörg Birta Pétursdóttir og Kristín Amalía Sigurþórsdóttir. Instagram-síða Sigurbjargar var tímabundið tekin niður en birtist svo aftur. Maðurinn sem stjórnaði síðunni hennar reyndi að hafa samband við kærasta hennar, þá ræddi Sigurbjörg við hann og bað hann um að skila síðunni.
„Ég var hrædd – það var eins og hann var að targeta mig. Ég fór að spyrja hann af hverju hann væri að gera þetta og hann svaraði: Just for fun.“
Þegar Kristín Amalía heyrði í Sigurbjörgu og komst að því hvað hafði gerst ákvað hún strax að breyta lykilorði sínu á Instagram-síðu sinni. Allt kom þó fyrir ekkert því hakkarinn komst engu að síður inn og eyddi síðunni hennar.