Alþingmaðurinn Brynjar Níelsson var gestur Sigmundar Ernis Rúnarssonar í viðtali í Fréttavaktinni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld. Segja má að Brynjar hafi upplifað heimsóknina á jákvæðan hátt enda var hann varla kominn út úr húsnæði miðilins þegar hann var búinn að skrifa stutta færslu um lífsreynsluna.
„Lykilstarfsmaður á hverri sjónvarpsstöð er sminkan. Venjulega fórna þær höndum þegar mig ber að garði og telja sig lítið geta gert til að bjarga útliti mínu. Nú bar svo óvenjulega við, þegar ég kom kom í sjónvarpsviðtal áðan, að sminkan var hin jákvæðasta. Fékk ég alls konar hrós, líka fyrir útlit, meðan hún spaslaði fumlaust í dýpstu gjár í andliti mínu. Ég var eins og bráðið smjör í höndunum á henni sem varð til þess að ég þvældi tóma vitleysu í viðtalinu,“ skrifaði Brynjar
Sminkan sem um ræðir heitir Maríanna Pálsdóttir en hún tekur alúðlega á móti fjölmörgum gestum Hringbrautar á hverjum degi og gerir þá klára fyrir útsendingu. „Ég reyni alltaf að draga það fallegasta fram í fólki, það er mitt starf. Ég vil að gestum Hringbrautar líði vel þegar þeir fara í útsendinguna. Andrúmsloftið og stemningin á vinnustaðnum og allt þetta fólk sem kemur til mín í stólinn, bæði karlar og konur, gerir dagana ótrúlega skemmtilega,“ sagði Maríanna í viðtali um förðun og starf sitt í viðtali við Fréttablaðið á dögunum.
Maríanna er greinilega með húmorinn í lagi því hún brást við frásögn Brynjars með eftirfarandi svari á Facebook-síðu þingmannsins: „Það hefur lengi verið draumur minn að snerta þetta fés, það hefur ræst og get ég því haldið áfram með lífið.“
Maríanna undirbýr opnun á eigin snyrtistofu og verslun, MP Studio, síðar í sumar og verður að teljast líklegt að hún sé búin að tryggja sér sinn fyrsta fastakúnna.
Brynjar er duglegur að hæðast að útliti sínu á eigin Facebook-síðu og telur það iðulega bágborið. Gústaf Níelsson, eldri bróðir hans, er því yfirleitt sammála. Gústaf virtist þó ánægður með handverk Maríönnu í viðtalinu. „Það er nú ekkert léttaverk að sparsla í svona steintröll. Okkar maður er hins vegar rennisléttur líkt og Mjallhvít.“