Fyrrum sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg var auglýst til sölu með pompi og prakt í vikunni. Um er að ræða fasteignir við Laufásveg 19-23 sem og Þingholtsstræti 34 sem var hinn eiginlegi sendiherrabústaður. Fasteignasalan Croisette Real Estate Partner sér um sölumeðferðina en samkvæmt auglýsingunni eru um að ræða fjórar byggingar með fallegum sameiginlegum garði í miðjunni en fasteignirnar alls rúmlega 2.000 fermetrar að stærð.
Bandaríkjamenn starfræktu sendiráð sitt í húsnæðinu í tæp 80 ár. Þangað flutti sendiráðið árið 1941 og var starfsemin starfrækt þar allt til ársins 2020 þegar hún flutti í nýtt víggirt húsnæði við Engjateig sem kostaði litla 6,5 milljarða króna. Á dögunum fjárfesti síðan bandaríska ríkið í glæsilegu einbýlishúsi við Sólvallagötu 14 sem verður notað sem nýr sendiherrabústaður. Var kaupverð eignarinnar 450 milljónir króna.
Í fréttatilkynningu frá söluaðili eignarinnar, Croisette, kemur fram að fyrirtækið sé fyrsta alþjóðlega fasteignaráðgjafafyrirtækið á Íslandi en fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi skömmu fyrir jól. „Þetta því stórt og mikilvægt verkefni sem fyrirtækið tryggði sér gegnum alþjóðlegt tengslanet sitt, nánar tiltekið gegnum samstarf við Cushman & Wakefield í London,“ segir í fréttatilkynningunni.
„Við erum gríðarlega stolt af því að vera valin að vinna fyrir bandaríska ríkið með að aðstoða þá í að selja gamla sendiráðið í Þingholtunum. Sýnir fram á mikilvægi alþjóðlegs tengslanets og hvað upplýsingagjöf til erlendra kúnna er mikilvægur þáttur í að auka gegnsæi á íslenskum fasteignamarkaði“, segir Styrmir Bjartur Karlsson, framkvæmdastjóri Croisette á Íslandi.
Hér að neðan má sjá nokkrar vel valdar myndir en fleiri slíkar eru aðgengilegar hér.