Undanfarið hefur myndband af nöktum manni við Geldingadalsgos dreifst eins og eldur í á samfélagsmiðlum. Nakti maðurinn er enginn annar en leiðsögumaðurinn Sveinn Snorri Sighvatsson.
Sveinn segir í samtali við DV að þetta hafi bara gerst allt í einu. „Þetta var svolítið svona spontaneous,“ segir Sveinn. „Málið var það að það var verið að auglýsa þessi gleraugu sem ég er með á nefinu,“ segir hann svo en þó var ekki um samstarf að ræða. Gleraugun sem um ræðir eru frá Pit Viper en félagi ljósmyndarans og félagi félagans stofnaðu fyrirtækið árið 2012. „Þeir taka sig ekki of alvarlega,“ segir ljósmyndarinn um félagana í Pit Viper.
„Í raun og veru ekki sko, ég sagði við Norris Niman, ljósmyndarann, að það væri nú töff að vera með naktar myndir þarna. Þá sagði hann við mig að það væri verið að taka myndir í svona extreme aðstæðum með gleraugun. Ég sagði bara við hann: Vertu bara tilbúinn með myndavélina, ég ætla að klæða mig úr. Svo tók ég nokkrar pósur þarna og ég veit ekki hvað, það voru þrjú, fjögur hundruð manns að horfa á þetta í brekkunni.“
Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína að eldgosinu undanfarna daga og því var margt um manninn þegar Sveinn klæddi sig úr fötunum. Hann segir þó að það hafi ekki haft nein áhrif á hann að hafa öll þessi augu á sér. „Þetta er bara stemmari.“
Hér fyrir neðan má sjá nektarmyndirnar sem Norris tók af Sveini við eldgosið. Þá má einnig sjá myndbandið af myndatökunni sem hefur verið í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum. Rétt er að vara þá lesendur við sem eru viðkvæmir fyrir nekt.
Sveinn er ekki bara leiðsögumaður sem klæðir sig úr fötunum við eldgos heldur er hann einnig umsjónarmaður hlaðvarpsins 180 gráður með Svenna. Í hlaðvarpsþáttunum ræðir Sveinn við áhugavert fólk sem á það allt sameiginlegt að hafa snúið lífi sínu í 180 gráður. Í nýjasta þættinum ræðir Sveinn við Helga í Góu.