Ummæli sem Magnús Scheving, líkamsræktarfrömuður og rithöfundur, viðhafði í nýjum Podcast-þætti Begga Ólafs, hafa vakið mikla athygli. Þar segir hann að það að fá ekki kynlíf hjá maka sínum geti verið ein tegund af ofbeldi.
Þáttinn má sjá í spilara undir fréttinni en Fréttablaðið hefur endursagt ummælin.
Magnús segir ofbeldi eiga sér stað á mörgum sviðum lífsins og kynsvelti sé ein birtingarmynd þess. „Ofbeldi getur alveg verið þannig að þú ert giftur og viðkomandi fær ekki kynlíf hjá hinum, það getur verið ofbeldi.“
Magnús víkur að vændishúsum og spyr hvers vegna það sé svona mikil eftirspurn eftir þeim. „Það eru hóruhús úti um allt, þetta eru ekki hóruhús fyrir konur, þetta eru hóruhús fyrir karla. Er hugsanlegur möguleiki að karlar fái ekki nógu mikið kynlíf?“ spyr hann. Þá segir hann ennfremur:
„Er það möguleiki? Af hverju er þessi eftirspurn? Eru karlar bara alltaf graðir, bara endalaust, og erum við þá komin með lausnina á því af hverju þeir haga sér eins og fávitar? Eigum við þá að gelda þá eða hvað eigum við að gera við þá, sprauta þá niður eða hvað er málið?“
Edda Falak, íþróttaþjálfari og áhrifavaldur, er hneyksluð á þessum ummælum Magnúsar, en hún fer yfir málið á Twitter:
„Magnús Scheving talar um í nýjast podcast þætti Begga að það sé ofbeldi að fá ekki kynlíf frá maka sínum. Hann veltir því líka fyrir sér afhverju það séu til hóruhús og spyr síðan “er það kannski útaf karlar fá ekki nóg að ríða?” HVAÐ var ég að hlusta á?“
Edda segir það ennfremur fráleitt að skilgreina kynlífsskort sem ofbeldi: Ef þú ert ekki hamingjusamur í sambandinu þínu, ræddu það við makann og endaðu bara sambandið! Það að einhver vilji ekki sofa hjá þér er ekki ofbeldi.“
Magnús Scheving talar um í nýjast podcast þætti Begga að það sé ofbeldi að fá ekki kynlíf frá maka sínum. Hann veltir því líka fyrir sér afhverju það séu til hóruhús og spyr síðan “er það kannski útaf karlar fá ekki nóg að ríða?”
HVAÐ var ég að hlusta á?
— Edda Falak (@eddafalak) June 10, 2021