„Þegar Bubbi Morthens slúttaði áðan sýningunni á Níu lífum í Borgarleikhúsinu, þá stóð ég í salnum, klappaði saman höndunum með lokalaginu eins og allir hinir og grét. Ég reyndi að láta ekki á neinu bera en ég grét samt.“
Svona hefst færsla sem rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson ritar á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Í færslunni útskýrir Illugi hvers vegna hann var svona hrærður eftir sýninguna.
„Bubbi hefur fylgt mér eins og svo mörgum öðrum alla ævina, frá því ég sá hann fyrst þegar ég var tvítugur á kreisí tónleikum með Utangarðsmönnum í Gamla bíói og gegnum ótal tónleika á Borginni og svo gegnum fullorðinsárin og nú stóð ég þarna á sjötugsaldrinum og grét. Fjárans maðurinn!“
Illugi segir að stundum hafi Bubbi gengið fram af sér „með einhverjum bjánaskap eða vitleysu“ en á endanum hafi Bubbi þó alltaf náð taktinum í augum Illuga sem og sínum eigin. „Og ég grét yfir ævi hans og gleði og sorgum og líka yfir minni eigin gleði og sorgum, því þrátt fyrir svo margt sem á dagana hafði drifið, þá stóðum við þarna báðir eftir allt saman, hann söng og ég grét.“
Ljóst er að Illugi hafði afar gaman að sýningunni en hann hrósar henni í hástert í færslunni. „En mikið var þetta skemmtileg sýning. Ég dáist að Ólafi Agli fyrir leikgerðina, það var allt þarna sem þurfti að vera og svo heiðarlega samansett, það fallega, ljóta, subbulega, fyndna, ömurlega, bæði hið fjöruga og niðurdrepandi. Og leikstjórn Ólafs Egils var líka frábær og öll vinna samstarfsmanna hans sama marki brennd: sprúðlandi fjör og heilmikil hugkvæmni en allt líka passlega ófágað og gróft,“ segir hann.
„Ég þarf ekkert að lýsa sýningunni, við vitum öll hvað þarna er á ferðinni, margir Bubbar og hver öðrum fínni: Björn Stefánsson og Sólveig Arnarsdóttir voru „mínir Bubbar“ Utangarðsmanna- og Egó-áranna og komust bæði furðulega nærri því að ná í páerið á Borginni í gamla daga. Og hljómsveitin var frábær.“
Þrátt fyrir að Illugi þekki Bubba eins og flestir aðrir Íslendingar þá kom eitt honum á óvart á sýningunni. „Eitt kom mér á óvart, þegar Ester Talía Casey náði þeirri tvíræðni í Fallega daga sem mér hefur alltaf þótt Bubba sjálfan skorta, og svo söng hún reyndar líka Talað við gluggann þannig að gæsahúðin fór á flakk,“ segir hann.
„Sama gerðist þegar Aron Már og Rakel sungu Rómeó og Júlíu. Ég hafði heyrt það í útvarpinu og þótt frekar lítið til um en þarna nísti Rakel alveg inn að beini í síðustu versunum. Ég verð að hætta áður en ég fer að telja alla upp, en hugrekki litla Bubba að standa þarna í þessu havaríi og syngja svona vel, það var meira en að segja það.“
Að lokum hvetur Illugi fólk til að fara á sýninguna, það er að segja ef það er ekki nú þegar búið að því. „Þetta er um okkar tíma og við eigum skilið að fá að hlæja og gráta yfir þeim svolitla stund.“