Helena Jónsdóttir, dans- og kvikmyndagerðarkona, opnar sig í einlægu forsíðuviðtali Vikunnar um þungbæran missi. Hún missti eiginmann sinn, Þorvald Þorsteinsson, í febrúar árið 2013.
Helena og Þorvaldur bjuggu í Antwerpen en Helena var að vinna á Íslandi þegar hann lést. Hún segir að þau hjónin hafi talað saman símleiðis, oft mörgum sinnum á dag, þegar þau voru stödd í sitthvoru landinu. Þegar hann svaraði ekki í símann þetta kvöld fékk hún ónotatilfinningu.
„Ég hringdi í góðan vin okkar, Arthur, sem var að vinna á kaffihúsi sem er á torginu við húsið okkar í Antwerpen, og bað hann um að athuga hvort hann sæi kveikt ljós í íbúðinni okkar. Hann kíkti og sagði að það væri ljós í stofunni, þannig ég vissi að Þorvaldur væri heima. Vinur okkar hringdi dyrabjöllunni en Þorvaldur kom ekki til dyra. Ég hringdi þá í vinkonu okkar sem geymdi fyrir okkur varalykil og bað hana og Arthur um að fara og athuga hvort það væri ekki örugglega allt í lagi. Það leið og beið og mig grunaði að eitthvað væri að. Svo hringdi Arthur og spurði hvort ég væri ein eða með einhverjum sem ég treysti… Þannig byrjaði martröðin,“ segir Helena í forsíðuviðtali Vikunnar.
Andlát Þorvaldar var slys. Sorgarferlið reyndist Helenu mjög erfitt og segir hún að það sé mikilvægt að deila sinni reynslu til að varpa ljósi á umræðuna.
„Maður lærir að lifa með sorginni, brynja sig og smátt og smátt að loka sárinu. En ef maður tekur ekki á sorgarferlinu kemur það niður á líkamanum og ég var lögð inn á spítala oftar en einu sinni,“ segir hún.
Helena stendur fyrir Physical Cinema hreyfimynda hátíð sem fer af stað um helgina í miðbæ Reykjavíkur. Þar sem videoverkum verður varpað víðsvegar um bæinn dagana 10-17. Apríl.