Drottningin af Smartlandi, Marta María Jónasdóttir, og Páll Winkel fangelsismálastjóri eru að flytja úr Fossvoginum og hafa gert tilboð í glæsilega eign á Álftanesi. Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að um væri að ræða hús í nágrenni við Bessastaði og útsýnið vægast sagt stórfenglegt.
Marta er landsmönnum vel kunnug fyrir góðan smekk á fallegum hlutum en þau Páll hafa verið trúlofuð síðan 2017. DV lék forvitni á að vita hvernig þau eiga saman ef litið er til stjörnumerkjanna.
Marta er í eldmerkinu Hrútnum en Páll er í vatnsmerkinu Krabbanum. Eldur og vatn eru sannarlega andstæður og í slíkum samböndum er oft viðvarandi spenna þar sem alltaf eru nýjar og skemmtilegar áskoranir. Hrútur og Krabbi eru bæði tilfinningarík merki og í parasamböndum gera þau hvort um sig miklar kröfur til makans.
Krabbinn er almennt heimakær en Hrúturinn orkubolti sem vill vera á ferðinni og þarf að passa að stinga Krabbann sinn ekki af. Með skipulagi og tillitssemi á þetta að geta verið langt og líflegt samband.
Hrútur
23. mars 1977
Krabbi
10. júlí 1973