Kvikmyndagerðarmaðurinn og grínistinn Sigurjón Kjartansson hefur sett hús sitt á Selfossi á sölu. Um er að ræða einbýlishús með torfþaki í burstabæjarstíl, en það er teiknað af Vífli Magnússyni. Mbl.is greinir frá þessu.
Á fasteignavef Mbl.is segir að húsið falli einstaklega vel inn í fallegt landslag sem umkringi húsið, en það það stendur við Helliskóg, og er ekki langt frá gönguleiðum um skóginn og Ölfusá.
Eignarlóðin er 624 fermetrar, en húsið sjálft er 161 fermetri. Það er á tveimur hæðum og Í því eru nokkur svefnherbergi, tvö baðherbergi, tvær stofur, svalir, tvær upphitaðar geymslur og ein óupphituð.
Á myndum með fasteignaauglýsingunni má sjá meira. Til að mynda er hænsnahús í garðinum, og hringstigi í húsinu. Þá má sjá hvernig húsið er innréttað en í því er til að mynda stytta af Venus, mörg Búddhalíkön, og svokölluð gong.