Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og forman Samtaka um líkamsvirðingu, skrifar um tegund ofbeldis gegn feitum konum sem kallast „hogging“ í pistli sem birtist á vef Fréttablaðsins.
Fyrst ræðir hún um mismunandi tegundir ofbeldis sem feitt fólk verður fyrir vegna holdafars þeirra. „Þegar kemur að kynferðisofbeldi má finna tvö mótsagnarkennd þemu. Annars vegar hefur feitt fólk verið afkynjað og talið svo óaðlaðandi að nær óhugsandi sé að nokkur vilji stunda kynlíf með því. Hinsvegar hefur það einnig verið blætisgert og má sjá merki þess í ákveðnum tegundum klámefnis sem einblínir á feitt fólk,“ segir hún og bætir við að afkynjunin sé meira ráðandi í almennri orðræðu.
„Og hefur hún meðal annars þær afleiðingar að feitum þolendum kynferðisofbeldis er síður trúað því þeir eru álitnir of óaðlaðandi til að nokkur myndi vilja nauðga þeim. Í þeim fáu tilfellum sem þeim er trúað mæta þolendur oft því viðmóti að þeir eigi að telja sig heppna að einhver skuli hafa aumkað sér yfir þeim og gert þeim kynferðislegan greiða. Það er því ekki erfitt ímynda sér af hverju feitir þolendur eiga sérstaklega erfitt með að stíga fram með reynslu sína. Hér verður að árétta að kynferðisofbeldi snýst ekki um kynlíf né kynferðislega aðlöðun heldur vald gerandans yfir þolandanum.“
Tara segir að „ýktasta og alvarlegasta birtingarmynd kynferðisofbeldis sem við vitum að feitar konur verða fyrir kallast hogging á ensku.“
„Um er að ræða skipulagt kynferðisofbeldi þar sem hópar karlmanna í skemmtanaleit sækja bari eða skemmtanir í þeim eina tilgangi að finna feita konu til að stunda kynlíf með sér. Oft gera þeir með sér veðmál um hver þeirra sé líklegastur til að ná tilætluðu markmiði það kvöldið og einnig hafa verðlaun verið í boði fyrir að sofa hjá feitustu konunni. „Kynlífið” sjálft einkennist svo oft af því að þeir smána og niðra þolandann á meðan því stendur. Gerendurnir deila síðan sögum sínum innan hópsins í þeim tilgangi að styrkja tengsl sín innbyrðis og öðlast virðingu,“ segir hún.
Tara vísar í rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessari tegund kynferðisofbeldis og segir þær skera sig úr að því leytinu til að í þeim er rætt við gerendur en ekki þolendur. „Þetta gefur okkur einstaka innsýn í hugarheim þeirra en sýnir okkur jafnframt svart á hvítu hversu gjörsamlega samfélaginu hefur tekist að afmennska feitar konur. Þetta sjáum við ekki síst í nafninu, hogging, sem vísar til þess berum orðum að gerendurnir líti á feitar konur sem svín,“ segir hún.
„Lítið hefur heyrst frá þolendum þessa fitufordómafulla kynferðisofbeldis, jafnvel í valdeflingu MeToo-bylgna undanfarinna ára. Það er ekki vegna þess að þeir eru ekki til heldur er nærri óyfirstíganlegt að stíga fram með reynslu sína í því fituhatandi samfélagi sem við búum í. Fitufordómar, afmennskun feits fólks og ljót framkoma er samfélagslega samþykkt og réttlætt. Þannig hefur gerendum tekist að þagga niður í feitum þolendum sínum; með því að beita samfélaginu öllu og viðhorfi þess fyrir sig,“ segir Tara.
Hún segir að við sem samfélag þurfum að samþykkja og viðurkenna feitt fólk. „Og sérstaklega feitar konur og kvár, sem jaðarsettan hóp sem þarf að hlúa sérstaklega að. Ofbeldi gagnvart þessum hóp tekur á sig birtingarmyndir sem ekki sjást annars staðar og við munum aldrei ná að uppræta nauðgunarmenninguna án þess að þekkja allar þessar birtingarmyndirnar, hjálpa þolendum að setja upplifanir þeirra í samfélagslegt samhengi og setja orð á þær og gera gerendurna ábyrga fyrir gjörðum sínum.“