Í gær var tilkynnt um að myndskreytirinn Hrefna Bragadóttir hefði unnið virt barnabókaverðlaun í Bretlandi ásamt hinum þaulreynda barnabókahöfundi Jeanne Willis. Þær stöllur hlutu verðlaunin, sem nefnast The Sheffield Children Books Award fyrir bókina „Don´t go there.“ sem gefin er út af Andersen Press. Bókin hlaut verðlaun í barnaflokki fyrir 3- 5 ára börn (e. Toddler) fyrir árið 2020 en verðlaunahátíðinni var frestað í fyrra útaf kórónuveirufaraldrinum.
„Ég var eiginlega búin að gleyma þessu,“ segir kímin Hrefna í samtali við DV. Hún er búsett í Bretlandi og lauk MA-námi í barnabókamyndskreytingu í Cambridge School of Art árið 2014. Hún hefur myndskreytt fjölmargar bækur og ýmis önnur verkefni eins og hreyfimyndagerð fyrir sjónvarpsstöðvarnar BBC og Nickelodeon. Að auki hefur hún gefið út tvær barnabækur sjálf sem þýddar hafa verið á fjölmörg tungumál og gefnar út víða um heim.
Hrefna vinnur í fullu starfi sem kennari á Animation-braut Arts University í Bournemouth þar sem hún stundaði sjálf nám á árum áður. „Mér var svo boðið fullt starf í kennslunni i janúar og kenni þar núna Animation, Character Design og grunn teikningu á fyrsta ári,“ segir Hrefna.
Þrátt fyrir annir við kennslu og fjölskyldulíf þá vinnur hún áfram í margskonar verkefnum. „Ég er ávallt að vinna í bókahugmyndum en þær malla á lágum hita og mér finnts mikilvægt að leyfa þeim að vaxa eðlilega í stað þess að flýta þessari viðkvæmu sköpunar vinnu. Hugmyndirnar mínar koma i bylgjum en á meðan verð eg að gera eitthvað annað sem færir mér innblástur. Mér finnst mjög gefandi að kenna mitt áhugasvið því nemarnir kenna mér nefnilega ýmislegt til baka og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt um fólk, listina og sjálfa mig. Sá lærdómur hættir aldrei.“
Að sögn Hrefnu var hún afar ánægð með samstarfið við Jeanne Willis sem er afar virtur og margverðlaunaðurbarnabókahöfundur ytra. Hún hefur skrifað meira en áttatíu titla, þar á meðal barnabækur, skáldsögur og sjónvarpshandrit.
„Það var mikill heiður að fá að myndskreyta þessa skemmtilegu sögu. Sagan er mjög fyndin og fjallar um stelpu sem tekur að sér lítinn Marsbúa en uppgötvar að hann kann ekki að nota klósettið,“ segir Hrefna.
Hún segir að tilkynningin um verðlaunin hafi komið sér í opna skjöldu og hún hafi ekki leitt hugann að því hvaða þýðingu slík verðlaun hafa. „Vonandi verður þessi viðurkenning til þess að koma bókina enn frekar á framfæri, til dæmis til bókasafna, svo að enn fleiri lesendur fái notið hennar.“