Birkir Blær Óðinsson gerði sér lítið fyrir í kvöld og sigraði í sænska Idolinu. Úrslitakeppnin fór fram í beinni útsendingu á TV4 í Svíþjóð þar sem sýnt var frá Globen höllinni í Stokkhólmi.
Ljóst er að Birkir Blær á framtíðina fyrir sér í tónlist en sem sigurvegari hlýtur hann að launum plötusamning við hina virtu Universal útgáfu.
Í úrslitunum í kvöld kepptu Birkir Blær og Jacqline Mossberg Mounkassa. Í fyrstu lotu tók Birkir Blær lagið All I Ask með Adele, síðan It´s a Man´s World með James Brown og í þriðju atrennu tóku þau sitt í hvoru lagið Weightless sem var sérstaklega samið fyrir keppnina.
Birkir Blær er að norðan og vakti þjóðarathygli á Íslandi þegar hann keppti fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri árið 2018 og sigraði með laginu I put a spell on you. Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti honum verðlaun.